Grúsk grafíkgruflarans

Nú er ég að verða orðinn nokkuð sáttur við mína útfærslu á næsta verkefni í grafískri hönnun. Við höfum aðeins rætt um skissuferlið og ábendingar um pælingar meðan á hönnunarferlinu stendur og ég hafði því sérstakt auga með því hvernig verkinu vatt fram. Verður þeirri framvindu nú lýst hér í máli og myndum.

Verkefnið gengur út á að hanna boðsbréf á sýningu á leturhönnun:

Invitationen skal signalere det smukke ved bogstavet som form. Begreberne kunst og typografi smelter sammen til en visuel æstetisk oplevelse, hvor typografi dyrkes som form og udtryksmiddel. Invitationen skal få folk (designere og skribenter) med interesse for kreativt brug af typografi og billedkunst til at besøge museet.

Við fáum uppgefna þrjá textaflokka: Fyrirsögnina "Typographic Arts", undirfyrirsögnina "Kreative bogstaver på Danmarks Mediemuseum – 1. april – 5. maj 2005" og svo upplýsingar um sendanda. Að auki eigum við að hanna myndskreytingu sem byggir á bókstöfum eða tengist þeim.

Fyrsta atlaga

Í fyrstu atlögu er ekki mikið að gerast, en mig langaði að prófa að setja letrið á mörk litaflata - en það þykir svolítið móðins núna. Rauðu litirnir eru valdir út í loptið, sá dekkri á að vera nægilega dökkur til að skera sig frá hinum. Smá líf í Arts leturgerðinni til að vera ekki allt of rúðustrikaður.

Önnur atlaga

Ég hafði verið með einhverjar óljósar pælingar um að nota ljósmyndir af veggjakroti eða hönnunarteikningar af leturgerðum sem myndskreytingu, en datt svo niður á það að nota undirfyrirsögnina sem myndskreytingu. Skrifaða í ólíkum leturgerðum, trúlegast með því að klippa stafi út úr ljósmyndum. Þetta er tilraun til að ímynda sér hvernig það gæti litið út. (Glöggir lesendur sjá e.t.v. skyldleika með litaflötunum í efri og neðri línu.)

Svo var bara að skella sér út með myndavélina og taka myndir af bókstöfum.

Þriðja atlaga

Ég fór í göngutúr um hverfið og smellti af ljósmyndum af skiltum og merkingum verslana. Sem betur fer eru þetta allt frekar algengir bókstafir þannig að ég tók bara myndir í gríð og erg og treysti á að eiga nóg af öllum þegar heim kæmi. Að auki hafði ég leitað að skiltamyndum í myndabanka á netinu og tek þrjá bókstafi þaðan.

Þegar ég hafði púslað þessu saman var áberandi hvað flestir stafirnir voru á bláum eða gráum grunni. Ég lét því VE úr EVE plakatinu mínu skipta litum úr bláu í rautt til að fá betra jafnvægi í litina. Arts stækkar svolítið frá síðustu útgáfu.

Skrúfan ofan við "gst" var annarsstaðar á skiltinu ("Gangsti") en mér fannst hún svo flott að ég galdraði hana aðeins til.

Fjórða atlaga

Þegar öll element voru komin á sinn stað var komið að því að skoða uppbygginguna krítískum augum og skoða hvort eitthvað mætti missa sín. Rauði borðinn efst, sem ég byrjaði með, reyndist alveg óþarfur. Þess í stað fór "Typographic" í sama dökkrauða lit og "Arts", sem reyndist fínn í jafnvægi á móti bláu tónunum í ljósmyndunum af bókstöfunum.

Typoghraphic Arts minnkar aftur.

Fimmta atlaga

Næst var að prófa að teygja elementin og toga. Myndirnar af stöfunum urðu flottari við það að stækka og láta meira að sér kveða. Rauða röndin á botninum var orðin tímaskekkja og fékk að fjúka.

Flöturinn kringum "a" var skorinn öðruvísi til að komast nær "Arts". Hann reyndist of dökkur til að R í Arts nyti sín ofan á honum.

Letrið í botninum skipti litum (m.a. eftir ábendingu frá Sigmari bróður) og rauði textinn neðst látinn flútta við miðlínuna (sem liggur niður milli a-anna).

Sjötta atlaga

Mér fannst vanta einhvers konar bakgrunn og eftir að hafa leikið mér með útlínur bókstafa (sem var ekki að virka) lét ég mig innblásast af slitna plakatinu sem "B" er hluti af og gróf upp ljósmynd sem ég átti af ryðguðum tönkum á Lýsislóðinni í vesturbænum. (Reykjavíkur, ekki Amager).

Með smá fótósjoppi fékk ég þá mynd til að gefa skugga og stemmningu án þess að vera of áberandi.

Hér er hins vegar höfuðverkurinn núna; er bakgrunnurinn að gera eitthvað annað fyrir "plakatið" en að gera það meira artí? Komast skilaboðin betur á framfæri á hvítum grunni þar sem ekkert keppir um athyglina við bókstafina?

Ég er búinn að setja báðar útgáfurnar inn í vefkerfi kúrsins og ætla að sjá hvort ég fæ athugasemdir frá samnemendum mínum. Sef á þessu og sé hvað setur.

Svo er ég að skrifa texta fyrir verkefnastjórnun, hlífi lesendum mínum við honum.


< Fyrri færsla:
Mindplay: Hugleikur á ensku!
Næsta færsla: >
Urgur í heimamönnum
 


Athugasemdir (1)

1.

Már reit 07. apríl 2005:

Eitt sem ég ætlaði alltaf að meila þér þegar ég las þetta fyrst (áður en þessi fíni kommentfítus kom til sögunnar) var að mér fannst "Arts" parturinn á yfirskriftinni pínu ...uhm... "tilgerðarlegur". Ég held að það hefði komið sterkara út að hafa "Typographic Arts" allt í sömu virðulegu, hlutlitlu leturgerðinni - til mótvægis við pönkið og kreativitetið í megin titlinum.

Annars fannst mér þetta alveg fínasta útkoma.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry