Gömul kynni og glæný bróðurdóttir

Það gerist allt of oft að maður ætlar að hafa samband við einhvern en einhvern vegin verður svo ekkert úr því, tíminn líður og fólk fjarlægist.

Það kom mér skemmtilega á óvart að fá tölvupóst frá gamalli kærustu með spurningu um hvort við ættum að reyna hittast á kaffihúsi seinnipartinn í dag. (Hún er auðvitað alls ekkert gömul, árinu eldri en ég). Við höfðum hist fyrir tilviljun í lok sumars þegar ég var með hæstvirtum borgarstjórum Reykjavíkur og Winnipeg í Árbæjarsafni og töluðum þá um að vera í sambandi og reyna að hittast.

Við mæltum okkur mót á Kaffi París eftir vinnu og áttum mjög skemmtilegt spjall. Ég held að þetta sé góð áminning um að reyna að vera duglegri að hafa samband við fólk sem ég hef ekki hitt lengi.

Í gær var ákveðið að "starta" Halldóru mágkonu þannig að ég beið spenntur frétta í dag. Um kvöldið hringdi svo í mig nýbakaður faðir ungrar stúlku, þannig að ég er orðinn föðurbróðir!

Ekki veit ég til þess að ég hafi eignast fleiri frænkur í dag.


< Fyrri færsla:
Á eftir törn kemur leti
Næsta færsla: >
Litli trommuleikarinn, hvítvín og heimsóknir
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry