Fimmtudagur til lítils frama

Eflaust á ég eftir að bölva iðjuleysi mínu þessa daga þegar skólinn kemst á fullan skrið. Núna stend ég sjálfan mig hins vegar að því að haga mér eins og túristi í sumarfríi þessa daga sem ekki er skóli, sef frameftir og rölti um í sólinni og versla.

Fyrsta morgunverkið (á fimmtudeginum) eftir sturtu og morgunmat var rakstur. Hef ég sjaldan lent í öðru eins. Ég var með þokkalega nýtt blað og allt það, en þessi tæplega tveggja vikna vöxtur reyndist með eindæmum harður af sér. Það kom mér eiginlega þægilega á óvart að ég skyldi ekki sitja uppi með sundurtætt andlit eftir þessi ósköp, en allt hafðist þetta að lokum og ég minni ekki nafn mikið á keppanda í Survivor og ég gerði þegar ég vaknaði.

Síðan rölti ég út í góða veðrið og eftir smá krókaleiðum endaði ég í skólanum þar sem ég gerði úttekt á þeim bönkum sem eru í nágrenni við mig. Niðurstaðan varð sú að sækja um reikning hjá Skandia Bank, sem reyndar er eftir því sem mér sýnist eingöngu á netinu, enda virðast þeir bjóða lægstu þjónustugjöldin á þeim þjónustuliðum sem ég myndi nota (þ.e. næstum eingöngu umsýslu með Dankort, debetkort þeirra dönsku).

Eftir þessa úttekt rölti ég aftur út í sólina og keypti hádegismat í 7-11. Sá hádegisverður fær ekki háa einkunn. Ég keypti mér samloku og kók, kókið var kalt og hressandi en bæði brauðið í samlokunni og kjúklingurinn voru með eindæmum þurr. Dýrt (á danskan mælikvarða) og óspennandi. Verður ekki endurtekið.

Meira var spásserað og meðal annars staldraði ég aðeins við í kirkjugarðinum sem er hérna steinsnar frá mér (og ég þarf að krækja fyrir í hvert sinn sem ég fer í metróinn). Sá heitir því virðulega nafni Vor Frelsers Kirkegård og þar er notalegt að sitja í forsælunni og anda að sér ilminum af trjánum.

Þaðan lá leiðin í Amager Centrum undir því yfirskini að kaupa blý í blýpennann minn (nokkuð öruggt merki um að maður er aftur kominn í skóla þegar maður fer að kaupa blý og strokleður). Keypti blý, strokleður og Bic penna og týndi svo pokanum. Ég þvældist upp á eftri hæðina í sentruminu sem einkum er með fataverslanir (og er mun bjartari og hlýlegri en neðri hæðin sem mér þykir með eindæmum drungaleg). Þar fór ég meðal annars inn í þá minnstu Intersport verslun sem ég hef enn komið í og endaði með að kaupa mér skópar. 299 krónur danskar fyrir flotta skó sem áður kostuðu 700 krónur var of gott til að standast það, jafnvel þótt undir öðrum kringumstæðum hefði ég eflaust keypt þá einu númeri stærra - svona til öryggis - skellti ég mér á par og treysti á að með notkun muni þeir aðeins stækka (a.m.k. frekar en hitt).

Við skómátunina varð ég viðskila við pokann minn úr bókabúðinni, en varð ekki var við það fyrr en ég var búinn að kaupa inn í matinn. Pokinn reyndist þó enn þar sem ég hafði lagt hann frá mér og var því ekki týndur nema stundarkorn.

Eftir að hafa hlaðið stórinnkaupunum (brauð, mjólk, jógúrt, álegg og bananar) í ísskápinn og aðeins teygt úr mér í láréttri stellingu bretti ég upp ermar, skellti klemmum á buxnaskálmarnar og fór í hjólreiðatúr eftir Islands Brygge. Reyndar fann ég ekki íslenska sendiráðið sem á að vera á þessum slóðum, en fékk þess í stað prýðilegt veður og smá æfingu á hjólinu.

Þótt hnakkurinn sé þokkalega breiður og mjúkur kvartar minn ofdekraði skrifstofuarass yfir honum og millumherðablaðavöðvar kvarta yfir herðastellingunni. Hvorttveggja treysti ég þó á að muni lagast með æfingunni.

Eftir hjólreiðatúrinn tók ég smá skorpu í Hitman og skrapp svo í kebabbúllu sem nafni minn Leifsson hafði mælt með, kvöldmaturinn var því einhverskonar kebab í upprúllaðri pönnuköku - prýðisgott og fer vonandi betur í mig en hámborgarinn sem ég er orðinn sannfærður um að var valdur að því að leggja mig í rúmið fyrir tveimur vikum síðan.

Sá hámborgari var reyndar stærsti sinnar tegundar sem ég hef á ævi minni séð (sem er reyndar lygi því einn gestanna á undan mér pantaði tvöfaldan svona borgara, það er stærsti hamborgari sem ég séð). Minn var samt alveg nógu stór, kjötstykkið sjálft á stærð við pönnuköku og annað í samræmi við það. Afraksturinn sá að ég torgaði ekki nema hálfum og skellti afgangnum í ísskáp til að borða daginn eftir - sú sparsemi olli því líklega að ég lá flatur í sólarhring.

Ekki svo að skilja að ég lifi eingöngu á skyndibitum, þvert á móti borða ég stundum brauð og jógúrt og hef meira að segja eldað mér núðlur!

Ég hef ekki nennt að standa í því að kaupa "alvöru" matvörur, borða þess í stað heitan mat í skólanum í hádeginu og/eða á kvöldin með aðstoð góðra veitingamanna.

Þess má að lokum geta að ég er núna orðinn formlegur hluti af danska systeminu, kominn með danska kennitölu eða CPR númer eins og það heitir: 020473-4011. Finn hvað dönskukunnáttu minni fleytir miklu hraðar fram eftir að ég fékk númerið í hendurnar. Allt annað líf.


< Fyrri færsla:
Broddstafavesen
Næsta færsla: >
Föstudagur: Búslóðarheimt
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry