Verkefnaáþján

Nú telst ég kominn í páskafrí, svona tæknilega séð. Undanfarnar vikur hafa verið heldur hektískar í verkefnavinnu og púlið náði hámarki á fimmtudagskvöldið þegar við sátum þrjú frá 16 til 22:30 án kvöldmatar og rembdumst við að klára.

Verkefnið sem um ræðir er annað af tveimur verkefnum sem verða til prófs í verkefnastjórnun. Þar áttum við að koma með tillögu að nýrri þjónustu fyrir ímyndað dóttufyrirtæki orkuveitu sem býður breiðbandstengingu, stafrænt sjónvarp og síma gegnum ljósleiðara. Við áttum að skila af okkur tillögu til stjórnar og færa rök fyrir því að setja af stað tilraunaverkefni með fjárhagsramma upp á eina milljón danskar til að sannreyna hugmyndina. Hluti af því var að setja upp tíma- og kostnaðaráætlun, reyna að greina helstu áhættuþætti og svo framvegis.

Við erum fimm í hóp sem höfum verið að kljást við þetta undanfarnar vikur og höfum lengst af verið föst á hugmyndastiginu, þ.e. hvað það sé nákvæmlega sem við viljum leggja til og hvaða hag fyrirtækið hafi af því.

Það kom fljótlega í ljós að við höfðum fimm ólík sjónarhorn á verkefnið og eftir að hafa skipt viðfangsefninu upp í hluta sem við unnum hvert fyrir sig var greinilegt að það væri mikið verk eftir að samræma einstaka textana í eina heild.

Eftir að hafa sent tillögur fram og til baka í tölvupósti og ótal umskrifanir á lykiltextum virtist ljóst að hópurinn myndi skila a.m.k. þremur ólíkum útgáfum. Verkefninu skilum við sem einstaklingar, þannig að það er tæknilega ekkert því til fyrirstöðu að einstök skil innan hópsins séu ólík. Við reyndum samt að samræma viðhengi og sátum frameftir degi á miðvikudeginum í því skyni.

Verkefnavinna, tónverk fyrir fimm fartölvur

Eins og áður segir erum við fimm í hópnum og glöggir lesendur hafa eflaust rekið augun í að fartölvurnar á borðinu eru... fimm. Tækninördarnir láta ekki að sér hæða!

Lars, Sidsel Marie, Christina og hnakkinn á Lydiu

Frá vinstri: Lars, Sidsel Marie, Christina og hnakkinn á Lydiu í forgrunni. Sjálfur hélt ég á myndavélinni. Á tölvuskjánum mínum má sjá tímaáætlunina í fæðingu.

Um fimmleytið þurfti ég að fara í kennslustund í grafískri hönnun. Þá vorum við Lars komnir vel á veg með að setja upp verkefnalista og tímaáætlun í Excel skjali og stelpurnar sátu við að lesa yfir textann og fínpússa.

Þegar ég fór heim um níuleytið um kvöldið voru þær enn að, höfðu verið skynsamar og tekið sér matarhlé en voru komnar með nettan svefngalsa, enda grunaði mig af nammiumbúðunum á borðinu að þær væru í smá sykurrússi. Það fór svo að þær sátu við fram undir klukkan að verða ellefu.

Á fimmtudagsmorgninum vantaði enn að skrifa nokkra smákafla sem ýmist hafði verið frestað eða hafði komið í ljós kvöldið áður að vantaði.

Skiljanlega voru stelpurnar dauðþreyttar, þannig að ég reyndi að berja eitthvað saman og við sendum þvers og kruss.

Ég og Lydia þurftum síðan að hitta kennarann okkar vegna hins verkefnisins sem við erum að vinna í (eflaust meira um það síðar). Eftir það settumst við niður þrjú; ég, Lydia og Christina til þess að fínpússa textana og prenta út. Við vorum sannfærð um að það væri alveg að takast þannig að við slepptum því að taka matarhlé heldur keyrðum bara áfram.

Við vorum að til hálfellefu og vorum þá öll orðin meira og minna útkeyrð. Sjálfur hafði ég frá hádegismat borðað eitt Lion Bar og kvartlíter af kóki auk smávegis af ávaxtahlaupi.

Umbúðirnar af kvöldmatnum mínum í forgrunni

Hér má sjá umbúðirnar af kvöldmatnum mínum í forgrunni. Yfirlestur og fínpússun í gangi.

Á sama tíma sátu Lars og Sidsel hvort í sínu lagi og skrifuðu sínar útgáfur.

Um hálfellefuleytið var ég gersamlega útkeyrður, að farast úr þreytu og orkuleysi og alveg hættur að geta einbeitt mér. Ég hafði ætlað að kippa einhverju með mér á leiðinni heim, en sá fram á að gáfulegast væri bara að fara beint heim og smyrja mér samloku fyrir svefninn.

Höfuðið var svo bitið af skömminni þegar ég kom niður í hjólakjallarann og sá að einhver drulluháleistur sem á ekkert nema bölvanir og allt illt skilið hafði stolið ljósunum af hjólinu mínu. Hingað til hef ég treyst samnemendum mínum og látið það eiga sig að taka ljósin af hjólinu þegar ég skil það eftir í (lokaða) hjólakjallaranum í skólanum.

Þar sem því fylgir svimandi há sekt að hjóla ljóslaus (fyrir utan að vera stórhættulegt í kolniðamyrkrinu innan um bílana) neyddist ég því til að teyma hjólið heim með níðþunga töskuna á bakinu og svartar hugsanir í kollinum.

Á föstudagsmorgninum vorum við svo búin að skipuleggja viðtal vegna hins verkefnisins okkar, þannig að við Lydia hittumst aftur í Christianshavn klukkan hálf-níu(!) á föstudagsmorgninum og Karin kom skömmu síðar.

Þaðan lá svo leiðin í skólann að prenta út, græja forsíðu og gorma allt draslið. Við vorum búin að því rétt fyrir hádegið, Lydia fór heim að sofa (enda sagðist hún ekki hafa sofið nema 3-4 tíma vegna stress). Ég fékk mér hins vegar að borða áður en ég fór heim og lagði mig.

Eftir góða slökun þar sem ég náði að gleyma mér í nokkrar mínútur arkaði ég svo aftur í skólann til að hlýða á gestafyrirlestur og að sjálfsögðu kíkja á Fredagsbarinn.

Í dag hefur svo verið letidagur, svaf frameftir og fór svo í sólargöngutúr um miðbæinn.

Framundan er vika án kennslustunda, en það mun ekki veita af að nota tímann vel í lestur því þessi skil voru varla nema 1/5 af fjörinu sem eftir er!


< Fyrri færsla:
Niðurlægingin er alger
Næsta færsla: >
Vilborg borðar spagettí
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry