Próftörn hálfnuð

Ég er kominn út og próftörn þessarar annar hálfnuð, a.m.k. í prófum talið. Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer í sex tíma próf, mæli ekkert sérstaklega með því en get vottað að tíminn líður lygilega hratt.

Þetta var sem sé sex tíma próf, með þremur spurningum upp á 33% hver. Um leið og þetta er lengsta próf sem ég hef farið í er þetta líka það eina þar sem fundarherbergi hefur verið sérstaklega bókað svo maður geti hitt aðra sem eru í sama prófi og borið saman bækur sínar.

Bækur eru kannski ekki rétta orðið, því það var bannað að taka nokkuð með sér út úr prófinu en það var hins vegar leyfilegt (og raunar gert ráð fyrir) að hópar mæltu sér móts og skiptust á ábendingum. Reyndar tímir maður ekki að taka langan tíma í þetta, en í mínum hópi hittumst við tvisvar í ca. 10 mín. í hvort sinn og skiptumst á hintum. Sumt sem rætt var þar kom ágætlega að gagni.

Fyrsta spurningin gekk út á að gera úttekt á usability vandamálum hins merka vefsvæðis Heste-Nettet.dk og þótt þar hafi ég ekki fundið neinar katastrófur var samt af nógu að taka. Í þá spurningu fór líka meira en tilskildir tveir tímar og fyrir vikið lenti ég í smá tímahraki í lokin.

Við svöruðum prófinu beint á tölvu, með aðgang að öllum gögnum sem við vildum, en máttum ekki vera í sambandi við neina persónu - hvorki í tölvupósti né öðru spjalli. Hluti af undirbúningnum hjá mér hafði verið að reyna að meta hvað yrði spurt um og búa til "staðalsvör" sem ég gæti kópíerað inn í próflausnina mína. Það kom á daginn að ég var ekki fjarri svo fjarri lagi og gat notað á að giska þriðjung af því sem ég hafði skrifað.

Í síðasta liðnum áttum við svo bæði að búa til tímaplan og kostnaðaráætlun fyrir notendavænleikatryggingu ímyndaðrar nýrrar útgáfu af vefsvæðinu og það útheimti mikla Excel leikfimi að fá það dæmi til að ganga upp og ég kláraði ekki svarið fyrr en 5 mínútur voru eftir af tímanum.

Þá var ekki um annað að gera en að prenta allar 9 síðurnar (með einföldu línubili) út og vona að maður væri ekki að fokka neinu stórvægilega upp. Yfirlestur var ekki annar en að mér sýndist að ég ætti hvergi hálfar setningar og ég ákvað að vera ekkert að stressa mig á að reyna að kría út einhverjar smálagfæringar.

Ég á erfitt með að meta hvernig mér gekk, en ég svaraði öllu og er örugglega búinn að ná prófinu, en hvort rökstuðningurinn með svörunum er alltaf fullnægjandi er erfitt að segja. Ég myndi skjóta á að ég fái 7-9 á íslenskum skala, með 8 sem líklegasta kost (sem svarar þá til 8-10 á dönskum kvarða).

Þviti

Hitt get ég hins vegar vottað með sanni að eftir sex tíma próf sem endar með tímahraki var mjög gott að komast í sturtu, enda ekki vanþörf á.

Í gær rakst ég á verkefnakennarann minn frá því í 16 vikna verkefninu og í því spjalli komst ég að því að prófið úr því verður líklega kringum þann 20. Ég hef því rúmar tvær vikur til að gera "ekki neitt".

Við Emilie ákváðum eftir prófið að reyna að ná fundi með væntanlegum mastersverkefniskennara sem allra fyrst - helst áður en hann fer yfir prófin okkar, það er nefnilega hann sem fær ánægjuna af því að fara yfir langlokur dagsins.

Skýrsla um atburði liðins jólafrís og ársskýrsla 2005 eru væntanlegar, en ég er eiginlega búinn að fá nóg af lyklaborðsbarningi í dag.

Ingvarsdóttir?

Ég hef af því óstaðfestar fregnir að kannski hafi Ingvarsdóttir og Deddu komið í heiminn nýlega. Ef einhver lesenda veit meira (eða betur) vil ég gjarnan fá uppl eins og það heitir.

Bólar á nefi

Ég veit að unglingabólur eru ungleikamerki, en mér þykir vera alveg nóg þrívídd í nefinu á mér þótt stíblaðir fitukirtlar séu ekki að blanda sér í málið (aftur). Hef fyrir vikið verið heldur Rúdólfslegur undanfarna daga en hef grun um að skömmin muni brátt láta undan utanaðkomandi þrýstingi.

Fleira er ekki í fréttum á alnetinu í dag.


< Fyrri færsla:
Nýárskveðja thorarinn.com
Næsta færsla: >
Létt leti
 


Athugasemdir (2)

1.

Gísli reit 05. janúar 2006:

Hér hefur þú frétt um Ingvarsdóttur og Deddu staðfesta (ekki lýgur mogginn):

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1176847

Eða í styttri útgafu af mbl.is 4.1.2006:
STÚLKUR eru í aðalhlutverki á fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þessa fyrstu daga ársins, en þar höfðu síðdegis í gær fæðst fjórar myndarlegar stúlkur. Fyrsta barnið fæddist kl. 7 að morgni 2. janúar, tæplega 14 marka stúlka, dóttir Elínar Aradóttur og Ingvars Björnssonar á Akureyri. Um hádegi sama dag bættust tvær stúlkur við, tvíburar, en foreldrar þeirra búa á Húsavík. Fjórða stúlkan bættist svo í hópinn í gær en hennar foreldrar búa í Eyjafjarðarsveit.

2.

Þórarinn sjálfur reit 05. janúar 2006:

Frábært! Takk.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry