Dönskum þurrkum aflýst

Ég hjólaði til Huldar og Sigga í gærkvöldi eftir að hafa alveg hundsað föstudagsbarinn (maður er orðinn svo samviskusamur í ellinni - og svo þurfti ég að ná í búð fyrir lokun).

Þar sátum við í huggulegu spjalli fram undir miðnættið þegar ég hjólaði til baka í grenjandi rigningu og heldur haustlegu veðri.

Þrátt fyrir að vera í þokkalega vatnsheldum jakka var peysan orðin frekar blaut og gallabuxurnar voru auðvitað rennandi.

Síðan veit ég ekki betur en hér hafi rignt í alla nótt og fyrst hafi byrjað að draga úr regninu um hádegið. Þetta hefur reyndar ekki verið alvöru þrumuveðursúrhelli en drjúg úrkoma samt.

En þetta er gott bæði fyrir gróðurinn og lokaverkefnisskrifendur á löngum lokaspretti.

Bæði er auðveldara að halda sig inni við skriftir og svo verður ekki eins mollulegt og heitt þegar sólin nær ekki að skína.

Verkefnaskrif ganga annars eins og við er að búast, þetta mjakast hægt og sígandi og að því gefnu að E. fái ekki taugaáfall (hún hefur reyndar verið með traustasta móti þrátt fyrir vaxandi pressu) ætti þetta allt að ganga nokkurn vegin smurt. Hún býr hins vegar yfir þekkingu á fræðatextum (tengdum því sem við erum að gera) sem ég hef ekki og því myndi ég eiga mjög erfitt með að klára verkefnið ef hennar nyti ekki við.

En við erum enn í góðum gír og stefnum á að vinna á morgun, sunnudag, og senda svo nýtt uppkast á kennarann okkar eftir næstu helgi.


< Fyrri færsla:
Stysti hlaupatúr ever?
Næsta færsla: >
Ekki yfirlesinn enn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry