Danir... hjóla

Það er freistandi að láta fyrirsögnina standa eina og sér, enda segir hún næstum allt sem segja þarf. Næstum.

Ekki svo að skilja að það hafi komið mér í opna skjöldu að Danir skyldu hjóla mikið. Bæði er það auðvitað altalað og svo var ég hérna í fyrrahaust og sá þetta með eigin augum.

Hins vegar vekur það enn furðu mína hversu hátt hlutfall ferðast á hjólum og hversu fjölbreytt úttakið úr þjóðfélaginu er. Maður sér virðulega menn í jakkafötum, tískudrósir á manndrápshælum (því miður sjaldnast í stuttum pilsum...), gelgjur, gamalmenni, róna og allar hinar týpurnar.

Nokkur umræddra hjóla

Allir eiga hjól og hjólin eru út um allt. Þau standa úti fyrir íbúðarhúsum, utan við verslanir og í hundruðavís á metró og járnbrautarstöðvunum. Auðvitað verður svo ótölulegur fjöldi þeirra viðskila við eigendur sína með einum eða öðrum hætti og maður fær næstum á tilfinninguna að yfirgefin hjól fjúki á næturnar um mannlausar götur - svona svipað og greinabrúskarnir (eðahvaðþettanúer) sem fýkur um malargöturnar í öllum vestrum með snefil af sjálfsvirðingu. Húsfélögin taka síðan reglulegar rassíur og auglýsa að ákveðinn dag verði öllum ómerktum hjólum utan við húseignina hent.

Fleiri umræddra hjóla

Til að koma öllum fyrir eru sérstakar akreinar fyrir hjól við allar götur og það hlýtur að vera töluverð kúnst að aka bíl innan um alla þessa hjólandi umferð því ef bílstjóri ætlar t.d. að taka hægri beygju eiga hjólreiðamenn sem eru í raun að fara fram úr honum hægra megin allan rétt.

Sama gildir auðvitað um gangandi vegfarendur, þeir þurfa að passa hjólandi umferð (sem oft fer rösklega yfir) og ég hef grun um að einhverntíman eigi ég eftir að gleyma mér og verð þá að treysta á árvekni hjólreiðamannsins sem fyrir mér verður.

Það er algengur misskilningur heima á klaka að Danir eigi ekki fjallahjól. Ég myndi þvert á móti skjóta á að fimmtungur til fjórðungur allra hjóla væri það sem kalla mætti fjallahjól (og það er heill helv. hellingur af hjólum). Eins og gefur að skilja eiga fæst þessara hjóla eftir að komast á fjöll á sinni lífsleið en ég get vel skilið að breið dekk, góðir gírar og höggdemparar séu kostir í borgarumferðinni. Aðalókosturinn við að vera á fjallahjóli finnst mér vera sá hvað maður er álútur, mér finnst það hálfóþægilegt heima á klaka, og hér er það verra þar sem ég kann ekkert á systemið (og vil gjarnan geta skoðað í kringum mig líka).

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, en ég heyrði því einhversstaðar fleygt að í Kaupmannahöfn séu engin mislæg gatnamót. Í IKEA leiðangrinum sá ég reyndar að þegar út fyrir byggðina kemur og hraðbrautirnar taka við taka götur að krossa mislægt, en ég man ekki eftir að hafa séð mislæg gatnamót eins og þekkjast í Reykjavíkinni hér innan "borgarmarkanna".

Auðvitað búa Kaupinhafnarbúar að því umfram t.d. Reykvíkinga að hafa almenningssamgöngukerfi sem virkar (og hjólin sín auðvitað) og bílaeign hér er ekki nærri jafn algeng og heima. Ég sæi ekki alveg hvernig hægt væri að byggja þessar 4-6 hæða fjölbýlishúsalengjur sem hér tíðkast ef krafa væri um 1,5 stæði á hverja íbúð eins og raunin er að verða í Reykjavík (ég held að þessi tala sé nokkuð nærri lagi í nýjum hverfum, þ.e. þetta er sá stæðafjöldi sem vitað er að fólk mun þurfa). En nú er ég farinn að tala út fyrir efnið.

Aftur að ómislægu (flatlægu?) gatnamótunum. Þau eru kannski ekki á mörgum hæðum og meðaldaninn á kannski ekki marga bíla, en safnast þegar saman kemur og mér taldist svo til um daginn þegar ég fór yfir gatnamót aðeins norðan við Strikið (ekki langt frá Nørrebro ef það segir einhverjum eitthvað) að ég færi yfir 14 akreinar á gangbraut. Inni í þeirri tölu eru sérreinar fyrir strætisvagna og reiðhjól, beygjuakreinar og aðalakreinar. Það er drjúgur spölur að ganga á einum ljósum...


< Fyrri færsla:
Dag(bókar)draumar og væntingar
Næsta færsla: >
Broddstafavesen
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry