Of heimskur fyrir húfuna
06. apríl 2005 | 0 aths.
Hópvinnu dagsins lauk á óvenju kristilegum tíma þannig að klukkan 3 stóð ég allt í einu í næstum óþekktri aðstöðu. Laus um hábjartan dag og ekki nema 3-4 tíma heimavinna framundan. Eftir nokkra umhuxun ákvað ég að nota tækifærið og leysa það vandamál sem ég kýs að trúa að hafi helst hamlað langhlaupum undanfarna daga með því að fara og kaupa mér húfu.
Eins og koma mun fram í dagbókarfærslunni um atburði helgarinnar (sem ég hef ekki enn skráð og mun líklega ekki ná að gera fyrr en einhvern tíman seinnipartinn í næstu viku...) þá er allt að því kominn vottur af vori hér í borg drottningar.
Fyrir vikið er óviðeigandi að nota þá tækni til hamningar á haddi mínum sem ég hef beitt í vetur við útihlaup. Það er að vera einfaldlega með húfu á hausnum.
Svarta flíshúfan á ekki við þegar sólin skín í heiði (og færi illa við stuttbuxurnar sem ég vonast til að sé einhversstaðar að finna ofan í kössum). Lausnin er því ljóslega að fá sér sumarlega derhúfu.
Ég lagði því leið mína í Amager sentrið og gerði úttekt á derjuðum húfum. Rannsóknin hófst í H&M þar sem reyndust til ýmsar útgáfur á verðbilinu 40-60 krónur. Í Intersport var verðbilið 70-300 krónur og þótti mér það kannski vera heldur í hærri kantinum.
Ég skellti mér því á derhúfu í H&M. Trukkaderhúfurnar (með hnakkanetinu) voru aðeins of gelgjulegar fyrir minn smekk, þannig að ég endaði á drapplitaðri húfu með léttri Maó-stemmningu. (Enda Made in China.)
Ég sá enga ástæðu til að máta hana sérstaklega í búðinni, enda af ein-stærð-við-allra-hæfi ættkvíslinni með þrengingarbandi í hnakkann sem augljóslega átti töluverðan slaka inni. Þjófavörninni var líka þannig fyrirkomið að allar mátanir hefðu haft í för með sér hættu á höfuðkúpugötun og öðrum líkamsskaða.
Þegar ég kom svo heim komst ég að því að ég er of höfuðstór fyrir húfuræsknið.
Þrengingarbandið reyndist bara vera til þrengingar, ekki slökunar. Það er að segja að húfuskömmin víkkar ekki nema takmarkað, sama hvað slakað er á bandinu.
Ég get svo sum sett húfuna á hausinn og eflaust myndi hún passa skár með minna hári, þótt hún virðist ekki hönnuð fyrir mitt höfuðlag. Það er hins vegar dagljóst að hún mun ekki tolla lengi á mér á tignarlegum hlaupum mínum um borgarlandið og þar með stenst hún engan vegin þær kröfur sem til hennar eru gerðar.
Þar fauk 40 kall.
Niðurstaðan: Samkvæmt málshættinum eru heimskir jafnan höfuðstórir. Það má því kannski álykta að ég sé einfaldlega of heimskur fyrir húfuna.
Framhaldsniðurstaða: Annað hvort þarf ég að fara í annan leiðangur og kaupa húfu sem passar betur eða láta mig hafa það að trimma með sveitt hárið pískandi andlit og augu.
Ítarframhaldsniðurstaða: Ennisband er ekki inni í myndinni.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry