Sunnudagur í skóla

Þessi orð eru skrifuð á Surtlu litlu á sunnudegi á annarri hæð ITU þar sem ég og örfáar hræður aðrar sitjum á víð og dreif um húsið og þykjumst vera duglegar.

Mér finnst voða merkilegt að þurfa um helgar að sveifla stúdentakortinu mínu fyrir framan kortalesara við allar dyr til að komast í gegnum þær... Maður er ekki vanur svona háþróuðu öryggi.

Ég kom reyndar aðallega til að kíkja aðeins á tölvupóstinn minn og saxa aðeins á dagbókarskrifin.

Það er margt sem á dagana drífur og manni dettur í hug að gæti átt erindi á vefinn. Svo gleymist það flestallt eða verður minna merkilegt í minningunni.

Ég hef t.d. ekkert hrósað veðrinu nýlega, en þótt örlítið sé farið að kólna gengur enn á með linnulitlu sólskini og dægilegu veðri.

Meðal þess sem ég hef ekkert skrifað um var þegar drukkinn Norðmaður réðst á mig á föstudagsmorgni í síðustu viku. Reyndar réðst hann strangt til tekið ekki á mig, heldur reyndi að spyrja mig að einhverju. Manngreyið var hins vegar gersamlega óskiljanlegt og ég gat því ekki liðsinnt honum. Eftir að hann hafði gefist upp á heimsku minni hjólaði hann af stað og beint inn í næsta runna. Runninn hafði enga leið til að kvarta yfir árásinni og því datt mér í hug að það gæti verið skondið að kvarta á vefnum fyrir hans hönd - en lét það ógert...

Ég hef heldur ekkert skrifað um það að maður veit að maður býr í næsta húsi við kollegí þegar partíhljóðin sem berast utan úr nóttinni eru drukknar konur að syngja hástöfum með "...ekki eins og allar stelpurnar, sem hopp' upp'í bíla með hveeerjum sem eeer!"...

Það er þó pottþétt að ég reyni í þessari viku að lýsa þessum þremur kúrsum sem ég tek og því hvernig mér líst á þá. Svo vonast ég til að geta létt af mér löngu tímabærri textasynd - sem ég ætla ekki að ræða nánar að sinni.

(Voðalega líður mér allt í einu eins og fjölmiðli sem er að rembast við að þóknast lesendahópi sínum).

Á morgun ætla ég svo að reyna að mæta í skólann á sómasamlegum tíma, hlamma mér inn í lestraraðstöðu með Tinnu Surtlu litlu og forrita smávegis, reyna að vinna upp nokkrar ólesnar greinar í Interaktiondesign og kannski gera eitthvað skemmtilegt í leiðinni.

Uppfært: Ég á í brasi með að venja mig af því að kalla Surtlu Tinnu. En fyrir lesendur má taka fram að Surtla litla og Tinna litla eru ein og hin sama.

Stefni svo á að fara í smá skoðunarferð með Gunna frænda eftir skóla á þriðjudag, Sjöfn er væntanleg til borgarinnar í kvöld og við ætlum að reyna að hittast eitthvað í vikunni. Svo er fyrsta stóra hópverkefnið mitt að fara í gang og það mun eflaust taka einhvern tíma.

Nóg að gera. Núna held ég hins vegar að ég rölti heim með viðkomu einhversstaðar þar sem ég gríp með mér sunnudagssteikina.


< Fyrri færsla:
Laugardagur: Danskur imbi hellist yfir
Næsta færsla: >
Skáfrændi!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry