Kvefbeinóttur

Þá er nokkuð viðburðarík helgi að breiðu baki og örstutt vinnuvika rétt að byrja og næstum búin. Þessa helgi eru í frásögur færandi tvær sýningar, samlestur, púkapössun, níræðisafmæli, kökukaffi, nýyrðasmíð og nýjustu fréttir af þrálátu kvefi sem nú hefur áhrif á göngulag hnífakastarans.

Að kvöldi afmælisdagsins var sýning sem gekk alveg prýðilega. Ég hafði haft vissar áhyggjur af röddinni og sönglögunum en hún hélt til enda (þótt ekki hafi hæstu tónarnir verið sérlega tærir). Í salnum var fámennt en góð stemmning, eða eins og einhver orðaði það; lítt fullur salur af nokkuð fullu fólki. Þarna var vinnustaðarhópur sem hafði millilent á öldurhúsi og mætti hæfilega góðglatt. Það var gaman að fylgjast með því hvernig leikararnir gáfu örlítið meira í brandarana en venjulega, vitandi það að þeir myndu uppskera ríkulegan hlátur.

Í smáklúðrum kvöldsins ber hæst símann sem ekki vildi hætta að hringja, þrátt fyrir að jafnvægisstjóri væri byrjaður að tala við biskupsritara og sýningarstjóri hamaðist á stöðvunarhnappinum sem mest hann mátti. Baksviðs lá sirkusnum við ápissun af hlátri.

Eftir sýningu var sviðsmyndin rifin niður í hasti snarsins og skundað á Andarungann þar sem afmælisbarnið lét það eftir sér að fá sér eins og einn bjór til upphitunar fyrir boðað níræðisafmælisskrall næsta kvöld. Mér leist ekki á að rölta heim í úrhellis rigningunni, heldur þáði með þökkum far sem bauðst og var kominn snemma heim.

Á laugardagsmorgninum byrjaði ég á því að rölta niður í leikhús og sækja bílinn. Þaðan var brunað í samlestur á leikriti sem Björn nokkur Sigurjónsson er með í smíðum - þar las ég hlutverk Signýjar(!) í stykki sem á marga lunkna spretti og mörg helv. góð lög.

Lokaspretturinn í lestrinum var tekinn á spretti og síðan brunað í fallusartáknið í Kópavoginum til að passa púka í yfirstærð fyrir litlum sælgætissjúkum börnum. Forvitnilegt er líklega skásta orðið yfir þá upplifun.

Eftir stutta millilendingu og kjammaskafning á heimaslóð var sviðsmyndin sett upp. Aftur. Á tímabili leit ekki sérlega vel út með mætingu á sýninguna en það rættist prýðilega úr henni þar sem margir mættu án þess að hafa bókað. Ef þessi sýning hefði verið Friends þáttur hefði hún huxanlega fengið nafnið "The one with all the bloopers" þar sem drjúgt var um smáóhöpp - sem ég held reyndar að áhorfendur hafi fæstir tekið eftir.

Þar á meðal endaði einn hliðarflekinn á röngum stað, þannig að í hléi réðst ég á hann í fullum herklæðum með skrúfvél og hávaða miklum. Síminn sem kvöldið áður hafði ekki viljað hætta að hringja var þögull að þessu sinni, en blessunarlega reyndist jafnvægisstjóri vera með góða heyrn: "Er ekki síminn að hringja? Já, blessaður biskupsritari..."

Sviðsmyndargenginu til mikillar gleði þurfti ekki að taka sviðsmyndina niður þannig að við gátum fjölmennt án teljandi tafa á Andarungann í níræðisafmælið. Þannig stóð nefnilega af sér að 1., 2. og 4. apríl eiga fjórir sirkusmeðlimir afmæli og urðu að þessu sinni 29+30+31 ára gamlir. Þetta varð hin besta skemmtun og setið við spjall og sumbl fram eftir nóttu.

Að þessu sinni var veðrið með besta móti og ég rölti því heim á tveimur jafnfljótum undir fullu tungli.

Á sunnudeginum var svo kökukaffi þar sem systkini og hluti frændgarðsins mætti. Ég fékk þar knattspyrnuknött og páskaegg að gjöf. (Knattspyrnuknöttur er nafnorð af líkum meiði og vélritunarvél). Eftir að fylgisveit Vilborgar hafði yfirgefið samsætið gripum við frændur í Scrabble þar sem nýbakaða afmælisbarnið vann með nokkrum glans. Lengsta orð dagsins reyndist "forkaskorts" sem hóf göngu sína sem "sko" og var á tímabili á formi "orkaskorts".

Svipmynd af Scrabble leik í afmæli undirritaðs

Sunnudagskvöldinu lauk síðan á horfun vampýrumyndarinnar Underworld sem reyndist þokkalegasta skemmtun.

Það er annars af þrautseigu kvefinu að frétta að heilt á litið er heilsan góð. Radddýpt og ræmi undir/yfir meðallagi og hóstar á stöku stað. Hins vegar er tekið að gæta verkja í andlitsbeinum og efri kjamma. Það er m.a.s. óþægilegt að stíga fast til jarðar því þá leiðir skellinn upp...

Ekki verður kvabbað meir yfir kvefi í kvöld, heldur upp í ból skriðið.


< Fyrri færsla:
Så har man fødelsesdag
Næsta færsla: >
Páskalingur laus til umsóknar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry