Föstudagur: Búslóðarheimt

Eilítið seinna á föstudagsmorguninn en upphaflega var stefnt að hringdi ég á sendibílastöðina tregangfyreogtredve og pantaði hjá þeim "lille kassevogn". Hann kom síðan um hádegisbil (og var ekki mjög lítill) og í sameiningu skröltum við í Pakkhús 55 sem var heldur tómlegt en þó með nokkrum misstórum íslenskum búslóðum og tveimur finnskum Subaru Impreza.

Þegar heim var komið dröslaði ég sjónvarpinu, þremur kössum og skrifborðsstól upp í þremur ferðum. Þar rifjaði ég upp hvað leyndist í kössunum og var nokkuð ánægður með það sem upp úr þeim kom. Hins vegar sýnist mér að ég hafi ekki tekið með mér Ecco inniskóna mína (eins og mig minnti) - það þykir mér miður því ég hafði hugsað mér að geyma þá í nýúthlutaða læsta skápnum mínum í skólanum og grípa til þeirra á löngum skóladögum. Að öðru leyti var ég ánægður með það sem í kössunum leyndist.

Ég bardúsaði aðeins við að finna öllu stað, þar sem fataskápurinn er þegar næstum fullur ætla ég að nota kassana sem geymslustað fyrir vetrarfatnað og annað minna notað. Um leið verða þeir náttborð (eins og pælingin er núna), bókakassinn verður líklega flattur út og geymdur undir rúmi. Sjónvarpskassann er ég að hugsa um að nota sem sjónvarpsborð fyrst um sinn - ef hann þolir það burðarfræðilega séð.

Þetta virðist allt ætla að rúmast þokkalega í herberginu og aldrei að vita nema mér takist að gera það sæmilega huggulegt.

Eftir umröðun og pælingar tróð ég nokkrum samlokum í andlitið á mér, skellti mér í sturtu og skundaði í skólann. Þangað átti ég reyndar engin erindi önnur en að ganga frá umsókn um banka, skoða tryggingarmál og setja dagbókarfærslur á vefinn (auðvitað tókst mér að gleyma að afrita eina þeirra yfir á USB kubbinn og hún birtist því ekki fyrr en í dag (sunnudag)).

Svo var auðvitað fredagsbar!

Þar setti ég nýtt viðverumet og sat á barnum frá ca. 15:30 til 22:30. Þá var heldur farið að fækka gestum en þó líklega verið um 30-40 manns eftir. Langdvöl mín var gerð möguleg með ókeypis samloku ættaðri af KUA (Københavns Universitet på Amager, sem er hér í næsta húsi) og skólasystur mínar komu með færandi hendi.

Bjórdrykkja mín setti engin met, ég skipti yfir í gosið fljótlega eftir kvöldmatinn og lét renna af mér í rólegheitum. Ég held því að það hafi ekki verið Carlsberg Classic Gylden að kenna að fyrir svefinn skellti ég vænni slummu af Nivea Face and Body Cream á tannburstann minn. Túbuhelvítin líta næstum alveg eins út í rökkrinu!

Ég uppgötvaði mistökin um leið og kremspýjan frussaðist út og drjúg skolun með heitu vatni þreif tannburstann með sómasamlegum hætti.

Þá sannreyndi ég að það er vonlaust að spila Hitman uppi í rúmi (nema að hafa mús) (og jafnvel erfitt með mús). Eiturlyfjabaróninn er því enn á lífi.


< Fyrri færsla:
Fimmtudagur til lítils frama
Næsta færsla: >
Laugardagur: Danskur imbi hellist yfir
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry