Nýtt ár í léttu stressi
03. janúar 2005 | 0 aths.
Ritstjórn thorarinn.com óskar lesendum gleðilegs nýs árs í léttu stresskasti. Jólafríið næstum á enda og fyrsta próf ískyggilega nærri.
03. janúar 2005 | 0 aths.
Ritstjórn thorarinn.com óskar lesendum gleðilegs nýs árs í léttu stresskasti. Jólafríið næstum á enda og fyrsta próf ískyggilega nærri.
03. janúar 2005 | 0 aths.
Væntanleg er ársskýrsla 2004 frá ritstjórn. Sökum anna hefur útgáfu hennar verið frestað um eina til tvær vikur.
05. janúar 2005 | 0 aths.
Fimm tíma seinkun á fluginu út, sem betur fer komst ég að því á BSÍ og forðaði mér aftur á Falconstrasse. Ég græddi því nokkra tíma aukalega í lestur (þótt það hafi kostað tvær auka leigubílsferðir) (sem hvor um sig kostaði þó minna en bjór á Thorvaldsen). Kominn heim á herbergi um miðnætti að staðartíma.
06. janúar 2005 | 0 aths.
Í gærmorgun var spjalltími í Interaktionsdesign þar sem hugmyndir mínar um það hvernig ég ætla að taka á því prófi fóru aðeins að mótast. Eftir hádegið tók ég svo smá skorpu í PHP prófinu frá því í fyrra vor og það gekk í raun prýðisvel.
06. janúar 2005 | 0 aths.
Það er töluverður munur á loftslagi hér og heima á klakanum þessa dagana. Hér er auð jörð og vorblíða og undanfarna daga hefur verið um tíu stiga hiti og heiðskír himinn.
07. janúar 2005 | 0 aths.
Í morgun fór ég í mitt fyrsta alvöru próf í rúm 7 ár ef mér misreiknast ekki. Það reyndist mun lengra en ég hafði átt von á, en með því að skrifa á fullu allan tímann og mæta nokkuð vel undirbúinn náði ég að svara öllu og m.a.s. koma auga á eina smá villu í yfirlestri. Held að ég muni fá fína einkunn.
08. janúar 2005 | 0 aths.
Nú er allt á öðrum endanum hér í Danmörku, risalægð er rétt norður af landinu og samkvæmt kortum veðurfræðingsins er 35-40 m/sek um allt land. Vestanlands er allt í liggjandi og/eða fjúkandi trjám, allar samgöngur liggja niðri og lögreglan hefur lýst því yfir að fólk um allt land eigi að halda sig inni.
08. janúar 2005 | 0 aths.
Ég þekki sjálfan mig greinilega of vel. Eftir prófið í gær fór eins og mig grunti að ég hef lítið sem ekkert lesið í dag.
08. janúar 2005 | 0 aths.
Ég rakst á link á þessa mynd á einhverju bloggi og stóðst ekki mátið að birta hana. Ekta nördahúmor að mínu skapi.
09. janúar 2005 | 0 aths.
Ég fór út í göngutúr fljótlega eftir hádegið í gær og rölti í klukkutíma um Amager. Ég reyndi að hafa auga með stormskemmdum, en það var sannast sagna ekki mikið að sjá hér í kringum mig.
09. janúar 2005 | 0 aths.
Ég er að reyna að koma mér í þann gír að hugsa ekki um prófið á þriðjudag sem munnlegt próf, heldur sem fyrirlestur sem ég þarf að undirbúa. Aðalmunurinn felst í því að ég þarf ekki að geta staðið skil á öllu efninu, heldur get að stærstum hluta stýrt því sem fram fer.
11. janúar 2005 | 0 aths.
Þá er ég búinn að taka fyrsta munnlega prófið hér í útlandinu. Það gekk bara mjög vel og ég fékk 10 sem í þrettánkerfi bauna jafngildir ca. 9 í "normal" skala okkar Íslínga. Ég væri hæstánægður með það, ef prófdómararnir hefðu látið vera að segja mér hvers vegna ég fékk ekki 11...
11. janúar 2005 | 0 aths.
"Í brjálæðishrifningu býð ég þér tópas og berjasaft skilyrðislaust..." sungu Stuðmenn um árið. Í brjálæðisdugnaðarkasti eftir prófið þvoði ég heilan helling af þvotti og tók svo til á skrifborðinu mínu! Í þeirri tiltekt voru gerðar uppgötvanir sem eflaust munu breyta framtíð mannkyns.
11. janúar 2005 | 0 aths.
Þá eru jólamyndirnar af Vilborgu loks komnar á vefinn.
13. janúar 2005 | 0 aths.
Í dag varð sá merkisatburður að ég dró hlaupaskóna fram í fyrsta sinn síðan ég kom til DK. Ekki nóg með það, heldur batt ég þá á bífurnar á mér og hljóp. Úti. Lengur en í 5 mínútur.
13. janúar 2005 | 0 aths.
Verður hér sagt af hljóðum og óhljóðum sem hafa læðst inn í tilveru mína á einn eða annan hátt upp á síðkastið. Um leið er þetta vanmáttug tilraun til að koma nýyrðinu ulyder á framfæri, en baunar eiga (mér vitanlega) enga samsvörun við hið lýsandi orð óhljóð. Þykir mér það miður.
15. janúar 2005 | 0 aths.
Með sundurklipptum afþurrkunarklúti (bláum), fjölnota töng og (takmarkaðri) lagni hefur mér tekist að minnka stórlega brakið í rúminu mínu.
15. janúar 2005 | 0 aths.
Ég komst að því seinnipartinn í dag, mér til mikillar undrunar að skrifborðið mitt er þakið hvítu ryki. Þessi ryksöfnun virðist nýskeð því plastið utan af spjaldskrárspjöldunum og DVD myndinni sem ég keypti í gær eru meðal þess sem er hvítflekkótt. Ekki veit ég hvort þetta ryk dauðans er einhvern vegin að berast frá framkvæmdunum á neðri hæðinni, en það er ekki útilokað.
17. janúar 2005 | 0 aths.
Í dag fer ég í þriðja prófið mitt, Computerspilteori. Ég veit satt best að segja ekki hvernig það á eftir að ganga, en er samt bjartsýnn á að fá þokkalega einkunn. Planið var að byrja daginn í dag á því að fara út að skokka, en þegar ég vaknaði með hálfstíflað nef, hálsbólgu á byrjunarstigi og höfuðið að fyllast af kvefi ákvað ég að láta það eiga sig að sinni.
17. janúar 2005 | 0 aths.
Síðastliðinn föstudag fór ég á gestafyrirlestur hjá Henry Jenkins sem er prófessor í Literature and Comparative Media Studies hjá MIT, og hefur meðal annars skrifað bókina "From Barbie To Mortal Kombat".
17. janúar 2005 | 0 aths.
Tölvuleikjateorían gekk vonum framar. Prófdómararnir voru mjög sáttir við mína framlögn og mínar pælingar. Niðurstaðan: 11! (Sem jafngildir ca. 9,5 í íslenska kerfinu og er næst-hæsta einkunn sem er gefin í 13 kerfinu.)
18. janúar 2005 | 0 aths.
Það þarf víst ekki að segja neinum frá því að Firefox 1.0 vafrinn sé sniðug græja og fyllsta ástæða til að taka hann í notkun í stað Internet Explorer. Ég er búinn að vera að taka aðeins til í Eldrefnum mínum og komst að ýmsu nýju, þannig að hér er samantekt nokkurra áhugaverðra ábendinga um Firefox - sumt gamalt og annað nýtt.
18. janúar 2005 | 0 aths.
Til að þessar tvær vikur að næsta prófi fari ekki bara í leti, ólifnað og annan munað, hef ég ákveðið að líta svo á að þessa daga sé ég í vinnu hjá sjálfum mér. Stimpla mig inn á morgnana og reyni að saxa á verkefnum sem hafa setið of lengi á hakanum.
19. janúar 2005 | 0 aths.
Eftir milligöngu FÍN, ASÍ og BSÍ hefur náðst sátt í deilu minni við sjálfan mig og ég hef verið endurráðinn. Hið nýja samkomulag gerir ráð fyrir að hægt sé að vinna upp síðbúna mætingu með ógreiddri yfirvinnu.
19. janúar 2005 | 0 aths.
Tölfræði er merkileg og hægt að snúa út úr henni á marga vegu. Núna er ég t.d. að verða kominn með upplýsingar sem svara til árstraffíkur á thorarinn.com og sé tölfræðin tekin án fyrirvara er ekki annað hægt að segja en að traffík sé framar vonum.
19. janúar 2005 | 0 aths.
Það eru uppi skiptar skoðanir um það hvort gráta skuli eða hlæja, en hér með birtist frumraun mín sem upptökustjóra eða remixara. Já, manninum er ekkert heilagt, nú er hann farinn að klæmast í tónlist líka.
20. janúar 2005 | 0 aths.
Ég stóðst auðvitað ekki mátið að grúska aðeins meira í tónlistartilþrifum mínum. Í dag héldum við smá undirbúningsfund fyrir lokaprófið okkar, ég, Christina og Mette á kaffihúsi í Fredriksberg - og þegar ég kom heim um kaffileytið fór ég strax að fikta í Kristalnum.
21. janúar 2005 | 0 aths.
Hafi einhverjir lesendur reynt að senda mér póst síðustu 2-3 daga án þess að fá svör (líklega frá þriðjudegi) þá er það ekki vegna þess að ég vilji ekki svara, heldur af tæknilegum orsökum.
22. janúar 2005 | 0 aths.
Á föstudagbarnum voru færri en á átti von á. Samt sýnist mér að flestallir séu í sömu sporum og ég, búnir með öll fagprófin og bara eftir að verja fjögurra vikna verkefnin, og því upplagt tækifæri til kæruleysis. Kannski menn hafi almennt valið að stunda það kæruleysi utan skólans, en fámennið var góðmenni og kvöldið varð mjög skemmtilegt.
22. janúar 2005 | 0 aths.
Það er auðvitað skammarlegt hvað ég sem laus og liðugur (kannski þó meira laus en liðugur, svona strangt til tekið - enda óttalegur stirðbusi) hef lítið gert af því að stúdera næturlíf stórborgarinnar. Þó var gerð örlítil bragarbót þar á eftir Fredagsbar gærkvöldsins.
23. janúar 2005 | 0 aths.
Seinnipartinn í dag fékk ég símtal sem sló mig skemmtilega út af laginu. Það var skólasystir mín úr MA að herma upp á mig tilboð í næstsíðustu færslu um kynnisferðir um Köben, hún væri stödd hér á Eyrnasundskollegíinu og nennti ekki að lesa undir próf og hefði í leiðindum sínum haft samband við mig. Þar sem ég hafði ekki haft hugmynd um að hún væri í námi í Köben var ég fyrst ekki viss hvort ég væri að misskilja hver þetta væri...
24. janúar 2005 | 0 aths.
Það er vel þekkt í náttúrunni að til dæmis hlýindi að vetrarlagi geta valdið því að gróður grænkar of snemma og aðrar ótímabærar hörmungar dynja yfir. Á sama hátt og hlýindin rugla erfðavísa blaðgrænunga er yfirstandandi annafall að rugla líkamsklukkuna mína all hressilega.
24. janúar 2005 | 0 aths.
Hér var boðað til þingkosninga með mánaðarfyrirvara fyrir hálfum mánuði, sem þýðir að allt kraumar og iðar í kosningaáróðri, rökræðum í sjónvarpi og auglýsingaflóði. Ég hef reyndar ekki grænan grun um hvaða flokkar standa fyrir hvað, en mér skilst að helsta gagnrýnin á kosningabaráttuna sé að það sé ekki úr neinu að velja - allir flokkarnir séu að stíla inn á sama miðjumoðið og að höfða til velmegandi millistéttarinnar.
26. janúar 2005 | 0 aths.
Ég var að fá pdf síðu úr nýjasta hefti Linux Magazine með klausu um Open Source bjórinn okkar. Síðan er úr mars útgáfunni og ef hún er komin út þá er hún a.m.k. ekki komin á vefinn þeirra.
26. janúar 2005 | 0 aths.
Meðfylgjandi er tengill á 45 mínútna kvikmynd/hugvekju um innblástur, sköpun og hönnun. Fyrir þá sem hafa áhuga á efninu er vel þess virði að horfa á þessi þrjú kortér yfir góðum te/kaffi/kakó-bolla.
26. janúar 2005 | 0 aths.
Nú er búið að staðfesta að U2 heldur tónleika í Parken hér í Köben 31. júlí. Það gæti ekki verið á verri tímapunkti fyrir mig, þannig að mér sýnist ljóst að ég komist ekki á tónleika með þeim á þessu ári. Ég geri ráð fyrir að klára prófin í lok júní og geta unnið heima í júlí og ágúst. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að tónleikarnir hér yrðu kannski í lok júní, sem hefði hentað mér mjög vel - en þetta er afleit tímasetning fyrir mig.
27. janúar 2005 | 0 aths.
Ég var að koma af íslenskum tölvuleikjafyrirlestri, að vísu höldnum á ensku fyrir danska áheyrendur, en óumdeilanlega íslenskur þrátt fyrir það. Eins og glöggir lesendur gera sér grein fyrir að þar sem þessi tvö orð koma saman, íslenskt og tölvuleikir, er umræðuefnið Eve Online.
27. janúar 2005 | 0 aths.
Eins og ég nefndi um daginn kraumar allt í kosningabaráttu hér. Helstu sýnilegu einkenni hennar eru andlitsmyndir hangandi upp um alla ljósastaura, nokkuð sem maður á ekki að venjast að heiman. Hér eru nokkrar stemmningsmyndir sem ég tók í hressingargöngu í gær.
28. janúar 2005 | 0 aths.
Í harðvítugri keppni okkar systkinanna um titilinn "uppáhaldsföðursystkini Vilborgar" hefur Sigmar bróðir nú komið með óvænt útspil og birt exclusive myndaseríu á vefnum sínum. Sem opinberum vefstjóra þykir mér að mér vegið og kynni því til sögunnar nýja myndasyrpu af Vilborgu stórfrænku.
29. janúar 2005 | 0 aths.
Á mánudagsmorgun fer ég í síðasta prófið mitt þegar við verjum fjögurra vikna verkefnið okkar. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég fer í hóp-próf, hvað þá munnlegt, en ég held að við séum komin með solid prógramm sem státar meira að segja af meistara Elvis.
30. janúar 2005 | 0 aths.
Það er kaldhæðnislegt í ljósi fyrri yfirlýsinga um aukin þroska í bjórsmekk að upp á síðkastið hef ég snúið baki við "alvöru" bjórunum í matvörubúðum og snúið mér að tilboðsbjórunum. Þannig eru tvær síðustu kippur sem ég keypti mér í Fakta "Ceres Top Classic" og "Albani Odense Classic", hvorttveggja í verðflokknum 3-4 krónur flaskan.
31. janúar 2005 | 0 aths.
Jæja, þá er þessari önn lokið. Við lifðum prófið í morgun af, fengum 8 (um það bil íslensk sjöa) og erum drullufúl yfir því. Þetta var næstum súrrealísk upplifun, eins og að fara í próf í stærðfræði en fá einkunn á málfræðilegum forsendum.
31. janúar 2005 | 0 aths.
Hópurinn sem fór í próf á eftir okkur fékk líka 8, þegar ég hitti þau eftir prófið voru þau alveg ákveðin í að kæra. Það er því aldrei að vita nema við sláumst með í för. Sérstaklega er áhugaverð setning í kærureglum skólans: "Bemærk, at en klage ikke kan resultere i en lavere bedømmelse end den oprindelige."