Spúkí plakat

Margrét systir lenti hér í Köben í gær. Elli lenti hins vegar í því á miðvikudag að flugið hans tafðist það mikið að hann hefði ekki náð tengifluginu til Þýskalands og varð að hætta við, hann kemur því ekki alveg á næstunni. Ég hitti Margréti og Thelmu vinkonu hennar í verslanamiðstöðinni Fisketorvet og eftir að komið þeim og farangrinum þeirra til Jóhönnu vinkonu þeirra fórum við Mardí í skoðunarferð um skólann og fredagsbarinn.

Hún rölti svo að hitta vinkonurnar um kvöldmatarleytið, en ég staldraði aðeins lengur við og spjallaði við kunningjana. Staldrið varð ívið lengra en ég hafði ætlað en ég vaknaði ágætlega hress í morgun (þótt sannast sagna hefðu eftirköst ekki komið mér á óvart).

Ég tók það svo rólega í dag og stússaði í heimaverkefnum, enda Margrét og vinkonurnar í afmæli í Hróarskeldu.

Næsta verkefni okkar í grafískri hönnun er að hanna kvikmyndaplakat. Við fengum myndefni til að velja úr, en eigum sjálf að velja nafn og slagorð og tiltaka leikara og aðstandendur.

Myndefnið er allt með börnum, frá kornabörnum upp í táninga, ýmist ein eða með foreldrum. Það lægi því beinast við að búa til plakat fyrir fjölskyldumynd eða heimildarmynd um uppeldi.

Plakat: Raising...

Andstæður eru hins vegar miklu meira spennandi og ég fékk strax hugmynd um að fara í þveröfuga átt. Ég er að verða mjög ánægður með afraksturinn, en ég get ekki neitað því að það er búið að vera hálfóþægilegt að horfast í augu við þetta plakat þróast í þá átt sem það hefur gert. Hins vegar er ég mjög montinn af litlu bröndurunum sem er að finna hingað og þangað.

Það hefur verið svolítið dund að finna leturgerðirnar sem hentuðu, en með hjálp 1001 Fonts tókst mér að finna þær (ókeypis) leturgerðir sem ég hafði þörf fyrir.

Fyrir forvitna er hægt að skoða afraksturinn á pdf formi (880 KB). Ég var búinn að vara við því að það væri soldið spúki, ekki satt?


< Fyrri færsla:
Geimvídjó stríðarar
Næsta færsla: >
Kornung Sharon Stone?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry