Með grafíker í maganum

Það er náttúrulega fjandanum fjarri mér að kalla sjálfan mig grafíker, en engu að síður hef ég lengi haft áhuga á hönnun og dundað mér við ýmislegt henni tengt.

Kannski er hægt að taka samlíkingu við föndrara sem getur smíðað sómasamlega hillur eða borð, en hefur vit á því að láta sér ekki detta í hug að reyna að smíða húsgögn sem eiga að vera stofustáss né heldur heilu húsin, heldur eftirlætur það fagmönnum.

Við systkinin höfum öll frekar gaman af sjónrænu föndri, en ég held að ég sé sá okkar sem er hvað sístur í frístæl tilþrifum á borð við teikningu eða málun. Þannig að það hentar mér ágætlega að leika mér með letur og form í tölvu. (Kannski að Sigmar sé næst því að vera á minni línu?)

Bolirnir í lífi mínu

Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég þvældist inn á síðuna Spreadshirt.com (þar sem maður getur hannað sinn eigin bol og látið prenta út) að bolir eru líklega það sem ég hef í raun gert mest af að hanna í gegnum tíðina - þótt ekki hafi þeir alltaf verið gefnir út í stórum upplögum.

(Auðvitað að frátöldum öllum þeim ótal vefútlitum sem ég hef hannað og hent í gegnum tíðina.)

Ein jólin fengu t.d. allir fjölskyldumeðlimir hvíta boli sem ég hafði skreytt með fatatússum. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir öllum bolunum, en mamma fékk a.m.k. "Ég er með svarta beltið í jóga" á sinn bol (tilvísun í mismæli pabba sem sagði einhverntíman í símtali að mamma væri í júdótíma þegar hún var í jóga). Pabbi fékk bol með "Læknir" skrifað í spegilskrift á bringuna (sbr. áletranirnar framan á sjúkrabílum). Sigmar fékk "Krully" á bringuna og líklega "Ekkert blóð - engin villa" á bakið. Ég man ekki hvernig bolir Ella og Margrétar voru.

Þeir bolir sem hafa hlotið mesta dreifingu voru samt þeir sem við Þorsteinn hönnuðum og létum prenta í samstarfi við Hvarf (félag efna-, lífefna-, og efnaverkfræðinema við HÍ).

Fyrsta útgáfa voru gráyrjóttir bolir og á bringunni stóð "Lífið er... efnafræði" og þar inn á milli voru myndir og nöfn af nokkrum vel þekktum sameindum (koffíni, testósteróni, östrógeni, acetylsalicylsýru (aspiríni) og einhverju tvennu til viðbótar sem ég man ekki eftir). Á bakinu var svo stór mynd af Tryggi, etanólhundinum, sem enn lifir í merki Hvarfs (sem var hannað af mér og Mumma fyrrum sambýlismanni þegar við bjuggum til fyrsta alvöru vef félagsins).

Árið eftir bjuggum við svo til "Við freistingum gæt þín..." bol með THC, MDMA, LSD, díasepam, metamfetamíni, heróíni og fleiru í þeim dúr á bringunni og á bakinu var aminósýruröð endorfíns og einhver yfirskrift þess eðlis að því fylgdi besta víman.

Þeir bolir voru til bæði grænir og vínrauðir og vöktu töluverða hrifningu.

Svo bjuggum við Sigmar til tvo "You go Girl!" boli sem við gáfum Margréti í útskriftargjöf/kveðjugjöf á leið til .dk hér um árið.

Reglulega fæ ég svo hugmyndir að einhverjum snjöllum bolaáprentunum, en yfirleitt verður það ekki að neinu nema hugmyndunum.

Ef ég gæti treyst því að sendingarkostnaðurinn færi ekki upp úr öllu valdi myndi ég vera mun duglegri að panta mér á netinu skondna boli frá t.d. Spreadshirt, ThinkGeek og fleirum í þeim dúr.

Nafnspjöld

Annað sem ég stend mig að því að rissa upp reglulega eru hugmyndir að nafnspjöldum.

Þau hafa svipaða kosti og bolahönnun að aðalatriðið felst í góðri grunnhugmynd og það að hrinda þeim í framkvæmd er innan gerlegra marka.

Fæst af þessum rissum mínum eru aðgengileg á stafrænu formi, en þó má nefna þessa útgáfu sem ég bjó til í takmörkuðu upplagi á árum mínum hjá borgarverkfræðingi (teikingin er stolin frá Mardí sys og mig minnir að höfundarréttarmál hafi aldrei verið almennilega útkljáð):

Nafnspjaldafikt frá 2003

Spjaldið var líka til í grænu og ég prentaði þetta út á venjulegan pappír og límdi upp á karton og skar út.

Jason Santa Maria

Einn af nokkrum hæfileikaríkum hönnuðum sem ég hef aðeins fylgst með á netinu er Jason Santa Maria. Hann er meðal annars ábyrgur fyrir útlitinu á vefjum á borð við A List Apart.

Jason lýsti því á blogginu sínu síðastliðið haust hvernig hann tók upp á því að líta á brúðkaupsundirbúninginn sinn sem hvern annan viðskiptavin og endaði með heilsteypta hönnun á öllum pakkanum.

(Og talandi um sjónrænt fikt okkar systkina hönnuðu Elli og Halldóra ansi smart lógó fyrir sitt brúðkaup og frumleg kort - en ég hef hvorugt tiltækt á stafrænu formi).

Fyrir nokkru las ég svo færslu hjá honum um ný nafnspjöld sem mér finnast helvíti smart.

Í stuttu máli útbjó hann sér svarthvíta stimpla og nokkrar "silkscreened" arkir (sem er eitthvað grafíkeradæmi sem ég ekki þekki) en tryggir að hver örk er einstök. Síðan skar hann út úr þessu spjöld, stimplaði á þau og rúnnaði lox af þeim hornin.

Afraksturinn varð þessi.

Mér finnst flott hugmynd að öll spjöldin séu einstök, og líka þessi hugmynd að nota stimpla til að búa til spjöld eftir þörfum.

Þótt ég kunni ekki að silkiskrína gæti ég ímyndað mér að maður gæti náð fram flottum áhrifum með vatnslitum á þykkan pappír. Ef ég eignaðist svona hornarúnnara myndi ég líklega láta mér nægja að rúnna af eitt horn (svolítið í stíl við hönnunina á þessum vef).

Smá fikt í fótósjoppunni leiddi svo til þessarar frumgerðar:

Frumskissa að nafnspjaldsstimpli

Mér finnst smart hjá Jason að vera með minimalískar upplýsingar (nafnið sitt, "is a graphic designer" og netfang).

Mér finnst líka Cand.IT vera svolítið töff námsgráða - a.m.k. exotískari heldur en bara M.Sc. - og það væri svolítið í stíl við "altmuligtmand" eðli mitt að vera ekkert að flíka einhverjum starfstitli. Enda sé ég líka fyrir mér að þetta yrðu mín persónulegu spjöld til hliðar við hugsanleg nafnspjöld í nýrri vinnu.

Lox gefur netfangið sjálfkrafa upp slóðina að vefnum mínum (sérstaklega með því að brjóta það upp í tvær línur) þannig að þarna eru eiginlega allar upplýsingar sem fram þurfa að koma.

Jafnvel að námsgráðan væri enn meira artí í lágstöfum: cand.it ?

Ég held að þessi útlínuútgáfa af veflógóinu mínu geri þornið enn ósýnilegra en það er í einlita útgáfunni (sérstaklega fyrir útlendinga), en mér finnst það svolítið smart svona. Ég var að spá í að fylla fletina með skálínum (svipað og Jason) en fannst það ekki koma nógu vel út.

Ég gæti alveg ímyndað mér að ég fínpússi þetta og láti útbúa mér svona stimpil, held það gæti verið gaman að eiga hann (hvort sem ég bý til nafnspjöld eða ekki).


< Fyrri færsla:
Sjortari á skrifstofunni
Næsta færsla: >
Af íþróttameiðslum
 


Athugasemdir (2)

1.

Már reit 22. apríl 2006:

"thorarinn.com" mætti ganga lengra til vinstri - eða @-merkið lengra til hægri. Á þessari skjámynd a.m.k. finnst manni eins og netfangið sé vitlaust hægri-jafnað.

2.

Þórarinn sjálfur reit 24. apríl 2006:

Það er rétt, ég þarf að laga hægri jöfnunina, en þetta er eitthvað hraðsoðið í Photoshop.

Endanlegri útgáfu myndi ég búa til í Inkscape sem ég var að setja upp hjá mér um daginn.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry