Innrás geispanna

Eins og ég hef áður sagt frá virðist sem það sé vespu eða geitungabú utan á húsinu þar sem ég bý einhversstaðar fyrir ofan gluggann minn. Ég hafði af þessu áhyggjur fyrst í stað, en í ljósi þess að eldhúsglugginn (sem er við hliðina á mínum) er næstum alltaf opinn og að vespurnar/geitungarnir sækja ekki þangað inn hef ég verið óhræddur við að opna gluggann minn.

Ég veit ekki hvort þetta eru geitungar eða vespur (að því gefnu að þar sé munur á). Mér finnst kvikindin þó örlítið meira gul heldur en geitungarnir sem maður á að venjast á klakanum. Ég held að það þýði ekkert að spyrja Dani út í þetta því samkvæmt íslensk-dönsku orðabókinni minni er sama danska þýðing á geitung og vespa; hveps.

Það er því annað hvort að tala um kvikindin sem vespunga eða geispur og þykir mér síðara nafnið heldur skemmtilegra (sérstaklega í beygingu).

Ein og ein geispa hefur slysast inn um eldhúsgluggann og tvisvar hef ég fundið dauða geispu á gólfinu inni hjá mér (kýs að trúa því að þær hafi dáið úr hungri frekar en eitrunaráhrifum af óhreinum sokkum). Þetta hefur ekki truflað mig að neinu ráði - þótt ég viðurkenni að ég reyni að hafa sem minnsta viðveru í eldhúsinu ef þar er geispa og myndi eflaust forða mér ef ég rækist á eina lifandi inni í herberginu.

Í gær þegar ég kom heim um kvöldmatarleytið voru skilaboð frá Andreas um að við hefðum fengið hvepse heimsókn í eldhúsið og að hann hefði spartlað í sprungur þar sem þær virtust koma inn.

Síðar um kvöldið hitti ég svo Andreas og fékk alla sólarsöguna. Hann var sem sé að þvo upp þegar geispa fór að sveima í glugganum, hann lokaði glugganum og drap geispuna en þeim fjölgaði í sífellu. Alls giskaði hann á að hafa drepið milli 20 og 30 stykki með Lemon Fresh sápu og dagblaði. Það virðist sem geispurnar séu farnar að leita að vetrardvalarstað inni í lagnastokk hússins sem m.a. virðist opnast inn í ruslaskápinn okkar og nokkrar glufur og sprungur í flísalögn eldhússins virðast líka veita inngöngu.

Ekki veit ég hversu lengi ég hefði þraukað í uppvaskinu við þessar aðstæður, þannig að ég er feginn að hafa ekki verið í hans sporum.

Andreas er búinn að spartla í flísasprungurnar og þétta ruslaskápshurðina þannig að nú vonum við að vandamálið sé úr sögunni - þó er spurning hvað gerist næst þegar maður opnar ruslaskápinn! Lét það alveg ógert í morgun, en kemst líklega ekki hjá því í kvöld.

12. október verður því minnst sem dagsins þegar innrás geispanna í eldhúsið okkar Andreasar hófst - fyrstu orustunni er lokið með sigri heimavarnarliðsins en úrslit stríðsins eru enn ekki ljós.


< Fyrri færsla:
Nasaþefur af menningarnótt með íslensku ívafi
Næsta færsla: >
210. færslan
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry