Jóladagbókin

Jólafríið í stiklum:

22. Heimferð

Eftir að hafa fært síðustu dönsku færsluna gerðist ekki margt fram að flugi. Ég las auðvitað ekki neitt, en tók þess í stað jólatánaglaklippinguna (alveg er ég viss um að þetta er í fyrsta sinn sem þetta orð birtist á alnetinu, google vinur minn er sammála mér um það).

Mér barst hnipping um að það væri mikið að gera á Kastrup, sem mig hafði reyndar grunað, þannig að eftir að hafa stokkið yfir til vina minna á grillbarnum og fengið hjá þeim (og étið) litla pítu hringdi ég á leigubíl.

Þar lenti ég hins vegar á símsvara sem tjáði mér að ég væri 12. í röðinni. Á því augnabliki leist mér illa á blikuna, enda hékk ég í símanum í rúman hálftíma síðast þegar ég lenti í símlegri leigubílaröð. Ég reyndi að búa til plan B, en datt ekkert gábbulegt í hug. Sem betur fer fékk ég fljótlega samband og bíllinn var mættur næstum áður en ég lagði á.

Ég kom svo á Kastrup um það leyti sem innritun hófst og það hafa varla verið nema 10-15 manns á undan mér þannig að það gekk smurt.

Eftir tékkinn fundumst við Emilie og settumst niður til að skiptast á stríðssögum úr nýliðnum 16 vikna törnum vorum og spjalla um komandi mastersverkefni yfir sígó og bönunum.

Þegar ég kom út í vél sá ég tvennt sem gladdi mig. Í fyrsta lagi að sætið sem mér hafði verið úthlutað eftir tölvupóst til Flugleiða (sætabókunin var ekki að virka þegar ég keypti miðann) var við neyðarútganginn og því fótapláss með miklum ágætum. Hitt að í einu sætanna fyrir aftan mig sat meistari Birgir Rafn, sem ég hef ekki hitt í hálft ár.

Ég komst að því að hann er búinn að vera alla þessa önn í KUA, heila 200 metra frá skólanum mínum! Við skildumst með það að reyna nú að hittast aðeins á nýju ári.

Flugið var að öðru leyti tíðindalaust, eina ókyrrðin sem ég varð var við var þegar ég var að standa upp af klósettinu og bograðist við að hysja upp um mig brækurnar, með þeim afleiðingum að ég skallaði létt í klósetthurðina. Góð tímasetning.

Sigmar tók svo á móti mér á nýja Bimmanum, vélin hans Alberts frænda hafði hins vegar tafist þannig að við brunuðum í höfuðborgina án hans.

Þegar ég lagðist til svefns á Fálkagötunni leið mér eins og ég hefði aldrei farið þaðan.

23. Þorlákur

Við Sigmar tókum vél austur rétt fyrir hádegið. Hún hefur varla verið nema 1/3 full, en að öðru leyti var ekkert til frásagnar af því flugi.

Heima á Egilsstöðum var allt eins og vera ber, við systkinin snörluðum meðan gamla settið fór í skötu og um kvöldið var tréð skreytt og við (nærstödd) systkin tókum Matador um kvöldið, sem endaði með að við sættumst á stórmeistarajafntefli eftir að ég hafði bjargað mér með sveitastyrknum (eða hvað það nú heitir).

24. Aðfangadagur

Það bar helst til tíðinda að þegar ég skreiddist úr rúminu rétt fyrir hádegið (eftir að hafa æft aðeins hina göfgu íþrótt bókarlestur undir sæng) var tilkynnt að hinn hefðbundi möndlugrautur í hádeginu myndi frestast fram eftir degi sökum leti heimilismanna.

Þóttu þetta jarteikn mikil.

Ég fékk svo möndluna, en í stað konfektkassa eins og hefð er fyrir hafði systir mín blessunin útbúið skjal þess efnis að möndlufinnari yrði þess heiðurs aðnjótandi að lesa á pakkana. Hlutverk sem annars hefur verið hennar frá því að hún varð læs (henni stundum til mismikillar hrifningar).

Tilburðir mínir til að mæta bindislaus í kirkjuna féllu ekki í góðan jarðveg yfirsiðameistara, þannig að ég hnýtti hefðbundna snöru um hálsinn.

Eins og kunnugir vita eru bekkirnir í Egilsstaðakirkju ekki sérlega vel heppnaðir, og ég var orðinn sárrassaður tíu mínútum áður en athöfnin hófst.

Sárrassaður er kannski fullsterkt til orða tekið, en ég var a.m.k. kominn niður úr svampbólstruninni.

Ekki veit ég hvaða kvalarlostahvatir lágu að baki þeirri hugmynd að láta tvö stúlkugrey spila á fiðlu og klarinett við upphaf og lok athafnarinnar. Þær stóðu sig reyndar vel, en það eru fá hljóðfæri jafn viðkvæm fyrir stressi með tilheyrandi ýlum og skríkjum.

Kirkjukórinn skemmti mér vel að vanda, skemmtilegt að fylgjast með sömu köllunum mæma enn eina jólamessuna. Eitthvað þótti orgelleikaranum (sem um leið er kórstjóri) vanta upp á kraftinn í kórnum og tók því stöku þungarokksrokur á orgelið sem vöktu jafnvel dýpst sofandi heimilisfeður.

Ég hélt þræði langt fram eftir ræðu prestsins og þykir það til tíðinda. Í síðasta þriðjungnum hrökk ég hins vegar upp við það að ég hafði dottið út og náði mér aldrei á strik eftir það.

Hamborgarahryggurinn stóð undir væntingum líkt og ávalt. Ég veit ekki hvort aldrinum fylgir aukin skynsemi, en að þessu sinni át ég mig "bara" vel saddan án þess að springa glæsilega eins og maður gerir oftast.

Þykir hér við hæfi að færa til bókar vefs orð sem féllu spaklega af vörum Magnúsar Teitssonar einhverntíman á síðustu öld:

Mér líður aldrei jafn vel þegar mér líður illa, eins og þegar mér líður illa eftir ofát.

Þessa tilvitnun rifja ég upp á hverjum jólum, að þessu sinni þó helst af akademískri samviskusemi.

Ég held mér hafi tekist þokkalega upp við pakkalesturinn, a.m.k. komst allt til skila. Ég hafði sent lista með gjafahugmyndum á familíuna en var heppilega búinn að gleyma tilveru þess lista þegar ég opnaði gjafirnar mínar og fyrir vikið komu þær allar á óvart - þrátt fyrir að vera meira eða minna allar á listanum.

Snjólega séð var þetta aðfangadagskvöld svona ljósgrátt. Sem á hvít/rauð skalanum hlýtur þá að vera bleikt.

25. Jóladagur

Ég fór í hressingargöngu um bæinn eftir hádegið (eða réttara sagt um -traðir og -velli). Þá var snjógrámi meira eða minna horfinn og eftir stóðu bara lauflausir runnar og missmekklegar jólaskreytingar. Heldur fannst mér bærinn minn lágreistur og hálflúinn eitthvað, held það hefði farið honum betur að hafa yfir sér smá snjóhulu.

Seinnipartinn var svo hefðbundið jólakaffi með hefðbundnum gestum. Við systkin stautuðum okkur í gegnum þýskar leiðbeiningar með LOTR spili sem pabbi hafði fengið í kaupauka. Stautið dugði til að við gætum spilað, en spilið sjálft dugði hins vegar ekki til að heilla okkur. Þótt konseptið væri kannski ágætt hafði það í raun ekkert með LOTR að gera.

Kaffiuppáhellingargræjan sem ég gaf foreldrum mínum í jólagjöf á háskólaárunum og hef grun um að sé bara notuð einu sinni á ári fékk að njóta sín, tekur sig alltaf vel út á bleiku keramikhellunum.

Hins vegar var ekki spilað hálf-tólf. Held það hafi bara gleymst.

Hangikjöt með öllu um kvöldið. Fyrir ókunnuga má geta þess að allt innifelur t.d. appelsínusafa, epli, sinnep og makkarónur.

Fjölskyldusjónvarpsgláp.

26. Annar

Ég reyndi að þykjast lesa smávegis í skólabókunum.

Sigmar fékk Stefán Boga í heimsókn og þeir fóru að keppa á fótboltamóti í íþróttahúsinu. Við pabbi röltum við þar seinna um daginn á leið upp í kirkju.

Þar tókum við þátt í að ranghverfa kirkjunni til að undirbúa tónleika sem fóru svo fram daginn eftir.

Um kvöldið rölti ég upp Koltröðina og hyggede með Hönnu Birnu og Jesper eitthvað fram yfir miðnættið (og reyndar Sif líka, ekki hafði tekist að svæfa hana þegar ég mætti á svæðið).

27. Day of rok

Það var hífandi rok og ekkert flogið fram eftir degi, við áttum hins vegar bókað flug um kvöldið og það fór í loptið á réttum tíma.

Dagurinn sjálfur er ekki sérlega minnisstæður, systkini mín og næturgestir þeirra skreiddust fram úr herbergjum sínum misseint, nema Sigmar sem hafði sofnað í stofunni og var því tæknilega séð kominn fram áður en hann vaknaði.

Líklega hef ég þóst lesa eitthvað.

Flugið suður var aftur tíðindalaust, ókyrrðin sem hafði hamlað flugi fyrr um daginn lét ekki á sér kræla og þetta var hið besta flug.

Í borginni tókum við bræður örlitla X-Box rispu áður en við lögumst til hvílu.

28. Lesið og hizt

Sigmar fór í vinnuna og ég settist við lestur. Náði að klára hraðan frumlestur á kennslubókinni og fór að leggja drög að því hvaða gögn ég tæki með í prófið og hvaða texta ég gæti forunnið.

Um kvöldið hitti ég Ödda og Óskar á Súfistanum. Það reyndist eini félagahittingurinn sem ég náði í þessu suðurskreppi.

Það er ekki nema örfáa daga á ári sem öll fjölskyldan hittist (gerðist síðast snemmsumars) og því var hún sett í fyrirrúm þessara "millijóla".

29. Lesfall og leikhús

Þennan dag sat ég við tölvuskjá og þóttist vera að vinna. Varð lítið úr verki.

Um kvöldmatarleytið komu gamla settið og Margrét akandi í bæinn. Við slörfuðum í okkur kvöldmat og fórum svo á sýningu á Jólaævintýri Hugleiks.

Ég skemmti mér vel.

Hafði reyndar á tilfinningunni að ég þyrfti að sjá leikritið aftur til þess að njóta þess í botn, bæði var ég ekki alltaf að ná öllum tilvísununum og svo var stundum svo mikið í gangi á sviðinu í einu að ég var ekki alltaf að fylgjast með á réttum stöðum.

Pabbi kváði þegar ég hélt því fram að um það bil helmingurinn af leikhópnum hefði líka verið með í Sirkus, það stafar líklega af því að fólk sem verið hafði baksviðs í Sirkus var nú komið framsviðs. Sjálfur hafði ég auðvitað séð jafnmikið af baksviðsfólkinu og leikurum í Sirkus og gerði engan greinarmun þar á.

Ég fór snöggan rúnt um svið og baksvið eftir sýningu og kastaði kveðju á þá sem mig vildu þekkja.

30. Fyrsti í ammæli

Við höfðum planlagt Kringluskrepp fyrir hádegi til að redda ýmsu smálegu. Hins vegar barst beiðni um að hafa ofan af fyrir Vilborgu svo þeim áformum var frestað aðeins.

Vilborg birtist svo við mikinn fögnuð og var hjá okkur fram að kvöldmat. Þegar foreldrarnir birtust með hana var fjölskyldan öll á sama stað í fyrsta sinn í hálft ár.

Þegar hún tók miðdegislúrinn skaust ég með gamla settinu í Kringluna að græja forrétt fyrir gamlárskvöld, smá afmælisgjöf handa litlabróður og annað smálegt.

Ég hefði átt að tuða meira yfir skorti danskra á úrvali góðrar indie tónlistar, Skífan í Kringlunni var engu betri, en vildi meina að diskurinn sem ég væri að leita að (Z með My Morning Jacket) ætti að vera til á Laugaveginum.

Eftir að hafa skotið innkaupum og mömmu heim á Fálkagötuna til að geta ammast, renndum við pabbi með Mardí systur í frænkukaffi hjá Birnu frænku og ég vatt mér í Skífuna á Laugaveginum meðan pabbi hringsólaði um Þingholtin í leit að stæði.

Mér tóxt ekki að finna diskinn á eigin spýtur og virkjaði því afgreiðslustúlku í málið. Hún þekkti diskinn vel og tölvan fullyrti að búðin ætti að vera vel birg af honum en samt fannst ekki eitt einasta eintak þrátt fyrir mikla leit. Þegar hún var farin að reyta hár sitt og skegg sá ég mitt óvænna og bað hana um að mæla með einhverju í svipuðum dúr.

Fyrir valinu varð Illinoise með Sufjan Stevens, sem ég hafði heyrt minnst á en ekkert heyrt af. Það vill hins vegar svo skemmtilega til að hann er eini diskurinn sem toppar Z-una á samanteknum lista Metacritic yfir bestu plötur ársins.

Eftir að þessi kaup voru lox í höfn og okkur feðgum tekist að komast heilu og höldnu úr umferðaröngþveiti Þingholtanna var Vilborg spennt í jeppann og við héldum í fyrsta í afmæli í Hafnarfirðinum.

Þar var boðið upp á dýrindis lax sem gerður var góður rómur að.

Þegar geispur tóku að færast yfir og stjarna kvöldins hafði verið svæfð sigum við heim á leið. Millilentum reyndar hjá Hjölla frænda sem var alvöru afmælisbarn dagsins og tylltum okkur þar í sólstofuna.

Ég endaði svo á því að líta við í lokapartíi Hugleiks, var reyndar stilltur í áfenginu enda bílandi en lenti í nokkrum skemmtilegum spjöllum auk þess að raula með í eins og einum eða tveimur slögurum.

Þar barst í tal kannski hugsanlegt frílansverkefni sem gæti orðið áhugavert. Það kemur í ljós hvort eitthvað verður úr því.

Ók svo heim um þrjúleytið.

31. Gamlárs og ammæli

Á gamlársdag rölti ég til móts við Albert frænda sem kom í velling á Fálkagötuna og horfði með okkur feðgum á fótboltaleiki dagsins. Á meðan dunduðu þær mæðgur sér í eldhúsinu við að búa til forrétt kvöldins, skutlandi lengri hræringarverkefnum yfir til okkar slyttanna í sófanum.

Þar náðum við Albert lox að skiptast á jólagjöfum og fékk ég frá honum væna stæðu af gömlum faunk-lögum, en hann þrýstinn flöskuupptakara frá mér (plan B eftir að Z fannst ekki í Köben) (þ.e. platan Z, ekki plan Z).

Svo var rennt í Hafnarfjörðinn annað kvöldið í röð, að þessu sinni í alvöru þrítugsafmæli litla bróður (sem þýðir að ég verð breiðskífa á þessu ári).

Réttir kvöldsins toppuðu veisluna deginum fyrr, matarvínin voru góð og ég hef oft séð verra skaup.

Eftir skaup lá leiðin upp á nærliggjandi hól þar sem við horfðum yfir áramótageðveiki Stór-Hafnarfjarðarsvæðisins.

Margrét var dræver kvöldins og eftir að Stefán Bogi hafði sótt Sigmar til djamms kom hún okkur heilu á höldnu í vesturbæinn.

1. Glænýtt ár

Árið hófst á því að ég lokaði mig inni í herbergi og reyndi að skrifa eitthvað gáfulegt. Um kvöldið komu svo Elli, Halldóra og Vilborg í mikla afganga- og beikonveislu til að reyna að vinna á beikonfjallinu sem pabbi hafði keypt í misgripum daginn áður.

Allir fóru svo snemma að sofa, en sjálfur lá ég fáránlega lengi andvaka. Þar hlýtur að hafa verið um að kenna stressi, þótt ég finndi ekki fyrir neinum líkamlegum stresseinkennum og yfirvofandi ferðalag eitthvað sem ég gæti farið með bundið fyrir augun (þ.e. ef þeir væru ekki alltaf að breyta Leifsstöð).

2. Útferð

Ég sofnaði þó lox undir morgun og náði 2-3 tímum. Fyrir vikið var ég tuskulegur um morguninn við pökkun og tilraunir til að koma skrokknum í gang. Þegar ég hringdi á leigubíl rétt fyrir hádegið leið mér næstum eins og ég væri að fara til Keflavíkur um miðja nótt.

Ég hresstist þó fljótlega og var tiltölulega snöggur að tékka mig inn, þvældist svo aðeins um í Leifsstöð og keypti mér súkkulaði og svitalyktareyði (klassísk blanda).

Brottför dróst um kortér, en það er vart á orði gerandi (sérstaklega ekki miðað við þær hremmingar sem mér skilst að ferðalangar á leið í hina áttina hafi lent í á Kastrup síðar sama dag og raunar fram á næsta dag).

Á leið minni í úthlutað sæti var ég orðinn bjartsýnn um að fá aftur sæti við neyðarútgang (þeir voru staðsettir á öðrum stöðum í þessari vél en þeirri fyrri). Svo var hins vegar ekki, heldur sat ég í næstu röð fyrir aftan neyðarútganginn.

Fyrir framan var par þar sem hann var fótbrotinn og með gifsaðan fót (sem minnir mig á að ég er enn fúll út í fyrirbærið gifs eftir að hafa tapað spurningaleik á aðfangadag - en það er önnur saga). Flugfreyjan var á því að hann mætti ekki vera fótbrotinn við neyðarútganginn og fékk því okkur sem sátum fyrir aftan til að skipta við þau. Það var ekki fyrr en við vorum búin að spenna okkur að hún áttaði sig á því að hann þyrfti eiginlega að vera hinum megin í vélinni til að koma löppinni fyrir.

Þeim sem þar sátu var því hliðrað yfir ganginn í sætin þar sem ég hafði upphaflega verið en ég og illa lyktandi norska kellingin sátum sem fastast með okkar aukna fótapláss.

Aftur var þetta flug tíðindalaust, nema kannski að hið lögboðna heita kjúklingastykki var glettilega gott og sporðrenndi ég því snarlega. Held ég að systkinum mínum hefði orðið um og ó ef þau hefði séð afköstin, enda er hefð fyrir því að ég sitji einn eftir að áti - sérstaklega um hátíðarnar.

Það tók svo rétt tæplega óratíma að fá farangurinn, en eftir það gekk lokaspretturinn vel. Ég var kominn heim um áttaleytið og ákvað að vera ekkert að reyna að lesa um kvöldið, heldur bara slaka á.

Lýkur þar með samantekt þessa jólafrís, daginn eftir var ég bara að undirbúa mig fyrir prófið og prófið sjálft hef ég þegar fært til bókar.

Lesendum sem hafa enst við lesturinn eru færðar þakkir með léttum áhyggjum af geðjafnvægi þeirra.


< Fyrri færsla:
Létt leti
Næsta færsla: >
Útsöluskröngl
 


Athugasemdir (3)

1.

Þórarinn sjálfur reit 05. janúar 2006:

Eftirgrennslan leiðir í ljós að þessi færsla er rúmlega 16 þúsund slög (með html mörkum) og rúmlega 2.900 orð.

Ég er þegar farinn að kvíða yfirvofandi ársskýrslu...

2.

Elli reit 05. janúar 2006:

Til lukku með próflokin.
Hingað inn er alltaf fínt að skjótast í örstuttar heimsóknir og fræðast um ferðir (með og án fótapláss) fæði og furðuverk þín, með lestri þessara mola...ehemm..

Það er rétt að nýta tækifærið og hrósa þér og skeggjuðuafgreiðslukonunnihjáskífunniálaugavegi. Óhætt er að mæla með Sufjan Stefáns, hálfbróður okkar. Óhefðbundið meistaraverk, já, svona óhefðbundið eins og 3000 orða blogfærsla.....Takk fyrir mig.

3.

Þórarinn sjálfur reit 06. janúar 2006:

Takk fyrir það, próflok er kannski fullsterkt til orða tekið. Ég á enn eftir eitt próf og það gildir 50% af önninni - en ætti ekki að verða til teljandi vandræða.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry