Skyggnst inn í framtíðina
09. apríl 2005 | 3 aths.
Ég mundi að ég var að gleyma einhverju þegar ég barði saman frásögn af síðastliðinni helgi. Á föstudeginum fyrir viku fór ég nefnilega á mjög skemmtilegan fyrirlestur í BuzzTalk fyrirlestraröðinni, þar sem Preben Mejer frá Innovation Lab spjallaði um hvernig tækni framtíðarinnar mun líta út. Það er margt þar sem rímar við hugmyndir mínar að fjögurra vikna verkefni sem eru smám saman að þroskast og taka á sig mynd.
Preben Mejer er forstöðumaður Innovation Lab sem er fyrirbæri sem rekið er sem sjálfstæður þankatankur (think tank) og meðal annars hjálpar fyrirtækjum að þróa hugmyndir og búa til frumgerðir af nýrri tækni. Labbið er með höfuðstöðvar í Århus, en er að opna útibú á 5. hæðinni í ITU - formleg opnun í næstu viku.
Kallinn er skemmtileg týpa, virðist ótæmandi viskubrunnur og brunaði á miklum hraða í gegnum fullt af glærum með pælingum um þróun tækninnar í nútíð og framtíð. Ég reyndi að hripa niður það sem mér fannst áhugaverðast og hér koma punktarnir í stikkorðastíl:
- Prototypekultur, tæknin þróast ekki bara á tilraunastofum heldur með því að frumgerðir eru teknar í notkun og byggt á raunverulegri reynslu af notkun þeirra.
- ZigBee er þráðlaus samskiptastaðall sem ég hafði ekki heyrt um áður, eins konar langdrægt Bluetooth dæmi. Ekki mikill hraði, en orkunotkun er í lágmarki þannig að rafhlöðuendingin getur verið nokkur ár.
- Eftir 1,5 - 2 ár kemur þráðlaust breiðband með nokkurra kílómetra drægni frá sendipunktum, WiMAX
- Evrópskt GPS verður fljótlega tekið í notkun, GPS tæknin er að falla í verði og notkunarmöguleikarnir eiga eftir að springa út.
- Passívir skjáir, treysta á ytri birtu - þ.e. skipta litum en lýsa ekki. Kostar næstum enga orku. T.d. auglýsingaskilti sem er net af kúlum, annar helmingur kúlunnar svartur og hinn hvítur, straumur notaður til að snúa kúlunni sem þannig breytist frá hvítum punkti í svartan.
- Pappírsnotkun mun fara að minnka eftir ca. 2012, aðallega vegna kynslóðaskipta(!) Þegar komnir á markað þunnir sveigjanlegir tölvuskjáir úr plasti.
- "Brands on the run". Samfélög neytenda á netinu, t.d. Epinions gera það að verkum að forskot stóru merkjanna er að minnka. Nú geta neytendur kannað reynslu annarra af óþekktum vörumerkjum. Verð á t.d. Sony vörum hefur undanfarið snarlækkað samanborið við meðalverð og er núna bara örfáum prósentum yfir meðaltalinu.
- Farsímar í dag eru með reiknigetu borðtölvu frá 1998
- 2007 mun þriðja farsímakynslóðin (3G) toppa.
- 2010 mun 4G taka yfir - þá koma loks alvöru nettengingar í farsímakerfinu. Þróunin yfir í 4G hæg vegna offjárfestinga í 3G leyfum í netbólunni.
- Time shifting (t.d. upptaka úr sjónvarpi) er að færast yfir í place shifting (upptakan tekin með í lestina) - personal video players.
Í vikunni er ég svo búinn að spjalla við einn af kennurunum mínum, Peter Olaf Looms, um að hann verði leiðbeinandinn minn í fjögurra vikna verkefni núna í maí.
Ég er að spá í möguleikana á að skrifa lokaverkefni á hans sérsviði, þ.e. nýmiðlun og þróun í stafrænum útsendingum og stafrænni miðlun alls konar. Til þess að prófa hvort viðfangsefnið er áhugavert ætla ég að nota fjögurra vikna tímabilið til að skrifa eins konar míni-verkefni í æfingaskyni. Ef það reynist spennandi get ég notað næstu önn til að taka kúrsa sem gætu nýst sem undirbúningur fyrir lokaverkefnisskrif eftir tæpt ár.
Pælingarnar núna varðandi fjögurra vikna verkefnið eru að skoða hvernig notkun á tónlist hefur þróast undanfarið (þ.e. greina helstu einkenni á MP3 byltingunni) og reyna að leiða að því líkum hvaða sambærileg einkenni muni einkenna notkun á personal video players, þ.e. handhægum myndafspilurum. Ég sé þetta fyrir mér sem heimildasöfnunarritgerð með mínum pælingum um þær tilgátur sem ég get grafið upp.
Í næstu viku fáum við gestafyrirlesara í verkefnastjórnunarkúrsinn (sem Peter kennir). Hann er á því að sá gæji (sem ég man ekki hvað heitir) gæti orðið mér innan handar í verkefninu - þannig að ég mun reyna að spjalla við þá spekingana á miðvikudaginn.
Ég held að það geti orðið mjög spennandi.
(Á þriðjudaginn er ég svo skráður í 4 tíma fyrirlestrarsyrpu Kelly Goto, verður fróðlegt, enda hef ég heyrt bókunum hennar hrósað heilmikið.)
Athugasemdir (3)
1.
Sigurjón Sveinsson reit 10. apríl 2005:
Sæll Toro.
Talaði kallinn ekkert um heimanet? Þar er nú aldeilis tækninýjung á ferðinni með endalausa möguleika. ZigBee er notað í það t.d. ásamt öðrum samskiptastöðlum eins og PPnP. Tékkaðu t.d. á þessu þó gamalt sé.
http://www.wired.com/wired/archive/12.01/wiredhome_9.html
2.
Þórarinn.com reit 10. apríl 2005:
Jú, hann gerði það reyndar kallinn, en við það fékk ég svo heiftarlegt Homeportal flassbakk að ég gleymdi að glósa.
En ZigBee nefndi hann einmitt í því samhengi...
3.
Jón Heiðar reit 13. apríl 2005:
Homeportal .... annars á ég úttekt á þessum tónlistarmálum ef þú hefur áhuga. Annars er ég með þá kenningu að framtíðin sé nær en við höldum varðandi margt sem þú nefnir þarna. Bendi t.d. á http://www.economist.com/surveys/displaystory.cfm?story_id=3785166
Hlakka til að spjalla um þetta yfir bjór einhverntímann :)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry