Helgin sem var

Það er náttúrulega soldið undarlegt að skrifa um liðna helgi á föstudegi, en þó ekki væri fyrir annað en að eiga stafræna skráningu á því hvað ég gerði á afmælisdaginn minn (ekki margt) þá verður það hér með gert.

Á föstudagskvöldinu hafði TótiL látið mig vita af íslensku menningarkvöldi á Café Jónas sem hann og Auja höfðu tekið þátt í að undirbúa.

Eftir að hafa sötrað bjór í sólinni á Fredagsbarnum ákvað ég því að kíkja upp á Austurbrú og fá smá menningu til tilbreytingar.

Fyrst kom ég samt við heima og borðaði kvöldmat sem ég hafði gripið með mér á leiðinni. Til að sannreyna að ég væri ekki að fara dagavillt sendi ég Tóta SMS og voru samskiptin nokkurn vegin sem hér segir:

Ég
Er Jónas í stuði?
TótiL
Jájá
Ég
OK, ég kem eftir 20-30 mín.
TótiL
Hvar ertu?
Ég
Amagr

Síðan tók ég metróinn upp á kóngsins nýja torg þar sem múgur, margmenni og löggufjöld hafði safnast saman. Ég var ekkert að kveikja á af hverju, þar til ég sá að aðal havaríið virtist vera kringum gamla leikhúsið og mig grunti að það væri eitthvað HáCé dæmi í gangi.

Það staðfestist svo þegar framhjá brunuðu lögguvarðar limmur með dönsku prinsunum, a.m.k. einni sænskri prinsessu og eflaust fjölmörgu ógisslega frægu fólki sem ég ekki þekkti.

Þegar á Jónas kom var upplestur á textum íslenskra ungskálda til skiptis á íslensku og dönsku í fullum gangi.

Tóti heilsaði mér með virktum og spurði hvort það gæti verið að ég hefði verið að senda sér dularfull SMS. Ég kannaðist við að hafa sent SMS en ekki að þau hefðu verið sérlega dularfull.

Þá kom í ljós að hann er ekki með númerið mitt í símanum sínum og vissi því ekki frá hverjum þetta var að koma. Skeyti nr. 2 frá honum var því ekki hvar ertu, heldur hver ertu. Ég hafði mislesið og það sem mér þótti eðlilegt svar var auðvitað alveg út í bláinn í þessu samhengi.

Prinsarnir og prinsurnar létu ekki svo lágt að kíkja inn á Jónas, en þar var Megas (sem ég las nýlega á mbl.is að hefði ákveðið að vera hér í Köben á ammilisdaginn sinn). Þar var líka Sigurgeir áður lífefnafræðinemi, síðar matvælafræðingur og enn síðar viðskiptafræðingur (og nú allt ofantalið og Kaupmannahafnarbúi að auki).

Ég sýndi sjálfsstjórn mikla og eftir að hafa endurnýjað kynnin af hinum finnska bjór Lappin Kulta (sem Þorsteinn kynnti mig fyrir á háskólaárunum hinum fyrri og var sérlega hentugur í partíum - það drakk hann enginn annar og því engin hætta á að fara bjóravillt í ísskápnum) fór ég snemma heim og var kominn í bólið ekki löngu eftir miðnættið.

Afmælisdagurinn rann svo upp sólríkur og í alla staði efnilegur, sérlega ef ég hefði ekki verið á leið í verkefnavinnu allan seinnipartinn. Fyrir hádegi náði ég þó að þvo eins og eina vél af brókum og bolum - enda tekið að bergmála heldur í nærfataskúffunni og ljóst að til einhverra ráða yrði að grípa ef helgin ætti ekki að enda í þrifalegum ósköpum. Þvottastússið tók lengri tíma en ég hafði gert ráð fyrir og því droppaði ég hugmyndum um að koma við í bakaríi og taka með súkkulaðiköku í verkefnavinnuna.

Þegar ég var kominn í skólann rétt rúmlega 13 kom í ljós að ein í hópnum hafði sofið yfir sig þannig að ég hefði vel haft tíma til að baka kökuna - hvað þá keypt hana.

Þar sátum við svo að fram undir kvöldmatartíma. Ókosturinn var sá að fyrir vikið urðu pælingar mínar um að droppa inn á veitingastað og fá mér alvöru "út að borða" að víkja. Kosturinn að við ákváðum að taka sunnudaginn í frí.

Til að gera samt vel við mig keypti ég mér grillað lambakjöt á teini hjá kjúklingnum með geðrænu vandamálin (El Pollo Loco) og horfði á The Incredibles á DVD. Gætti þess vandlega að horfa ekki á HáCé sjóið í sjónvarpinu.

Ekki eftirminnilegasti afmælisdagur sögunnar, en ekki slæmur heldur.

Á sunnudeginum svaf ég út, vann svo smávegis og fór svo í sólskinsgöngutúr í Frederiksberg. Þar huxaði ég mér gott til glóðarinnar að millilenda á kaffihúsi og fá mér væna súkkulaðitertu sem síðbúna afmælisköku. Á kaffihúsum sólarmegin í tilverunni voru hins vegar biðraðir um að komast í biðröðina, þannig að ég endaði með að setjast inn á litlu kaffihúsi í stað þess að reyna að sitja úti. Þar reyndust hins vegar súkkulaðiterturnar búnar, þannig að afmælistertan þetta árið varð sneið af eplatertu.

Þannig var nú það.

Enn hef ég ekki fengið neina afmælisgjöf. Ekki það að ég sé neitt bitur af þeim sökum, en þykir samt við hæfi að færa það til bókar.


< Fyrri færsla:
Of heimskur fyrir húfuna
Næsta færsla: >
ITU / DTU samanburður - fyrri hluti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry