Harry Potter og silfurskotturnar

Lesendur eru beðnir velvirðingar á ítrekuðu rausi um athugasemdakerfið. Hér verður kvæði vent í kross og raupað um hversdagsleg málefni með þeim hætti sem vefur þessi er víðfrægur fyrir (þ.e. í löngu og óskipulögu máli). Meðal viðfangsefna eru Harry Potter, tánaglaklippingar og fauna jafnt björgunarbáta sem baðherbergja.

Fyrir stuttu kláraði ég að hlusta á Life of Pi sem hljóðbók, afbragðssaga og ekki spillti fyrir hvað hún var skemmtilega lesin - sérlega fór lesarinn létt með indverskan hreim aðalhetjunnar. Kemur þá upp spurningin hvað maður eigi að hlusta á næst.

(Það fór líka eins og mig grunaði að ég velti því fyrir mér hvað gerist í björgunarbátnum á þeim 5 klst. og 11 mínútum sem munar á útgáfunni sem ég keypti og óstyttu útgáfunni.)

Hér úti vantar hinar daglegu ferðir með strætó, þannig að reglulegir atburðir þar sem hentar að hlusta á hljóðbækur eru færri en ella. Það er því annað hvort spurning um að kaupa bók sem þolir stopular hlustanir - eða prófa að hlusta á hljóðbækur í kyrrstöðu heimilisins.

(Þess má reyndar geta að Elli bróðir mælti með bókinni Getting Things Done, sem mun fjalla um það að nýta tíma sinn betur. Mér líst vel á bókina en finnst að svona bók vilji maður frekar eiga á pappír en "á hljóði", hef komist að því að hún virðist hvergi fáanleg í kaupmannahöfnskum bókabúðum og hana þyrfti því að sérpanta - hef hins vegar enn ekki komið því í verk (!))

Potterinn

Kollegínetið hefur valdið mér töluverðum pirringi undanfarið með tengiföllum út á alnetið - oft leiðinlega langvinnum. Netið hefur hins vegar þann kost að opni ég iTunes hef ég aðgang að tónlistarsöfnum 3-6 sambýlinga minna (háð því hversu margir eru með kveikt á tölvunni).

Einn þessara sambýlinga (sem ég þekki bara undir nafninu "Whatever") er einmitt með hljóðbókina "Harry Potter og blóðugi-upp-að-mitti prinsinn" aðgengilega í safninu sínu (er það ekki annars sú nýjasta?).

Ég hef lesið (að mig minnir) þrjár fyrstu Potter bækurnar og þótt mig vanti svolítið inn í þá er höfundur duglegur að skýra vísanir í fyrri atburði þannig að það veldur ekki vandræðum. Núna er ég búinn að hlusta á 20 fyrstu kaflana með hléum.

Hlustunin hefur hins vegar sýnt og sannað að multitasking hæfileikar mínir eru heldur takmarkaðir. Ég fer nokkuð létt með hugsanatakmarkaða handavinnu á borð við tiltekt, uppvask og tánaglaklippingar - en ef ég ætla t.d. að vafra um netið eða reyna að forrita dett ég út úr sögunni alveg um leið. (Eða ætti ég að segja "...er ég úr sögunni alveg um leið"?)

Takmarkaður netaðgangur um helgina og dapurt veður á laugardeginum hefur hins vegar hentað vel fyrir setur í hægindastól við passífa hlustun.

Silfurskotturnar

Fljótlega eftir að ég kom hingað út varð ég var við pínulítið skorkvikindi inni á baði. Hafi eitthvað nafn átt vel við viðkomandi kvikindi væri það "silfurskotta", en þó þótti mér dýrið að öðru leyti ekki passa við þá mynd sem ég hafði gert mér af slíkum óargadýrum.

Í fyrsta lagi hafði ég séð þau fyrir mér sem stærri (þetta var ekki nema um hálfur sentimetri) og bæði fjölmennari og ljósfælnari - tröllasögur af silfurlituðum pöddusvermum sem þeyttust í allar áttir þegar stofuljós væru kveikt pössuðu ekki alveg við þetta grey. Ég lét mér því nægja að drepa það (í vísindalegum tilgangi - einnig þekkt sem vísindaveiðar (þótt ég hafi látið ógert að éta hræið)).

Síðan hef ég orðið var við tvö til viðbótar sem hlutu sömu örlög og fundust á sama blettinum; innan við fjórðungi úr fermetra á baðherberginu mínu. Hef ég ræflana grunaða um að laumast undan baðherbergisþröskuldinum.

Það var svo fyrst í gær að ég varð var við vott af hinni steríótýpísku hegðan, kveikti ljósið á baðinu og tveimur silfurkroppum varð greinilega hverft við. Þeir tóku reyndar til bragðs að láta staðar numið á áðurnefndum kvartfermetra og létu fyrir vikið báðir lífið.

Þar sem aðeins er um að ræða 5 hræður á rúmum mánuði (og það á mjög afmörkuðu svæði) - sé ég ekki fyrir mér að svermur þeirra muni ráðast á mig og éta í svefni (a.m.k. ekki á næstunni). En núna er ég búinn að fletta upp hvað kvikindin heita á dönsku (sølvkræ) og geri ráð fyrir að heyra í húsverðinum hvað séu staðalviðbrögð hér á bæ við þessum gestum.

Fleiru frásagnarbæru man ég ekki eftir í augnablikinu og fer því að fá mér að borða.


< Fyrri færsla:
Notendavænleikavandamál
Næsta færsla: >
Stenkur á baðherberginu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry