Markaður fyrir lífstíð

Ég hef aldrei velt því fyrir mér í neinni alvöru að fá mér tattú. Það er að segja ekki fyrr en núna undanfarnar vikur, og þær vangaveltur hafa undið hratt upp á sig.

Þegar Margrét systir kom í heimsókn til Köben spjölluðum við náttúrulega um alla heima og geima og þar á meðal tattúveringar. Mínar skoðanir á tattúum (a.m.k. út frá mínum skrokksdyrum séð) eru að tattú eigi að vera eitthvað sem er tímalaust - ekki að eltast við tískubylgjur (lesist; hlussustór træbal tattú) [hér var linkur á mynd af tattúi, fjarlægður í byrjun árs 2006] - enda er það auðvitað sjarminn við tattúveringar að þetta er ákvörðun fyrir lífstíð.

Mér finnst líka að tattúið/in þurfi að vera á stað þar sem maður sjálfur getur valið hvort maður flíkar því eða ekki (t.d. á upphandlegg, herðablaði eða álíka). Alltaf þegar ég sé fólk með tattú á höndunum eða hálsinum/höfðinu verður mér huxað til þess að það hljóti að vera óþægilegt að geta aldrei klætt tattúið af sér við þær aðstæður þar sem það er óviðeigandi. (Let's face it, tattú eru þrátt fyrir allt tískuvarningur (accessories) sem stundum passar að flíka og stundum ekki).

Með öðrum orðum, ef ég fengi mér tattú væri það eitthvað frekar lítið, ekki eitthvað tískumótíf, og líklega á upphandleggnum.

Þá kemur inn í spilið ein af myndunum sem ég hef unnið í kúrsinum um grafíska hönnun, hauskúpuútgáfunni af Tóró-nafninu:

Tóró lógóið mitt

Ég var (og er enn) helvíti ánægður með sjálfa hauskúpuna sem gæti alveg staðið ein og sér sem lógó (nú eða tattú).

Fyrir tilviljun bárust tattúveringar í tal á nýliðnum föstudagsbar og Trine, sem er líka á DKM línunni og flíkar mörgum flottum tattúum, benti mér á tvo gæja sem reka stofu sem heitir Kunsten på kroppen og hún hrósaði í hástert.

Það er auðvitað tímanna tákn að maður skuli notast við vefinn til að skoða tattúveringarstofur! Eins og sést hafa þeir gert margt flott (og flestallt í mótsögn við það sem ég sagði hér að ofan - a.m.k. stærðarlega séð).

Þegar ég átti svo leið framhjá prófaði ég að kíkja inn og spjalla við Colin og sýndi honum hauskúpuna á vefnum mínum. Hann vildi meina að hún hentaði vel fyrir tattú og hvatti mig til að láta slag standa.

Í stuttu máli lét ég verða af þessu í vikunni fyrir páskana. Ég var soldið bólginn og þrútinn fyrst á eftir (og mikið hrikalega sem þetta sveið fyrstu dagana!), en núna er þetta búið að jafna sig þannig að ég kynni stoltur:

Nýja tattúið mitt!

Nýja tattúið mitt!

Ég lét setja það yfir bólusetningarörið á vinstri upphandleggnum og frá ákveðnum sjónarhornum gefur það létta þrívíddartilfinningu sem mér finnst helvíti flott. Hauskúpan er svolítið langleitari en í upphaflegu útgáfunni, en hún er kannski bara líkari mér fyrir vikið!

Þetta er eitthvað sem "gamla Þórarni" hefði aldrei dottið í hug að gera alvöru úr. Kannski Danmerkurlífið sé farið að hafa áhrif á minn karakter?

Nú þarf ég bara að kaupa mér dobíu af ermalausum bolum fyrir sumarið og töff sólgleraugu. Reykjavík, here I come!

Þeir sem til þekkja segja að eftir að maður hefur gleymt sársaukanum við fyrsta tattúið langi mann strax í annað. Ég held að ég bíði nú aðeins með það, en það er spurning hvað maður setur t.d. á hægri upphandlegginn (eitthvað sem þolir að striginn undir verkinu breytist í krumpaðan elliheimilisupphandlegg).

Bókstafinn Þ í rúnaletri/germönsku letri/handskrift? Galdrastaf? Nafnið mitt sem strikamerki? Hluta úr kínverskum matseðli (sbr. Sprite auglýsinguna)? Tillögur?


< Fyrri færsla:
Hvað gerðist?
Næsta færsla: >
Billeder fra Frederiksberg Have
 


Athugasemdir (5)

1.

Gísli reit 01. apríl 2005:

Ekki að ég vilji skemma fyrir þér góða sögu og allra síst fyrir öðrum lesendum þessa fjölfarna vefs, en lyktar þetta nú ekki svolítið af dagsetningu færslunnar.

2.

margrét reit 01. apríl 2005:

Gott djók dói minn, lét mig samt ekki hlaupa eitt eða neitt svo varla gilt aprílgabb...

3.

Huld reit 01. apríl 2005:

Ég tók andköf af hugrekki þínu og áræðni. en svo eyðilagði Margrét allt með efasemdakorni sínu.
Sjálf er ég svarin andstæðingur tattoa nema við þeim liggi djúpar etnískar ástæður.

Til hamingju með daginn á morgun! Ég er einmitt að fara í afmæli Hansa í Þjóðleikhúsinu og ætla að skála í kakói fyrir nautinu.

4.

Þórarinn.com reit 01. apríl 2005:

Hnuss, voðalega eru menn vantrúaðir á frumleika minn og áræðni (nema auðvitað Huld sem fær fullt af rokkstigum í minni bók).

Á fyrsta alvöru degi kommentakerfisins greip ég til þess að misnota ritstjórnarvald mitt og láta kommentið hans Gísla hverfa um stundarsakir.

Ég lít svo á að í rafrænum aprílgöbbum sé hverskonar tilfærsla upplýsinga (hvort sem það er tölvupóstur eða kommentaskrif) vera ígildi skrokklegrar tilfærslu (hlaups) í kjötheimum. Þannig að ég kýs að vera ósammála þér kæra systir um hlaupaskort þinn.

Ég bendi sérstaklega á dagbókarfærslu mína fyrir sléttu ári í þessu samhengi: Minns á leið í hnapphelduna.

Hafi maður lært eitthvað í MA þá er það að halda skal í hefðir (og hafi eitthvað verið gert einu sinni og lukkast vel er það þar með orðið að hefð).

5.

Már reit 07. apríl 2005:

Þetta er fínt tattú. Mér finnst að þú ættir að slá til í alvöru. :-)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry