Danskar bollur og krækiberjahlaup

Nú bíður birtingar í hinu virta tímariti Nature, grein eftir mig með úttekt á samspili dansks bakarísbrauðmetis og krækiberjahlaups frá mömmu. Meðan beðið er samþykkis get ég laumast til að kynna helstu niðurstöður rannsóknarinnar sem greinin segir frá.

Rannsóknin felst í stuttu máli í því að undanfarnar vikur hef ég kerfisbundið keypt bollubrauðmeti af ýmsum gerðum í bakaríum í nágrenninu, klofið til helminga og síðan snætt með krækiberjahlaupi frá mútter.

Bakaríin sem tekið hafa þátt í þessari rannsókn eru:

  • Bakarí Jacob við Holmbladsgade
  • ISO bakaríið
  • Nafnlausa bakaríið á horni Amagerbrogade og Amager Boulevard með asísku afgreiðslukonunni sem talar jafnvel verri dönsku en ég

Keyptar hafa verið bollur af ýmsum grófleikum, ólíkum korntegundum og ólíkum stærðum. Því miður hef ég ekki haldið nákvæmt bókhald um sortir, en hafi ég eitthvað lært í efnafræðinámi við HÍ var það hvernig falsa á rannsóknargögn til að hæfa þeim niðurstöðum sem stefnt er að. Það er því lítið mál að bulla upp rannsóknargögn sem fylgiskjöl til Nature, en ég sé ekki ástæðu til að tíunda þær lygar hér.

Niðurstaðan er einróma; hvort sem krækiberjahlaupið stendur eitt og sér (þ.e. í viðkomandi brauðbollu) (ekki svo að skilja að hlaupið standi í neinum, hvorki mér né bollunum) eða með osti, þykir dómnefnd það alltaf eiga jafn vel við.

Krækiberjahlaupið hennar mömmu og danskar bollur eiga einfaldlega samleið.

Nú er unnið að því að semja viðskiptalíkan á grunni þessarar uppgötvunar. Einkum er horft til asískra markaða og Papáa Nýju-Gíneu í því samhengi.


< Fyrri færsla:
Um aðdáendabréf og skort þar á
Næsta færsla: >
Sjálfsmynd með klemmu í hári
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry