Barbið

Nú er klukkan að verða hálffjögur á föstudegi hér í borg drottningar. Ég notaði tækifærið til að sofa aðeins út í morgun og er búinn að sitja hér við tölvuskjá síðan um ellefuleytið (með matar- og úrteygingarhléum). Dugnaður hefur reyndar ekki verið neitt ógurlegur, en ég er þó búinn að skila heimaverkefnum í einum áfanganum rúma viku fram í tímann.

Násetar mínir (þ.e. þeir sem sitja á næsta borði) hafa af því miklar áhyggjur að Fredagsbaren skuli ekki enn hafa verið opnaður. Ég var satt best að segja búinn að gleyma honum, en líst vel á að millilenda þar á leið minni heim.

Fyrirsögnin er því vísun í að nú bíðum við eftir að barinn opni.

Nú er ég búinn að fastsetja hvaða þrjá áfanga ég tek á þessari önn (frestur til breytinga rennur út á mánudag). Þeir eru:

Ég kem til með að gefa nánari skýrslu um þessa kúrsa og mína upplifun af þeim þegar meiri skriður kemst á námið, en mér líst mjög vel á þá alla - hvern á sinn hátt.

Þess má þó geta að bundin skólavera mín verður á þriðjudögum og miðvikudögum!

Í kvöld þarf ég að koma við í matvöruverslun og kaupa í morgunverðarhlaðborðið (og græja eitthvað í kvöldmat). Sömuleiðis stefni ég á aðra visitasíu í myntþvottahúsið til að mylja skítinn úr sokkaplöggum og öðru því sem til kann að falla. Ætli ég nördist ekki til að glugga í textana mína úr Interaktionsdesign meðan ég bíð eftir þvottinum... Spennandi föstudagskvöld framundan.

Svo ætla ég að fara í mikinn ævintýraleiðangur í fyrramálið (eldsnemma) og sjá hvort mér takist að kaupa mér reiðhjól á uppboði hjá Kaupmannahafnarlögreglunni. Reyndar á ég í óttalegu brasi með danska talnakerfið svo ég veit ekki hvernig mér mun ganga að fylgjast með á fjörugu uppboði. Vonandi verð ég mér úti um hjól, ef ekki þá ætti ég að geta gengið að notuðu hjóli í reiðhjólaverslun hér í nágrenninu - að vísu finnst mér það í dýrari kantinum, en það er þó yfirfarið af versluninni og ég ætti að geta selt það aftur að dvöl lokinni án of mikilla afskrifta. Það gæti allt eins gerst að takist mér að kaupa hjól þurfi það fyrst heimsókn á verkstæði, enda hef ég engin tól til viðgerða (né þekkingu).

Nú held ég að sé mál að linni, Rammstæn farinn að dynja frá föstudagsbarnum og upplagt að fá sér einn kaldan áður en ég rölti heim. Ég veit að maður á ekki að fara svangur í matarinnkaup, en man ekki til þess að ég hafi gert mikið af því að fara léttslompaður í slíkan leiðangur... Ég hef því vísindalegan rökstuðning fyrir því að fá mér einn!

Góða helgi.


< Fyrri færsla:
Á uppleið á leið á svið
Næsta færsla: >
Ný vinnuvika hafin...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry