Á uppleið á leið á svið

Mér sýnist hér hafa verið sett nýtt met í notkun orðsins "á" í fyrirsögnum á þessum merka vef. Einþáttungur sem ég hef verið að berja saman með hléum frá því í vor er nú í miðju æfingaferli og mun forvitnum lesendum thorarinn.com gefast færi á að berja dýrðina augum (á undan höfundinum sjálfum) síðar í september.

Einþáttungurinn heitir "Á uppleið" og er að grunni til byggður á þættinum "Vel klæddur maður", en þó með veigamiklum breytingum.

Hrefna Friðriksdóttir leikstýrir og hún kom strax með þá snilldarhugmynd að kynbreyta einni persónanna. Fyrir þá sem hafa séð handrit að þættinum í smíðum má ljóstra upp að Bjólfur heitir nú Brynhildur. Textinn sem Bjólfur fór áður með breytist hins vegar lítið sem ekkert og fyrir vikið er Brynhildur skemmtilega á skjön við dæmigerðar kynjastaðalmyndir.

Hrefna hefur safnað einvala leikhópi og ég held að þetta verði hin besta skemmtun. Því miður á ég í vissum landfræðilegum örðugleikum með að taka þátt í æfingaferlinu og sé ekki fram á að ná frumsýningu heldur. Ég fæ þó reglulega skýrslur frá Hrefnu um gang mála og líst vel á það sem frést hefur af uppsetningunni.

Ég mun treysta á myndbandatæknina og þannig sjá dýrðina þótt síðar verði.


< Fyrri færsla:
Yfirdýnan sem hvarf
Næsta færsla: >
Barbið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry