ITU / DTU samanburður - fyrri hluti

Í gær var Funky Fredag á föstudagsbarnum. Það felur í sér að tónlistarstjórn er í höndum skífuþeytara úr hópi nemenda og fyrir vikið er allt önnur stemmningu heldur en þegar gömlu playlistarnir eru við völd. Á fönkið mætti einnig sérleg sendinefnd íslenskra fulltrúa frá DTU til að gera úttekt á byggingunni og okkar útgáfu af föstudagsbar.

Það var ekki annað að sjá en Ernu og Steinunni þætti byggingin flott og ekki síður barinn. Eftir skoðunarferð um húsið tylltum við okkur niður og slúðruðum um heima og geima eitthvað fram eftir nóttu.

Þegar ég svo vaknaði í morgun eftir fimm tíma svefn var ekki laust við þá tilhuxun að kannski hafi síðasta bjórlítranum verið ofaukið...

Reyndar var það frekar fyrsti bjórlítrinn sem kannski hefði mátt missa sín, því eftir að hafa byrjað á Túborg af krana skiptum við yfir í "bland í poka bjórsmökkun". Felst sú íþrótt í því að fara á barinn og fá þrjá ólíka flöskubjóra að vali barþjónanna og smakka þá síðan með miklu smjatti og bragðumræðum. Við tókum þrjár umferðir í þessu og tilviljun hagaði því þannig að allir 9 bjórarnir voru af ólíkum tegundum.

Þarna var allt fá ljósum lager, sætum hveitibjórum, milligullnum bjórum (misrömmum) og upp í hnausþykkan stout með kröftugu súkkulaðibragði. Allir góðir, en enginn sem stóð sérstaklega upp úr.

Heilt yfir fékk barinn góða einkunn hjá DTU sendinefndinni og lögð hafa verið drög að því að ég kíki uppeftir seinna í vor og taki út aðstöðu til áfengisinnbyrðingar í Lyngby.

Af morgninum í morgun er það annars að segja að eftir að hafa legið undir sæng fram undir hádegi að reyna að sofna aftur, var snæddur léttur morgunhádegisverður og sturta, gönguferð í sólinni, rjómaís og ferskt loft hresstu stúdentinn við. Seinnipartinn tók ég svo skorpu í textaskrifum fyrir eitt af verkefnunum og stefni á að taka það rólega í kvöld og fara snemma að sofa.


< Fyrri færsla:
Helgin sem var
Næsta færsla: >
Húsnæðispælingar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry