Stórleiks-för um Norðurland

Þá er prýðileg ferð á Norðurlandið að baki, sýningin gekk vel og ég heimsótti fólk og fénað eins og að var stefnt.

Ferðasagan er í stuttu máli á þá leið að um hádegi á fimmtudegi lögðum við frændur í hann á nýju Hondunni hans Alberts. Brunuðum linnulítið til Akureyris fyrir utan smá spjall millum bíla við foreldra mína og mömmu hans sem voru á leið í hina áttina (og pissupásu/gosáfyllingu í Varmahlíð). Í kvöldmat borðaði ég með þeim feðgum dýrindis heilgrillað lambalæri með hvítlauksgeirum (í annað skiptið í þessari viku, bæði voru lærin góð en þetta þó sýnu betra). Svo fékk ég silfurfákinn lánaðan og brenndi í Svarfarðadalinn til æfinga. Þokkalegasti skrjóður. Þar spreyttum við okkur á því að stilla græjunum upp og prufukeyra tæknina auk þess að renna textanum nokkrum sinnum. Ég ók svo aftur á eyrina (reyndar skal tekið fram að ég gisti á Brekkunni, ekki Eyrinni - fyrir þá sem þekkja muninn) og var kominn þangað um eittleytið.

Á föstudeginum rann hinn stóri dagur upp og Albert skutlaði mér á mótsstað. Þetta var hin prýðilegasta einþáttungahátíð. Ég er að vísu ekki dómbær á Hugleiks-þættina þar sem ég hafði séð þá alla áður, en Leikfélag Kópavogs var með tvo bráðskemmtilega þætti og Freyvangsleikhúsið með einn sem átti góða spretti en var svolítið sundurlaus.

Og að því kom að ég fékk að segja mína fyrstu setningu á sviði með Hugleik: "Mikið djöfull er ég búinn að skíta á mig núna!" - og hafði lúmskt gaman af. Ég held að þetta hafi tekist alveg ágætlega hjá okkur og við uppskárum töluverðan hlátur (enda klikka kúk- og pissbrandarar sjaldan).

Reyndar brást ég í því að láta taka mynd af okkur í axjón (en mig grunar þó að við höfum verið tekin upp á band myndarinnar) og því verð ég að láta mér nægja mynd sem tekin var á æfingu hér fyrir sunnan. Hún gefur nokkuð rétta mynd af endanlegri framsetningu, nema að ég var í örlítið síðari brók á sýningunni (því ekki vildum við misbjóða neinum!)

Bleyjugengið; Júlía, Moi og Hrefna

Að hátíð aflokinni sníkti ég mér far hjá nýja leikhússtjóranum aftur í bæinn og eftir stutta millilendingu til sturtunar rölti ég til Ingvars og Deddu. Þar voru gestir auk mín; Sóley, Baldur, Siva og Jói (sem ég var að hitta í fyrsta sinn). Þar lenti ég í ofáti sem sjaldan fyrr og stemmningin minnti einna helst á aðfangadagskvöld þegar maður staulaðist við illan leik yfir í sófann að áti loknu og mátti vart mæla fyrir seddu næsta hálftímann eða svo. Helstu frávik frá jólastemmningunni fólust í því að á mínu heimili eru rommkokteilar og bjórar sjaldséðir með jólasteikinni.

Þegar meltingar komust almennt á skrið færðist aftur líf í mannskapinn og við spjölluðum fram eftir kvöldi um heima og geima, auk misvelheppnaðra tilrauna til samkvæmisleikja.

Á laugardeginum fór ég í hádegismat til Mumma og Hafdísar og hitti þar aðra Sóleyju og það í fyrsta sinn. Eftir að þau hjónin höfðu skilað mér af sér skruppum við frændur á rúntinn með hinni lögbundnu heimsókn í Brynju. Kvöldið fór svo friðsamlega fram með bjórsmökkun og glápi.

Í morgun var svo sofið út, horft á formúluna með öðru auganu og þegar foreldrarnir og Ingibjörg skiluðu sér að sunnan var snætt prýðilegt lasanga og svo brunuðum við aftur suður.

Nú fæ ég mig vart hamið fyrir tilhlökkun um komast aftur í vinnuna...


< Fyrri færsla:
Sem hengdur á þráð (eður þræði)
Næsta færsla: >
Vangaveltur um Íraksklúðrið (okkar)
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry