Frí í sólarhring

Okkar upphaflegu plön um að senda það sem við hefðum tiltækt síðastliðinn mánudagsmorgun og taka frí eftir hádegið breyttust þegar í ljós kom að kennarinn myndi ekki lesa textann fyrr en um kvöldið.

Við þrjóskuðumst því við fram undir kvöldmatarleyti við að böggla sem mestu saman og sendum (þótt stíflaðir póstþjónar hafi gert að verkum að við þurftum að gera aðra tilraun seinna um kvöldið).

Það var svo með ákveðnar endur í hálsum að við mættum á fund hjá kennaranum á þriðjudagsmorgni. Fundarstússið byrjaði reyndar ekki vel, því við reyndum að prenta út eintök af skýrslunni til að glósa í, en prentarakerfið harðneitaði að leika fallega. Þess í stað fengum við bunka af hvítum síðum með örlitlum flugnaskít í horninu sem minnti á hluta af því sem á síðunum átti að vera.

En fornøjelse

John byrjaði hins vegar samsetu vora á því að lýsa því yfir að hann hefði kvöldið áður átt nokkra notalega klukkutíma með tónlist í eyrunum og uppkastið okkar. Það hefði verið "en fornøjelse" að lesa sig í gegnum textann!

Fyrir vikið væru athugasemdir hans aðallega varðandi stöku mislukkað orðalag og ábendingar um áherslur sem við gætum hugsanlega prjónað við.

Það var því stórlega léttaður* hópur sem yfirgaf kontórinn um hádegisleytið.

Og eins og áður sagði ákváðum við að taka okkur frí í sólarhring, enda búin að vinna upp á hvern dag frá laugardegi fyrir rúmri viku (og þann dag fékk E. lítið frí því hún var skírnarvottur hjá bróður sínum). Þannig að ég hafði tekið einn frídag frá því ég kom aftur út og hún engan.

Seinnipartur á meginlandinu

Ég notaði seinnipartinn til að þvælast aðeins upp á meginlandið, rölta um norðurenda Striksins og spá í hvort ég eigi að verja hluta peninganna sem ég á ekki í að kaupa mér eitthvað dísæní-húsbúnaðardót áður en ég kem heim - svona til að spara.

Þaðan lá svo röltið upp að Nörreporti þar sem ég hitti Steina, Sigga og Huld á kaffihúsi.

Eftir kaffihúsið skaut ég inn nefi í bókabúð og keypti handbók um París og greip með mér sjömílnaskó í nærliggjandi sportvöruverslun til að geta vonandi lagt hina merku borg að fótum mér þokkalega sársaukalaust.

Staða mála

Eftir fund gærdagsins ákváðum við að setja meginmálið á hilluna í bili. Í dag (eftir hádegi) höfum við verið að púsla saman viðaukum, og erum svei mér þá komin langt með þá, auk þess sem við erum aðeins byrjuð að kljást við að berja saman lýsandi abstract.

Á morgun ætla ég svo að leggjast í að snurfusa aðeins Flash-umhverfin okkar til að geta skilað þeim með skýrslunni.

Ég veit ekki alveg hvað E. gerir á meðan, en spurning hvort hún fari ekki að bæta kjöti á Previous Works beinagrindina okkar.

Svo ætlum við í sameiningu að fara gegnum athugasemdir John þegar meginmálið hefur aðeins fengið að botnfalla í kollum vorum, snurfusa það sem þarf og ræða hvort/hverja af þeim mögulegu viðbótarvinklum sem hann nefndi við komum til með að flétta inn.

Núverandi bjartsýni gerir meira að segja ráð fyrir að við tökum okkur frí annað hvort laugardag eða sunnudag næstkomandi.

Um helgina sendum við vonandi það sem við höfum á fleiri álitsgjafa.

Og svo er bara að fara að spá í hvað króginn eigi að heita.


*) Já, ég skrifaði þetta viljandi.


< Fyrri færsla:
Trabant og Apparat
Næsta færsla: >
Gámur í október?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry