Maraþonganga um útjaðar Kristjaníu

Eftir skriftir laugardagsmorgunsins hélt sólin áfram að skína og gleðja jafnt bauna sem íslinga. Eins og að var stefnt stúderaði ég hið rómaða bláa pakkhús sem helst verður lýst sem risavöxnu Kolaporti, örlítið ýktara á flesta vegu.

Det blå pakhus

Þarna var hægt að fá allt sem nöfnum tjáir að nefna; antíkhúsgögn, leðursófa, draslhúsgögn, sjónvörp, vídeótæki, tölvur, postulín, skartgripi, bækur, hljómplötur, vídeómyndir, DVD myndir, stakar sjónvarpsfjarstýringar í kassavís og svo videre og svo videre. Loftið var svo mettað ryki og reyk, enda púuðu bæði gestir og sölumenn tóbaksgöndla af ýmsum gerðum. Meðaldaninn í hinu bláa pakkhúsi er ekki sérlega ljós yfirlitum, í raun væri hægt að skipta sölumönnum (og að stærstum hluta gestum) í tvennt; þá sem augljóslega voru ekki komnir af dönskum víkingakonungum (hér ætlaði ég að slá um mig með nöfnum en mundi engann sem ég get fullyrt að hafi verið danskur) og þá sem voru nógu gamlir til að geta vel hafa þekkt einhvern af víkingakonungunum. Með öðrum orðum voru þetta innflytjendur og gamalmenni.

Ekki var nú laust við að mann grunaði að eitthvað af þessum varningi hefði nýlega dottið af vörubíl í nágrenninu. Mér fannst ekki sérlega traustvekjandi að einn af símavarningssölumönnunum auglýsti þá þjónustu að opna PIN lása á símakortum. Hentugt ef þú ert búinn að gleyma PIN númerinu þínu, eða ef þú þarft að virkja síma sem þú hefur stolið...

Mér þótti líka tilkomumikið (þótt á annan hátt væri) að sjá þarna til sölu eldgamlar tölvur, sér í lagi gömlu fartölvurnar sem voru helst á stærð við símaskrár (fyrir allt landið).

Þrátt fyrir að hafa séð margt forvitnilegt sá ég ekkert sem ég þurfti nauðsynlega á að halda og/eða nennti að drusla með mér heim. Ég rölti því tómhentur aftur út í sólina, millilenti í Amager Centrum á leiðinni heim og keypti mér handklæði, danska þýðingu á Artemis Fowl til að bæta orðaforðann og brauð og álegg í kvöldmatinn. Það reyndist enginn hægðarleikur að kaupa álegg. Ég hafði ætlað að kaupa skinkusneiðar og ost, osturinn var auðfundinn en í risastóru kæliborði áleggs var hægt að fá allt nema skinku! Ég snerist í hringi kringum sjálfan mig og endaði á að kaupa niðursneiddar kjúklingabringur.

Eftir að heim var komið kastaði ég aðeins mæðinni og gluggaði í bókina. Síðan ákvað ég að þar sem ég hefði ekkert betra að gera á þessu laugardagskvöldi myndi ég fara í göngutúr og ganga norður með síkinu sem skilur að Amager og Christianshavn. Ég smurði mér því samlokur og hellti mjólk í flösku (mjög danskt nesti að eigin áliti) (þ.e. mínu áliti, nestið var ekki spurt).

Sólin skein enn og ég lagði á mjóan malbikaðan stíg. Reglulega mætti maður hjólandi eða hlaupandi Dönum og allt var þetta nokkuð dejligt. Það var síðan eftir um 10 mínútna gang að á vegi mínum fóru að verða nokkuð merkileg hús. Þau stóðu nokkuð dreift meðfram stígnum og minntu helst á gamla litla sumarbústaði með frekar... frjálslegan arkitektúr. Mörg hver virtust hafa vaxið nokkuð lífrænum vexti og stækkað í ýmsar áttir. Stórir gaskútar fyrir utan bentu til þess að ekki væri gasveita á staðnum, víða voru voldugir eldiviðarstaflar sem biðu vetrarins, en þrátt fyrir að í sumum húsunum ætti maður erfitt með að ímynda sér að byggi fólk var samt á þeim gerfihnattadiskur!

Það var svo íbúinn sem sat úti á veröndinni og tottaði vatnspípu sem renndi stoðum undir þá tilgátu mína að líklega einskorðaðist fríríkið Christiania ekki við Christianshavn, heldur næði örlítið yfir síkið líka.

Hús við síkið

Þessi stígur teygði sífellt lengra og lengra úr sér og ég var farinn að velta því fyrir mér hversu langur hann gæti eiginlega orðið þegar hann breyttist skyndilega í kaótískt bílastæði og tengdist við "alvöru" götu. Eftir að hafa ráðfært mig við kortið komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega fyndi ég ekkert áhugavert ef ég héldi áfram í norður, heldur sneri ég aftur til suðurs og eftir töluvert þramm skilaði ég mér aftur heim. Mjög lauslega áætlað sýnist mér þetta hafa verið tæplega 6 km ganga í heildina, sem er nokkuð drjúgt.

Á bakaleiðinni lá leið mín meðal annars fram hjá Kløvermarken sem er stórt grassvæði, eflaust um 10 hektarar eða svo, allt skipt upp í litla fótboltavelli og með þeim allra mesta fjölda af knattspyrnumörkum sem ég hef á ævi minni séð. Einnig fór ég bakdyramegin fram hjá bláa pakkhúsinu og stóðst ekki mátið að smella af mynd af götunni með hið tilkomumikla nafn Prags Boulevard:

Breiðgatan Prags Boulevard

Ég komst svo að því að það er ekki nóg með að ég sjái Øresundskollegíið út um gluggann, heldur er húsalengjan sem ég bý í samtengd við eina álmu þess nokkrum stigagöngum frá mér. Ég hef bara aldrei rölt nógu langt í þá átt til að átta mig á því.

Þegar heim var komið lagðist ég svo við myndvinnslu og skriftir. Afrakstur skrifanna má lesa hér, myndvinnslan ætti að skila sér smám saman í dagbókina á næstu dögum.


< Fyrri færsla:
Festarjöfnun í garði
Næsta færsla: >
Afsakið hlé
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry