Laumufarþegi á fredagsbarnum

Fyrir um það bil viku lenti ég í brasi með hjólið á leið heim úr skólanum. Keðjan rykktist til með skrölti í gírunum með þeim afleiðingum að það var lífsins ómögulegt að hjóla á því. Ég þóttist vita að þetta væri eitthvað vesen með gírana, en trassaði það að skoða málið. Í gær (fös.) vopnaði ég mig skiptilykli, töngum og skrúfjárnum, tölti niður í hjólakjallarann og brasaði þar við að fínstilla gírana.

Það gekk reyndar ekkert sérlega vel og ég var greinilega ekki að leysa vandamálið. Við nánari skoðun kom í ljós að vandinn lá í keðjunni sjálfri, einn liðurinn stóð pikkfastur og af því stafaði skröltið. Það var hins vegar orðið of seint að fara með hjólið í viðgerð (a.m.k. ef það ætti að vera von um samdægurs lækningu), þannig að ég ákvað að láta duga að kaupa olíu á leiðinni á föstudagsbarinn.

Í gær var útskrift í skólanum og athöfninni var að ljúka um það leyti sem barinn opnaði þannig að það var slatti af "nýjum" andlitum á barnum og góð stemmning fram eftir kvöldi.

Á mínu borði pöntuðum við pizzur um kvöldmatarleytið og þær skiluðu sér eftir að hafa villst um alla Amager og var sporðrennt með góðri lyst.

Þegar ég var svo að búa mig undir að skríða upp í rúm um tvöleytið eftir að hafa horft á rétt tæpa bíómynd og aðra lágkúru í sjónvarpinu datt skiptilykill úr vasanum á buxunum mínum!

Ég hafði sum sé afrekað að þvælast með 16 cm langan skiptilykil (skv. IKEA málbandinu mínu) úr galvaníseruðu stáli í rassvasanum allt kvöldið, yfirleitt með veskið í sama vasa. Setið í alls kyns stólum og ekki tekið eftir neinu.

Hugtakið "buns of steel" kemur upp í hugann...


< Fyrri færsla:
Vommbrigði
Næsta færsla: >
Skæp er ekki bara hæp
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry