desember 2004 - færslur


Að drepast ofan í klofið á sér

Mikið væri gaman ef ég gæti veitt lesendum innsýn í klámbarninginn sem nú hellist millum lima í höfundahópi Hugleiks. (Tæknilega séð gæti ég það auðvitað, en ég held að það sé meira viðeigandi að halda þessum húmor innan hópsins.)

Sjónvarpsbindindi og þrumuflassbakk

Í viðleitni minni við að auka verkefnalega framlegð mína hef ég sett sjálfan mig í sjónvarpsbindindi, enda sé ég ofsjónum yfir þeim klukkustundum sem varið hefur verið í ameríska lágkúru með dönskum undirtextum á liðnum vikum. Eins og sönnum fíkli sæmir bjó ég mér samt um leið til undanþágu.

Föstudagur

Nú er farið að dimma, klukkan orðin kortér yfir fjögur og enn bólar ekkert á fyrirhuguðum textaafrekum dagsins. Ég er samt búinn að safna að mér punktum úr ýmsum áttum og þegar ég kemst í gang mun ég ryðja þessu út úr mér. En núna er það fredagsbar = komin helgi!

Að vera í sambandi...

Loxins, loxins, loxins. Eftir ótal tilraunir og bras er ég orðinn nettengdur gegnum sameiginlegt þráðlaust netverk mitt og Andreas. Ég fór í dag í visitasíu í musteri Mammons, Fields, fann þar nálina í heysátunni (þ.e. þráðlausan router fyrir B standardinn, ekki G sem er tvöfalt dýrari og er engu betri fyrir mig). Nú er ég búinn að tengja, virkja nýja routerinn hjá TDC og allt virðist í glimrandi sóma.

Sextán þrír?

Á föstudagsbarnum í gærkvöldi var ég spurður af glottandi samnemanda mínum hvort tölurnar sextán þrír hefðu einhverja merkingu fyrir mig.

Jólakortið 2004

Í stað þess að sýna dugnað og vinna í fjögurra vikna verkefninu mínu er ég búinn að hanna jólakort ársins 2004 og sendi það hér með til allra lesenda thorarinn.com, nær og fjær.

Vinur minn með orma...

Undanfarna daga hafa ýmsir gagnmerkir aðilar keppst við að senda mér lykilorð, staðfestingar og upphrópanir í pósti. Allt með viðhangandi illilegum viðhengjum. Dreg ég af þessu þá ályktun að einhver af vinum mínum sé með ormasmit.

Dvalaeðli?

Með hverjum degi sem líður styrkist ég meir og meir í þeirri trú að mér sé að einhverju leyti eðlislægt að leggjast í dvala yfir háveturinn. Það er reyndar ekki svo að ég safni fituvef og finni hjá mér óviðráðanlega tilhneigingu til "hreiðurgerðar", en ég þykist samt greina skýr merki um dvalatilhneigingu.

Smellið hér: Þágufallssýki vefsins?

Það er merkilegur andskoti hvað (að öðru leyti) sæmilega greint fólk getur þrjóskast við að nota textann "smellið hér" fyrir alla veftengla, oft þannig að bara "hér" er virkt. Til að bíta höfuðið af skömminni finnst sumum líka töff að hafa tengla eins ósýnilega og hægt er.

Tenglasúpa

Mér þykir við hæfi eftir að hafa tuðað yfir tenglanotkun í gær að puðra hér út í raf-loptið nokkrum tenglum af ýmsum toga sem mér hafa þótt eftirtektarverðir með einum eða öðrum hætti undanfarið.

Jólasnigl og málafærnihnekkir

Ég skaust í miðbæinn fyrir hádegið og kíkti aðeins í búðir. Keypti m.a. eina jólagjöf og buxur fyrir pabba gamla, auk þess að gjóa augum að huxanlegum jólaskyrtukandídötum. Í H&M keypti ég mér húfu, enda hefur mér einhvern vegin tekist að glutra gömlu húfunni minni úr augsýn.

Danskur kansellístíll lifir enn góðu lífi.

Ég sit við skrif/matarborðið mitt um miðnætti á föstudagskvöldi og er að brasa við að skrifa texta sem útskýrir hvers vegna það er allt í lagi að guaranabætti bjórinn okkar fari yfir hámarksmagn koffíns samkvæmt dönskum lögum og reglum.

Sniðugt þetta internet...

Fyrst maður er byrjaður að puðra út tenglum á áhugavert efni er engin ástæða til að láta staðar numið. Hér er ýmislegt smálegt sem mér finnst áhugavert:

Stúdentsræfill í Hafnarpóstinum

Í morgun kom inn um bréfalúguna mína málgagn Íslendingafélagsins í Køben; Hafnarpósturinn. Þetta tölublað þykir mér sérlega áhugavert þar sem ég á pistil í því!

Danir... eru sprengjuóðir

Því er haldið fram að flugeldaæði okkar klakverja kringum áramótin sé einstætt í heiminum. Það kann að vera, en flugeldaæði bauna það sem af er vetri hefur komið mér í opna skjöldu. Heima puðrast upp einn og einn flugeldur fram eftir vori, en hér hefur varla liðið sú vika að ekki leiki allt á reiðiskjálfi í sprengingum.

Sunnudagspiparsteikin

Ég er að verða ansi lipur í að steikja danska nautakjötið. Reyndar er kannski rétt að taka fram að naut dagsins var uppvaxið í Þýskalandi en uppskorið í Danmörku. Að auki fyllist eldhúsið í hvert skipti af reykjarbrælu, veit ekki hvort ég kann ekki almennilega á gasið eða hvort mig vantar bara að nota meiri olíu.

Langur verkefnadagur að baki

Í dag var ég að brasa í verkefninu í skólanum frá hálftíu til hálfátta. Meðal verkefna var að tappa brugginu okkar á flöskur, rétt tæplega 10 kassar.

Having a bad day?

Ég var að fá þetta í tölvupósti og stóðst ekki mátið að skella þessum myndum upp. Ég veit ekkert á hvers höfundarrétti ég er að traðka með því að birta þetta hér, en tilgangurinn helgar meðalið.

Afkastafall af póstþjónsvöldum

Nú höfum við setið dugleg hvert í sínu horni í hópnum og tölvupóstar þeyst á milli. Svo skömmu fyrir kvöldmatarleytið sendi ég frá mér tvo stutta kafla og með það sama hættu stelpurnar greinilega og fóru í mat. Síðan heyrði ég ekkert frá þeim og var farinn að óttast að þær hefðu endanlega gefist upp á að reyna að skilja dönskuhraflið sem ég böggla saman.

Allt á fullu

Í gær, miðvikudag, vorum við í skólanum frá 10 til 21. Sátum inni í einu af glerbúrunum og böggluðum saman textanum okkar. Um kvöldmatarleytið fóru stelpurnar í það að lesa yfir stafsetningu og orðalag (ég var skiljanlega gagnlítill í því). Þess í stað dúllaði ég mér (of mikið) við að teikna upp flotta forsíðu. Eftir yfirlesturinn braust svo út létt panikkast.

Allt í góðum gír

Fundurinn með kennaranum okkar í hádeginu reyndist mjög góður. Hann var á því að plaggið hefði batnað mikið frá fyrstu útgáfu (nýtt trix í bókina; passa að fyrsta eintak sé nægilega lélegt til að kennarinn geti séð greinilegar framfarir eftir að hann kemur með sínar fyrstu athugasemdir).

Í prentaranum, dúa...

Klukkan er 18:26 að staðartíma. Fyrsta eintak af okkar endanlega rapport hefur staðist gæðaprófun og nú hefst fjöldaútprentun. Þá er bara að gorma dýrðina og krossleggja svo fingur og vona að ég lendi ekki í neinu brasi með að brenna geisladiskana í kvöld.

Smá grafíkgrobb

Útprentun og gormun á skýrslunni gekk áfallalaust fyrir sig og við vorum komin með tilbúin eintök í hendur um kvöldmatarleytið. Fínt að vera með gripina í höndum og ekki laust með að ég sé helvíti ánægður með forsíðuhönnunina.

Projektet afleveret!

Rétt fyrir klukkan tvö afhentum við formlega þrjú eintök af skýrslunni okkar með viðlímdum geisladiskum. Mér tókst að vísu að gleyma einum disknum heima og hjólaði því í snarhasti heim á svörtu kvenreiðhjóli með bleikri farangurskörfu og ónýtri handbremsu.

Danir... eiga hunda sem skíta

Síðasti hluti fyrirsagnarinnar er kannski óþarfur, enda skilst mér á líffræðingum vinum mínum að flestir ef ekki allir hundar skíti, alls óháð þjóðerni eigenda. Hins vegar er það einmitt það atferli (skítferli?) þeirra sem fer í mínar fínustu.

Postmortem verkefnaskila

Ég veit ekki betur en öllum sem ég þekki hafi tekist að skila sínum verkefnum á fyrirhuguðum tíma. Sumir voru reyndar frekar tæpir á því, en slapp þó til. Það hefur verið vandlega brýnt fyrir okkur að við verkefnaskil gildi einungis klukkan á skrifstofunni, þegar hún er orðin eina sekúndu yfir skilafrest er sjoppunni lokað. Ekkert tillit er tekið til þeirra náttúruhamfara sem kunna að hafa vafist fyrir samviskusömum nemendum á lokasprettinum (þar með talið bilun í prentarakerfinu).

Lokasprettur jóla

Í gær skaust ég í mína lókal verslunarmiðstöð og náði þar að klára jólagjafainnkaup. Seinnipartinn hitti ég svo Sigmar litla á Höfuðbanagarðinum og við hlupum við fót eftir Strikinu í jólaslyddu. Reyndar í erindisleysu þar sem það sem drengurinn ætlaði að kaupa fannst ekki í H&M. Hins vegar fannst (venju samkvæmt) slatti af Íslingum í jólainnkaupum og meira að segja nokkrir sem við bræður þekktum (þrátt fyrir dapurt skyggni).

Ársþriðjungsyfirlit

Fyrirtæki skráð á Verðbréfaþingi gefa út ársfjórðungsskýrslur með yfirliti yfir helstu lykiltölur og horfur á markaði. Ritstjórn thorarinn.com hefur nú tekið þá ákvörðun að feta í fótspor þeirra, en eðlis starfseminnar vegna er litið til síðastliðinna fjögurra mánaða, eða ársþriðjungs. Aðspurður um það hvort þetta væri fyrsta skref í átt að skráningu thorarinn.com á hlutabréfamarkaði vildi ritstjóri hvorki játa því né neita.

Jólastormurinn sem hvarf

Daginn fyrir Þorláksmessu tóku veðurpostular fjölmiðlanna að vara við stórhríð og bálviðri frá Þorlák og fram yfir jólanótt. Við sáum fram á að hverfa inn í snjóskafl og halda okkur þar yfir hátíðarnar. Síðar kom í ljós að stormurinn hafði eitthvað tafist í jólaösinni en þegar hann skall svo á um allt land var það bara tímaspursmál hvenær á aðfangadag allt yrði ófært.