Verðbréfamógúll í dúnúlpu

Hjá mér gerist aldrei neitt, en samt hefur heilmikið gerst undanfarna daga! Í fyrradag (miðvikud.) fékk ég t.d. bréf frá Landsbankanum þess efnis að ég sem hluthafi fengi 10% arð af eign minni. Eftir að fjármagnstekjuskattur er dreginn af arðinum fæ ég út kr. 1.350! Það munar um umsvif okkar stóreignamannanna.

Þar sem ég var nýbúinn að leggja frá mér bankabréfið og lagstur í sófann með DV sem allt í einu er farið að birtast í póstkassanum mínum eins og fyrir töfra (Skyndilega: Blúbbs! Komið DV!) er dyrabjöllunni hringt og sendill kemur með pakka til mín frá Bakkavör (þar sem ég er líka hluthafi). Bakkavör greiðir reyndar engan arð fyrir síðasta ár, en sendir okkur hluthöfum flotta ársskýrslu í staðinn. Það sem mér fannst áhugaverðast þar var að sjá að félagið á rúmlega 7 milljarða króna inni á bankareikningum!

Mér sem major player í íslensku viðskiptalífi hafa því áskotnast af hlutabréfabraski mínu 1.350 krónur og ársskýrsla!

Um kvöldið var ég svo dreginn á krá með þeim frændum mínum miðbæjarrottunum Nonna og Albert. Þar sem Albert var í forsvari var steðjað á Grand Rokk og gripið í Backgammon. Ég spila reyndar aldrei Backgammon, en tókst samt að vinna 3 af 4 viðureignum mínum, lokakast kvöldsins var sérlega glæsilegt þar sem ég sneri töpuðum leik í sigur með því að fá tvo fjarka.

Helst skyggði á kvöldið að þarna var hópur norskra táninga að sukki sem varð til þess að Scooter og önnur óáran var þanin í græjunum svo okkur gamlingjunum lá við örmögnun þar sem við reyndum að einbeita okkur að því að telja upp í 6 (með misgóðum árangri).

Nonni skartaði forláta dúnúlpu að hætti alvöru fjallamanna og það rifjaði upp hugdettu sem ég hafði fengið um að kíkja á útsölumarkað með útivistarflíkur í Everest húsinu. Þangað fór ég svo eftir vinnu í gær og festi kaup á dúnúlpu einni ógurlegri (nokkuð kómískt í ljósi síðustu færslu um sumarjakka og úlputíðir). Ég hef verið að spá í það í allan vetur að fá mér góða dúnúlpu og ef vorið reynist vera komið núna nota ég hana bara næsta vetur í staðinn - 50% afslátturinn var of freistandi.

Í morgun skráði ég mig á leiklistarnámskeið fyrir byrjendur í Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga auk þess sem mynd birtist af okkur hnífakastarahjónunum í Mogganum í morgun - fyrir þá sem ekki þekkja mig í sminki þá er það ég sem stend aftan við Siggu Láru :)

Næsta sýning er á laugardag og síðan aftur á fimmtudag. Stefnir í að ég verði með 7-10 "gesti" á næstu þremur sýningum eða svo - þannig að ég þykist vera að standa mig ágætlega í smöluninni.

Svo er að bresta á með helgi einu sinni sem oftar. Kvöldverðarboð í kvöld, sýning annað kvöld og ef ég þekki sjálfan mig rétt verður eflaust eitthvað um letiiðkun um helgina. Mér sýnist spáin benda til þess að ég geti vígt dúnúlpuna og prufukeyrt.

Svo er minnsti bróðir væntanlegur til landsins eftir helgi, spurning hvort maður fái eitthvað að hitta kauða?


< Fyrri færsla:
Samúð rignir inn...
Næsta færsla: >
Horft um helgaröxl
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry