Akkurru beta, akkurru?
10. apríl 2005 | 7 aths.
Nú er nýja útlitið búið að vera "lífs" í rúma viku, en beta merkingin hefur ekkert haggast. Það er nú aðallega vegna þess að ég hef ekki gefið mér tíma í að stússast í að snurfusa það sem upp á vantar til að ég verði alveg sáttur.
Fæst af því er reyndar nokkuð sem normal gestur tekur eftir (orðið normal er hér notað með fullri virðingu fyrir þeim gestum sem höfðu tekið eftir þessum hnökrum).
Það sem er þó mest sýnilegt er að ég er ekki alveg sáttur við það hvað enskir og íslenskir textar grautast mikið saman. Ég geri það mjög meðvitað að hafa bæði tungumálin, en frá notagildissjónarmiðum séð er lágmarkskrafa að það sé augljóst hvaða textar eru á ensku og hverjir íslensku. Ég hef velt því fyrir mér að nota einhvers konar litaleikfimi til að aðgreina tungumálin en hef ekki dottið niður á smekklega leið í því samhengi.
Framtíðarmúsík er trúlega að setja lang="is" eða lang="en" á öll mörk eftir því sem við á. Jafnvel gæti ég þá um leið græjað fiff til að bjóða upp á "English only" útgáfu af vefnum (og öfugt).
Nýju textarnir eru líkar frekar hráir, ég er þó nýbúinn að uppfæra íslensku ferilsskrána í tengslum við sumarvinnuleitina. Hinir bíða betri tíma.
Ég á líka eftir að koma handritinu að "Á uppleið" inn á textasíðuna og sitthvað smálegt í þeim dúr...
Meira á nördastiginu er að ég þarf að lagfæra html-ið á bak við kommentabirtinguna, búa til tvær millistigstöflur til að gera forsíðuna og færsluyfirlitið hraðvirkari (það er náttúrulega hneyksli að forsíðan taki allt að 0,3 sek af servertíma í smíðum og dagbókarsíða jafnvel meira). Svo þarf ég að græja RSS af kommentunum, ákveða hvernig ég ætla að birta ljósmyndasöfn, kannski græja smá Regular Expression (reglulega segð) til að skipta tommugæsalöppum út fyrir ekta íslenskar og svo ótalmargt fleira...
Beta-stimpillinn verður þó líklega látinn hverfa áður en ég verð búinn að þessu öllu - enda ólíklegt að það verði fyrr en um það leyti sem ég kemst á ellilífeyri...
Athugasemdir (7)
1.
Már reit 11. apríl 2005:
Mér skilst að eitthvað í þessa veru sé það sem koma skal í stað þessara útjöskuðu "beta" nafngifta.
2.
Þórarinn.com reit 11. apríl 2005:
Góður.
Já, ætli þessi beta merki séu ekki smám saman að verða ígildi "undir uppsetningu" - klisjunnar.
Sem minnir mig á dagbókarfærslu sem lengi hefur staðið til að skrifa um (að mestu) horfna fagurfræði fyrstu vefáranna.
Ég held ég fari að dömpa þessu betadæmi...
... rétt strax.
3.
Þórarinn.com reit 12. apríl 2005:
Eftir áhrínisorð Más hef ég drifið í að laga html-ið á kommentakerfinu og hef fjarlægt beta stimpilinn.
Blessuð sé minning hans.
4.
Már reit 13. apríl 2005:
Þetta var nú meira meint sem sneið til Google og allra hinna sem eru með "perpetual betas". Ég hélt að þú værir líka að gera grín að þeim. Ówell.
5.
Þórarinn.com reit 13. apríl 2005:
Ég var líka að því.
En tilhugsunin um að þetta væri í raun Under Construction merki nútímans fyllti mig hryllingi og þegar í ljós kom að það reyndist ekki nema 5 mín. verk að laga html kóðann skellti ég mér á að fjarlægja beta merkið.
Þornið er miklu flottara svona eitt og sér.
6.
Már reit 19. apríl 2005:
Séð á forsíðu: "Vefurinn telst vera í β-útgáfu"
Leimmér að giska, þú réðst ekki við þig og þurftir að laumast til að skilja einar smá minjagrip um "önder konströksjón períóduna".
;-)
7.
Þórarinn.com reit 22. apríl 2005:
Annað hvort það, eða ég er hroðvirkur tossi sem les ekki sína eigin forsíðu (og fannst þess vegna freistandi að slá beta-varnaglann við svona ósamræmi og öðrum smámistökum).
Þessi svarhali verður a.m.k. minjagripur um beta-tímabilið.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry