Ítarleg pólitísk yfirborðsgreining

Ég veit ekki hvað ég ætla að kjósa í þingkosningunum og kenni að hluta til flokkunum sjálfum um það ástand, þar sem mér finnst þeim hafa gengið illa að koma sínum áhersluatriðum skýrt á framfæri við mig.

Vissulega tek ég það á mig að hafa ekki haft þolinmæði til að sitja undir kosningafundum stjórnmálamannanna í sjónvarpi, enda fer í taugarnar á mér hvað mér þykja þeir iðnir við að svara í löngu máli án þess að segja nokkurn tímann neitt.

Það virðist mikið ríkara í þeim að passa sig að segja ekkert sem megi hanka þá á, heldur en að reyna að segja eitthvað af viti. Ég veit ég er að alhæfa hérna, en þetta er ástæðan fyrir því að ég nenni ekki að gefa þessum kosningafundum séns.

Ég er þeirrar skoðunar að kominn sé tími til að skipta um ríkisstjórn, þótt ekki sé nema vegna þess að kominn sé tími til að fá nýtt fólk í brúna. Nýir vendir sópa best og ráðamenn hljóta að fara að verða uppiskroppa með vini og kunningja sem hægt er að skipa í opinberar stöður.

Um að gera að hrista upp í spillingunni og gefa færi á nýjum kunningjaráðningum.

Hins vegar er það hluti af því að menn láta ekki hanka sig á neinu að hér er ekki hægt að kjósa sér ríkisstjórn, heldur verður maður að kjósa flokk sem ekki vill gefa neitt upp um það með hverjum hann getur huxað sér að starfa.


Ítarleg yfirborðsgreining

Eftirfarandi er sú mynd sem ég hef núna af flokkunum og málefnum þeirra, einkum byggt á þeim auglýsingum sem ég hef orðið var við. Til að gæta jafnræðis verður farið yfir flokkana í stafrófsröð (a.m.k. þá sem bjóða fram um allt land).

Framsóknarflokkur

Framsókn ætlar að leggja áherslu á að halda áfram að gera það sem þeir hafa verið að gera svo vel hingað til. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað það er, en sýnist það helst felast í því að formaðurinn borði innpakkaðar franskbrauðssamlokur og þvælist fyrir fólki sem er að reyna að vinna vinnuna sína.

Frjálslyndir

Frjálslyndir ætluðu að gera útlendinga að kosningamáli sínu, en klúðruðu því svo hressilega að nú má enginn ræða stöðu innflytjenda án þess að vera stimplaður rasisti. (Sem er slæmt því þetta eru auðvitað mál sem þarf að ræða í einhverri alvöru.)

Það er líka klúðurslegt hjá flokknum að hafa glutrað þessu tækifæri til að höfða til þess stóra hóps sem líður ekki vel yfir þróuninni; sérstaklega gamla fólksins sem sér útlendinga í öllum lágvöruverslunum, strætó og sundlaugunum. Þess í stað virðist flokkurinn ætla að dusta rykið af gömlu baráttumáli, kvótakerfinu. Verst að það eru bara engir Íslendingar eftir sem starfa í sjávarútvegi...

Íslandshreyfingin

Ég hef aðallega tekið eftir notalega heimilislegum heimagerðum blaðaauglýsingum Íslandshreyfingarinnar. Ég veit að þau vilja ekki fleiri stóriðjur og stórvirkjanir, en hafi þau einhver önnur baráttumál fram að færa hefur það farið fram hjá mér.

Samfylkingin

Samfylkingin vill laga tannpínu barna og stytta biðlista. Svo er voða mikið talað um Ingibjörgu Sólrúnu (þótt það sé ekki endilega alltaf á jákvæðum nótum) og hún er klárlega eina konan sem gæti fræðilega orðið forsætisráðherra.

Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðismenn virðast voða ánægðir með störf sín undanfarin ár og eru meira í því að vara við vinstri stjórn en að segja hvað þeir ætla sjálfir að gera.

Jú reyndar, þeir ætla að taka yfir heilbrigðismálin og stytta biðlistana sem hafa vaxið undir þeirra verndarvæng undanfarin kjörtímabil.

Vinstri grænir

Vinstri grænum hefur klárlega tekist að koma umhverfismálum í tízku og nú eru allir flokkar gríðarlega grænir og vænir.

Eftir að glæpnum hefur verið stolið frá VG á ég erfitt með að átta mig á hver er þeirra sérstaða. Nema þeir reyna að gefa sig út fyrir að vera miklu "góðari" en vonda fólkið sem nú er við völd.


Loforð eru ódýr

Núna á lokasprettinum (sem mér skilst að sé hafinn) keppast flokkarnir um að gefa út kosningaloforð í gríð og erg og lofa öllu fögru.

Allir geta þeir endurnýtt að stórum hluta loforð frá síðustu kosningum, meira að segja stjórnin sem enn hefur ekki náð að hrinda ýmsum af sínum loforðum í framkvæmd (eins og Fréttablaðið greindi ágætlega um daginn).

Loforðin virðast öll vera einhvers konar tilbrigði við stefin um velferð og vellíðan, en minna um breytingar á skattheimtu eða forgangsröðun verkefna.

Það er ódýrt að lofa, en auðvitað kostar allt eitthvað svo einhversstaðar verður eitthvað skorið niður á móti.

Ég lýsi hér með eftir samræmdri framsetningu kosningaloforða, bæði þannig að imbar eins og ég getum borið þetta saman í rólegheitum og til þess að menn geti rökrætt tillögur hvers annars á málefnalegum grundvelli.

Það má hafa skoðun á grafískri framsetningu, en í grunninn legg ég til að hver flokkur birti svona samantekt yfir loforðin sem hann setur á oddinn.

LýsingTil framkv.ÚtgjöldTekjur
RennibrautargarðurLok 200730 milljarðar
Ókeypis í bíóSumar 200910 milljarðar
Auknir skattar á öryrkjaStrax20 milljarðar
SAMTALS-20 milljarðar

< Fyrri færsla:
Prýðilegt franskt popp
Næsta færsla: >
Buxur með broti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry