Festarjöfnun í garði

Í þessum rituðum orðum sit ég á laugardagsmorgni í forsælunni í bakgarðinum "mínum" sem er mjög huggulegur með trépalli, sandkassa, rólum og þvottasnúrum. Surtla litla (áður nefnd Syrtla og þar áður Tinna) situr í fanginu á mér og við rifjum í sameiningu upp atburði liðinna daga.

Í gær var haldin "fest" í skólanum. Um morguninn var formleg opnun nýju byggingarinnar þar sem krónprinsinn klippti á borða og þriggja tíma ræðuhaldamaraþon var brotið upp með kolsvörtum hálfnöktum trommuleikara sem böðlaðist um svalir hússins. Ég missti reyndar af þeim herlegheitum þar sem ég var að skríða saman eftir fimmtudagspestina. Þeim sem mættu þótti víst ekki mikið til ræðuhaldanna koma en hrósuðu þó hádegsverðarhlaðborðinu sem boðið var upp á að ræðum loknum.

Um kvöldið var svo kvöldverðarveisla sem var haldin í miðrými skólans. Þar var lagt á borð fyrir nokkur hundruð manns og boðið upp á prýðilegt hlaðborð með asískum réttum, í eftirrétt var svo ávaxtasalat og allt toppað með kaffi og dýrindis súkkulaði. (Í mínu tilviki var það síðastnefnda reyndar te og dýrindis súkkulaði, en það er svo lítið frávik að það tekur því varla að nefna það - hvað þá að bruðla á það heilli setningu með svigum og öllu saman).

Ég var ekki viss hversu mikil matarlystin yrði eða hvernig kræsingarnar myndu leggjast í meltinguna, en það reyndist engin ástæða til að óttast það.

Dönskum samnemendum mínum þótti mörgum uppsett verð fyrir veisluna heldur hátt. Mér reiknast svo til að það hafi jafngilt 2100 krónum íslenskum og fyrir veislu með prýðilegu hlaðborði og (haldið ykkur) ókeypis borðvínum finnst mér það hins vegar vel sloppið.

Reyndar skil ég vel að menn voru óánægðir með að ekki skyldi vera hægt að kaupa sig inn á veisluna eftir borðhaldið gegn lægra verði því ekki gátu allir mætt í matinn (eða höfðu áhuga á því).

Þrátt fyrir þetta var veislan vel sótt af okkur nýbyrjuðum DKM-urum (design, kommunikasjon og media) og ég átti ágæt "spjöll" við samnemendur mína. Eftir borðhald færði mannskapurinn sig yfir á ScrollBarinn og spjallaði þar um heima og geima þar til diskótekið hófst og gerði samræður torveldar mjög. Skynsemin sagði mér að fara rólega í bjórinn, enda nýstaðinn upp úr margumræddri pest. Fögur fyrirheit færðust reyndar örlítið aftar í forgangsröðina þegar leið á nóttina, en allt var þetta innan nokkuð skynsamlegra marka.

Ég fór heim um fjögurleytið og náði einhverjum 6-7 tímum í svefn. Venju samkvæmt finn ég aðeins fyrir áhrifunum af óbeinum reykingum og þráðbeinni áfengisneyslu en það er varla orð á því gerandi.

Það má segja að það hafi verið samnefnari í öllum spjöllum mínum í gær að baununum þykir merkilegt hvað mér gengur vel að bjarga mér á dönskunni og a.m.k. einn þeirra reyndi að sannfæra mig um að danska væri mjög erfitt tungumál, miklu erfiðara en t.d. þýska. Ég lét mér nægja að kinka kolli.

Annar trúði mér fyrir því að ég væri með flottasta nafn í heimi. Honum þótti mjög merkilegt að ég skyldi geta rakið uppruna nafnsins míns til þrumuguðsins Þórs (ásamt arnarlíkingunni í "ari") og ekki spillti fyrir að nafnið mitt skyldi minna hann svo sterklega á heim Tolkien. Ég vissi ekki hvert hann ætlaði þegar ég benti honum á nafn Þórins (Eikinskjalda) úr Hobbit. Sjálfur héti hann bara Jesper og hefði ekki hugmynd um hvað það þýddi...

Ég reyndi einnig að svara spurningum um trúarlíf Íslendinga, halda uppi vitrænum samræðum um íslenskt tónlistarlíf og meðtaka allt að því yfirgengilegt hrós um hlutverk mitt í hópverkefni vikunnar. Viðkomandi hópfélagi minn var nokkuð viss um að hefði mín notið við á fimmtudeginum hefði okkar verkefni líklegast unnið. Aftur lét ég mér nægja að kinka kolli og þakka hrósið.

Ég hafði ætlað mér í IKEA leiðangur í dag, en held ég fresti því aðeins. Spóki mig frekar um hér á Amager og sjái hvort ég nái ekki að gera eitthvað af viti. Ég hef reyndar grun um að verslanir séu almennt ekki opnar nema til kl. 2 og þá er ekki nema rúmur klukkutími til stefnu...

Ég komst að því um daginn þegar ég prófaði í fyrsta sinn að hafa kveikt fyrir þráðlaus net í tölvunni að í herberginu mínu næ ég 4-6 ólíkum þráðlausum netum. Sum þeirra eru opin, en sambandið er svo slæmt að það slitnar í sífellu. Hér úti í garði er hins vegar fínt samband, 11Mbit og galopin tenging (heitir því traustvekjandi nafni "default"). Ég stóðst ekki mátið og las moggann og kíkti á nokkur blogg.

Ég ætla hins vegar að láta það ógert að senda þessar dagbókarfærslur mínar gegnum þessa opnu nettengingu. Fyrst ég get "sníkt" á henni er nokkuð líklegt að einhver tölvulæs á kollegíinu hér handan við vegginn hafi sett upp pakkaþefara (í vísindalegum tilgangi) og það myndi þýða að lykilorðið mitt að thorarinn.com væri í voða. En ef mér tekst að koma mér upp SSL tengingu við vefumsjónarkerfið er ágætt að vita af þessum möguleika.

Að lokum verð ég að hrósa veðrinu sem hefur verið alveg meiriháttar þessa daga sem ég hef verið hér. Það hefur að vísu rignt hressilega hluta úr dögum en þá hef ég næstum alltaf verið innandyra og ekki átt nein erindi út. Annars hefur verið linnulítil sól og 15-20 stiga hiti. Helst að maður geti kvartað yfir því að stundum svitnar maður óþægilega mikið á göngutúrum. Sérstaklega þegar ég er orðinn of seinn í skólann og fyrsta kortérið af tímanum fer í að reyna að beita viljastyrknum til að stöðva svitaflóðið (með litlum árangri) og vona að svitalyktareyðirinn standi sína plikt.

Jamm, nú er kominn tími til að hætta þessu pikki. Taka jakkafötin af snúrunni þar sem þau eru í viðrun og prófa að athuga hvort stærsti flóamarkaður Kaupmannahafnar sé opinn (spurningunni um það hvernig ég myndi koma þeim mublum heim sem ég myndi hugsanlega kaupa þar verður svarað þegar og ef að henni kemur).


< Fyrri færsla:
Risinn af sóttarsæng
Næsta færsla: >
Maraþonganga um útjaðar Kristjaníu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry