Um aðdáendabréf og skort þar á

Um daginn fékk ég tölvupóst frá fyrrum sveitunga mínum sem falaðist eftir að fá að birta texta sem ég hafði samdi fyrir nokkrum árum síðan um það hvernig skrifa eigi fyrir vefinn. Það má kannski kalla þetta faglegt aðdáendabréf - sem rifjaði upp hvað það er orðið langt síðan ég hef fengið persónulegt aðdáendabréf í tengslum við þetta dagbókarræskni mitt. Líklega er ég bara orðinn svona leiðinlegur upp á síðkastið.

Umræddur vefskrifatexti birtist "fyrst" á vef eplica.is (gæsalappirnar eru tilkomnar af því að þessi útgáfa er unnin upp úr annarri sem ég skrifaði á Gæðamiðlunar/Mekkano dögunum). Nú var hins vegar falast eftir henni á vef galdur.is, og eftir að hafa fengið grænt ljós frá eplikönum gaf ég áfram ljós í sama lit.

Ég hef það fyrir satt að þetta vefraus mitt hafi líka verið notað í kúrsi í Háskólanum, kenndum af Þorfinni skásvila mínum. (Við erum ekki svilar, en ég veit ekki hvort það er til hugtak yfir tengslin sem fylgja því að systkini okkar eru gift (hvort öðru)).

En aftur að aðdáendabréfunum. Þau hafa alveg gufað upp undanfarna mánuði, en þar á undan voru nokkuð reglulega að tínast inn skeyti frá fólki sem ég bæði þekkti fyrir - og ekki.

Leiðir það til tveggja tilgátna:

  1. Nýir lesendur eru hættir að slæðast hér inn.
  2. Upp á síðkastið hafa pistlarnir mínir verið svo leiðinlegir að enginn hefur séð ástæðu til að kommenta á þá.

Hef ég grun um að báðar eigi við rök að styðjast.

Ritstjórn thorarinn.com mun því leggja grunn að áróðursherferð í því skyni að auka umferð um vefinn. Því miður er auglýsingapláss mbl.is uppselt út árið, en vér upplýsingaspekúlantar látum oss detta eitthvað í koll.

Samhliða verður reynt að smyrja bullgírinn og liðka málbein. Ekki er lofað að tilveran sem frá er sagt verði meira spennandi - en það má alltaf ljúga eftir þörfum.


< Fyrri færsla:
Lífsmark með slána
Næsta færsla: >
Danskar bollur og krækiberjahlaup
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry