Beðið eftir strætisvagnastjóranum Godot

Verandi bíllaus og starfandi rétt utan göngufæris er ég háður stóru gulu vögnunum um flestar mínar ferðir þessa dagana. Áður en ég fór til Köben fannst mér í þau tiltölulega fáu skipti sem ég tók strætó að auk mín væru þar bara börn, gamalmenni og andlegir öryrkjar af ýmsum toga. Þótt það samræmist ekki fregnum af brjáluðum trukkainnflutningi frá Bandaríkjunum - þá hef ég á tilfinningunni að strætó sé meira notaður núna en áður, jafnvel af venjulegu fólki...

Það gæti þó líka skýrst af því að núna er ég á ferðinni um leið og allir hinir. Á þessari rétt rúmu viku er maður farinn að kannast við nokkur andlit sem eru samferða manni í fimmunni á morgnana - og taka jafnvel eftir því ef skutlan á Langholtsveginum sefur yfir sig og missir af vagninum.

Einn daginn tók ég fimm vagna (vegna snatts í hádeginu) og ég get svo svarið að enginn þeirra var af sömu gerð, a.m.k. voru engar innréttinganna eins. Þann dag komst ég líka í kynni við nokkuð kynlegan* bílstjóra sem ég hef ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta aftur, en leiðir okkar munu eflaust liggja saman fyrr eða síðar þar sem hann virðist aka fimmunni.

*) Ef ég kallaði manninn bandsjóðandi geðveikan væri ég með ærumeiðingar í garð opinbers starfsmanns - er það ekki örugglega?

Umræddur bílstjóri dundaði sér við það að beita sínum eigin túlkunum á umferðarreglunum milli þess sem hann flautaði á allt sem hreyfðist - þó einkum ef það hreyfðist ekki nógu hratt fyrir hans smekk.

Annars upplifi ég þessar strætóferðir með eigin sándtrakki - fyrsta morguninn með Hetfield í góðu trukki; Metal Militia og Seak & destroy hressa meðan beðið er eftir vagninum.

Einn áðurnefndra fastagesta er einmitt iPod böddí minn sem kemur inn á miðri leið og fer út á Grensásnum eins og ég. Hann gætir þess vandlega að halda alltaf á iPoddinum svo allir sjái nú örugglega hvað hann er góður gæji. Ég læt mér nægja að hafa minn í vasanum með litinn á headfónunum sem einu vísbendinguna um hvers kyns spilarinn er.

Verst er að ég er búinn að komast að því að vagninn er ekki á næstu stöð við mig rétt rúmlega tíu mínútur yfir eins og ég gekk út frá fyrstu dagana, heldur rétt tæplega kortér yfir. Fyrir vikið hef ég tvo undanfarna morgna séð vagninn á Suðurgötunni þegar ég kem út úr húsi og þurft að taka 200 metra sprett í veg fyrir hann.

Ég er kannski í þokkalegu langhlaupaformi, en svona sprettur fyrir ísköldan hálfsofandi skrokk er ekkert til að mæla með...

Sjáumst í strætó!


< Fyrri færsla:
Flutningaspanið
Næsta færsla: >
Damn you, Xalazar!
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry