Farinn og kominn

Fyrsta flugathugun á Þorláksmessumorgun var klukkan 7:30 og þá var ekki svarað í neinum símum hjá Flugfélaginu, þannig að ég eftirlét Margréti systur að hafa auga með textavarpinu og við hringdumst á með reglulegu millibili þar til að því kom að hún tilkynnti mér að við ættum að vera mætt út á völl!

Þá var ekki annað en að hundska sér af stað undan sænginni og gleypa í sig morgunmat á hlaupunum.

Við lentum svo um hádegisbilið og duttum strax í jólaletigírinn. Við heiðruðum svo bæði föður okkar og móður; móðurina með því að fara með henni í verslunarleiðangur í allar aðalverslanir Egilsstaða, föðurinn með því að skríða undir sæng og steinsofna.

Tréð var skreytt meðan ég svaf og við tókum svo rispu á laufabrauðinu með jólabjór - og gekk vonum framar.

Aðfangadagur og jóladagur fóru svo fram með hefðbundnum ágætum. Undirritaður þótti minna á erkileikjastrákinn Hugh eftir að ég hafði mátað teinóttu náttfötin, flónelsslopinn og flókainniskóna frá Alex og sat í þeim fram eftir kvöldi.

Á annan dag jóla fórum við í hressandi gönguferð út í sumarbústað föðursystkina minna í frábæru veðri. Þar voru 4 stafrænar myndavélar með í þessari 5 manna för og var aðalsportið að skrásetja myndatökur annarra. Eitthvað af því skilar sér vonandi í myndaalbúmið áður en langt um líður.

Og nú er ég kominn suður aftur, sit í góðu yfirlæti í góðum félaxskap hjá þeim mæðginum, Alex og Emil.

Arbeit á morgun.


< Fyrri færsla:
Horft til himins
Næsta færsla: >
Fædd í leigubíl
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry