Skin og skúrir í prófatilverunni

Próf númer tvö var seinnipartinn í gær og gekk ágætlega. Ég fékk 10 (um það bil 9 á íslenskum kvarða) gegn því að "lofa" að vinna áframhaldandi verkefni á svipuðu sviði, verkefnið þótti ekki alveg geta staðið eitt og sér en virkað ágætlega sem undanfarin einhvers meira. Í framhaldi af prófinu nefndu svo kennarinn minn og prófdómarinn áhugavert alþjóðlegt verkefni með nokkrum stórum fyrirtækjanöfnum sem er að byrja í haust og þeir taka báðir þátt í. Það kemur sem sé til greina að ég komi að því verkefni með einhverjum hætti og það huxanlega orðið grunnur að mastersverkefni. Ég á von á nánari upplýsingum flótlega.

Næst er svo grafísk hönnun annað kvöld, ég er búinn að vera að dunda mér við að búa til skjámyndir sem ég vonast til að geta notað á morgun. En allt sem heitir munnleg framsetning er enn óunnin. Vonast til að geta reddað því á morgun.

Skúr augnabliksins er að ég var að uppgötva að nýju fínu skórnir mínir hafa rifnað á öðrum hælnum eftir að hafa bara verið í eigu minni í þrjár vikur. Ég hef reyndar grun um að ég hafi rifið þá með þjösnaskap við að klæða mig úr þeim frekar en að þeir séu illa hannaðir. Sólinn stendur aðeins aftur úr hælnum og það er freistandi að stíga á hann til að vippa sér upp úr skónum, þetta eru hins vegar "sokkaskór" og líklega betra að klæða sig úr þeim eins og sokkum. Það er spurning hvernig ég get stöðvað rifuna - a.m.k. verða skórnir lagðir tímabundið á hilluna þar til.

Duct tape er líklega heldur groddalegt, spurning hvort ég get fundið eitthvað samsvarandi taulímband.

Mikið held ég að ég sé að verða aðstæðnaspilltur hérna í Köben. Þegar ég yfirgaf skólann seinnipartinn í gær var veður sem í Reykjavík hefði lamað atvinnulífið - sól og rúmlega tuttugu stiga hiti. Dejligt að rölta aðeins um í rólegheitum, síðan hitti ég Aðalstein sem varði mastersverkefnið sitt í gær og við fengum okkur ís og öllara.

Það verða eflaust viðbrigði að "þurfa" að gernýta alla sólarglætu á klakanum, svo ég tali nú ekki um að geta ekki komið við í sjoppu til að grípa kaldan bjór...

En nú er mál að taka smá dugnaðarkast áður en þrumuveðrið sem búið er að spá brestur á - það væri ágætt að komast heim áður.


< Fyrri færsla:
Boltagrill með íslenskum nasaþef
Næsta færsla: >
Grafík afstaðin
 


Athugasemdir (1)

1.

Óskar Örn reit 22. júní 2005:

Var reyndar lengi vel hægt að grípa bjór í sjoppunni Draumnum á Rauðarárstíg, en svo komust e-ir fasistar í málið. Eins og alltaf.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry