Litir, tónleikaflóðið mikla og frítt hagkerfi

Hér verður rutt út allt of miklum upplýsingum til að rúmast í einni dagbókarfærslu, í einni dagbókarfærslu!

Ég hef lengi haft gaman af því að fikta við grafík og liti, sér í lagi í tölvu, með misgóðum árangri (eins og vefsíður mínar í gegnum tíðina hafa borið með sér). Eitt af vandamálunum þar er að finna réttu litina og það er oft hægara sagt en gert að finna liti sem eru smekklegir og passa vel saman.

Um daginn rakst ég á vefinn ColorMatch Remix sem er endurbætt útgáfa af vefnum ColorMatch 5K sem ég hef vitað af lengi, án þess þó að nota nokkurn tíman í annað en fikt.

Í stuttu máli er þetta vefsíða þar sem maður velur þann grunnlit sem maður vill og JavaScript reiknar svo út 9 liti til viðbótar sem tóna við grunnlitinn. Mér finnst alveg brill að það skuli vera hægt að gera svona með einfaldri stærðfræði út frá litagildum, því það er hægara sagt en gert að ætla að velja saman liti út frá tölunum einum saman. (Hér datt mér í hug að vera með lærðan fyrirlestur um RGB liti sem tölvur (og sjónvarp) byggja á, en held að það sé óþarfi, fikt á síðunni ætti að útskýra það af sjálfu sér).

Það er aldrei að vita nema ég noti þetta einhvern tíman til gamans til að búa til nýtt litaskema fyrir thorarinn.com. Þess má reyndar geta að svona lítur vinnsluútgáfa af litaskema fyrir nýja útgáfu út (valið af sjálfum mér):

nýtt litaskema

Talandi um litaskemu, þá fann ég um daginn svolítið skemmtilega pælingu þar sem höfundurinn reynir að ráða í vefliti ársins 2004 svipað og tískulöggur gera varðandi fatastíl. Ekki vitlausara en hvað annað.

Tónleikaflóðið

Það er líklega að bera í bakkafullt stórfljót að tjá sig eitthvað um tónleikaflóðið sem er að hellast yfir klakann þessa dagana (og á bara eftir að versna), en ég hef aldrei skorast undan ófrumlegheitum og mun því útlista í löngu (og eflaust leiðinlegu) máli hvernig það kom til að ég stefni á þrjá tónleika í sumar.

Ég held að fyrsta hljómsveitarnafnið sem nefnt var og vakti áhuga minn hafi verið Pixies og ég ákvað að maður þyrfti nú að kíkja á þá sögufrægu grúppu, Violent Femmes voru líka freistandi og þegar Deep Purple voru á leiðinni gat maður ekki sleppt þeim.

Kannski er ég svona íhaldssamur og gamaldags, en mér finnst að tónleikamiðar eigi að vera eitthvað sem maður getur keypt yfir borðið á venjulegum opnunartíma. Þannig keypti ég t.d. miðana á síðustu tónleika sem ég fór á í Höllinni, Travis hérna um árið. Það að fara um miðja nótt í biðröð á Laugaveginum finnst mér einhvern vegin út úr kú og það er yfirleitt ekki fyrr en fréttin um að uppselt sé á einhverja tónleika birtist að morgni á mbl.is að ég fatta að kannski hefði maður átt að gera einhverjar ráðstafanir... Auk þess var líklega orðið uppselt á Pixies þegar ég vaknaði þann morgun til að mæta í vinnu (svaf örlítið yfir mig).

Gegnum smá klíkuskap lét ég svo kaupa fyrir mig miða á Deep Purple og til að bæta upp fyrir Pixies-skortinn ákvað ég að skella mér á Placebo líka. Eitthvað var ég hikandi með Violent Femmes, enda Hótel Ísland óspennandi staður, og það passaði að þegar ég ákvað að láta slag standa og skella mér var akkúrat orðið uppselt.

Þegar öll þessi læti voru að byrja lýsti ég því yfir að ef Metallica kæmu til Íslands væri ég til í að láta mig hafa það að húka yfir nótt í biðröð. Það er óþarfi að orðlengja um það að gegnum áðurnefndan klíkuskap varð ég í gær miðaeigandi á fremsta bás á Metallica tónleikum.

Þetta held ég að sé alveg nóg fyrir mann á gamalsaldri, nema auðvitað ef U2 birtist...

Frítt hagkerfi

Að síðustu er tengill á grein sem ég las í vikunni: Giving It Away (for Fun and Profit) Þar er rætt um þá bylgju sem fer vaxandi að fólk geri sköpunarverk sín aðgengileg á netinu með einföldum höfundarréttarákvæðum, sem oft felast í því að hægt er að dreifa viðkomandi verkefnum að vild en að ekki má nota þau í "commercial" tilgangi nema hafa samband við rétthafa.

Ein leið til að útbúa svona höfundarréttarskilmála er eð nota Creative Commons skilmálana sem nánar eru útlistaðir í greininni. Þeim er ætlað að vera skiljanlegir án háskólaprófs í lögfræði - og eru það (svona í aðalatriðum).

Hins vegar var það undirtitill greinarinnar sem vakti fyrst athygli mína:

Creative Commons encourages artists to share and distribute their work for free. And that could be the key to a new multibillion-dollar industry.

Alltaf þegar ætlunin er að græða milljarða á einhverju sem er ókeypis á netinu vekur það tortryggni mína. Þetta var ein af undirstöðum netbólunnar þegar framsæknar viðskiptahugmyndir fólust í eftirfarandi:

  1. Fá hugmynd
  2. Opna vef
  3. Eitthvað
  4. Græða ógeðslega mikið af peningum

(Eins og allir vita vildi þetta þriðja skref eitthvað flækjast fyrir mönnum og bólan sprakk.)

Hins vegar er í þessari grein dregin fram samlíking við myndavélar og ljósmyndaiðnaðinn sem mér finnst mjög áhugaverð. Ef gerð hefði verið krafa um það frá upphafi að fá alltaf leyfi fyrir því að taka myndir af fólki hefðu myndavélar líklega seint orðið jafn útbreiddar og raun ber vitni og allur sá iðnaður hefði varla komist á legg.

Margmilljarða gróðinn sem undirtitillinn vísar til er nefnilega í óbeinni veltu, niðurhali, stærri hörðum diskum, hugbúnaði til listsköpunar o.s.frv.

Ég held það sé hollt að líta upp úr gamla hugsanaganginum um að fái maður eitthvað ókeypis einhversstaðar hljóti alltaf einhver að vera að tapa á því. Það eru skemmtilegir hlutir í gangi í þessa veru á vefnum með t.d. open source forritum og ókeypis myndabönkum o.s.frv. og pottþétt að hugsanagangur fólks kemur til með að breytast á næstu árum...

En nú ætla ég að hætta þessu helv. tuði.

Uppfært: Gerði tengilinn á áðurnefnda grein virkan (smá klaufaskapur).


< Fyrri færsla:
Við upphaf sumars
Næsta færsla: >
Alltaf í fjölmiðlunum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry