Óbrotinn úr boltanum

Er að skríða í hús eftir rétt tæplega 90 mínútna boltaleik í rúmum 25 stigum og steikjandi sól. Skilst að ég sé svolítið rjóður en get vottað að ég er með alla útlimi á sínum tilætluðu stöðum.

Spilaði með sama íslendingahópi og síðast, 4 á móti 5 og ég í fámennara liðinu. Ég var reyndar mest í því að vera aftastur þótt ég sýndi einstaka sóknartilburði.

Komst þó fljótlega að því að ég er hvorki sá langskotsmaður né playmaker sem ég sjálfur hélt.

Við töpuðum að lokum 9-10, en síðustu mörkin létu bíða eftir sér enda lítið orðið eftir af sprettum í mönnum.

Þegar ég kom svo inn í gegnum sameiginlega eldhúsið eftir að hafa hjólað heim ráku Esben og Steffan upp stór augu, Steffan bauðst til að sýna mér spegil og dró upp eldrauða pylsu.

Ég lifi þó í þeirri trú að ég sé aðallega bara rjóður eftir átökin, enda smurði ég mig sólkremi áður en ég lagði af stað (og sneri baki í sólu mestallan leik). Það kemur í ljós þegar ég verð búinn í svalri sturtu og hættur að svitna.

Þori þó ekki að sverja fyrir að eitthvað af sólkreminu hafi máðst af við svitakóf og andlitsstrokur.

Af verkefninu

Annars allt prýðilegt að frétta. Emilie er að ná til botns í teoríukaflanum og sjálfur frumlas ég fyrir algera tilviljun lykilgrein í gær. Við þann lestur minn ljómaði skyndilega yfir með fjölda himneskra hersveita.

Greinin lýsir rannsókn mjög svipaðri okkar í byggingu og ég er búinn að sitja við í dag að skrifa samsvarandi tilraunalýsingu og hinir fróðu menn. Það einfaldar málin töluvert að hafa fyrirmynd sem hægt er að styðjast svona vel við.

Við erum því smám saman að verða bjartsýnni á að við höfum eitthvað þokkalegt í höndunum þegar við förum í fríið eftir tæpa viku.


< Fyrri færsla:
Heimabíó fyrir atvinnumenn
Næsta færsla: >
Kólnar í kolunum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry