Fiskikör og alheimsfegurðardrottningar

Á laugardagskvöldinu kíktum við skötuhjúin ásamt Ella bróður í lokahóf sambýlisins sem Skúli frændi hefur verið hluti af undanfarin fjögur ár.

Það var eins og við var að búast mikið fjör og fór að mestu fram úti í garði, þótt Singstarið og þurrísskreytta orkudrykksbollan hafi haldið sig innandyra.

Bjórdósir fljótandi í ísbaði í stóru fiskikari buðu upp á skemmtilegt happdrætti, enda voru líklega einhverjar 8 ólíkar tegundir á floti.

Það væri líka að brjóta allar neimdropping reglur ef ég hefði ekki orð á því að nýjasta alheimsfegurðardrottning Íslendinga mætti í partíið ásamt posse sínu (sem voru allar á hælum sem ekki hentuðu sérlega vel til garðteita).

Ég tek það þó skýrt fram að það var Alex sem benti mér á hana, enda horfi ég ekki á aðrar konur í partíum.

Þarna fór ég í Singstar í fyrsta sinn á ævinni og stóð mig með glæsilegum eindæma hörmungum (en tapaði þó ekki með nema 100 stigum fyrir karókídívunni sambýliskonu minni).

Þegar við gamla fólkið kvöddum um tvöleytið var fjörið enn að magnast.


< Fyrri færsla:
Helgi fyrir austan
Næsta færsla: >
Nördast á makkanum?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry