Ah, verkefnakynningarkaósin...

Nú er að bresta á með fjögurra vikna verkefnum og undirbúningsdagurinn fyrir það var í dag. Um sama leyti á síðustu önn sat ég hér (líklega á sömu svölunum) og skráði niður raunir mínar og áttavillu. Í ár er ástandið heldur skárra, en þó eru lykilatriði sem enn eru ekki í höfn.

Þetta er annars nokkuð merkileg samkoma, fyrst er klukkutími þar sem farið er yfir praktísk atriði um verkefni og lokaritgerðir, ábendingar um uppbyggingu og helstu reglur. Síðan streymir mannskapurinn út úr fyrirlestrarsalnum og út í almenninginn þar sem búið er að setja upp bása svipað og á vörusýningum. Á básunum vappa svo kennarar og doktorsnemar til skrafs og ráðagerða.

Öfugt við vörusýningarnar hafa þeir hins vegar sjaldnast neitt áþreifanlegt að selja, í mesta lagi lista af nöfnum á hugsanlegum rannsóknarefnum, en yfirleitt standa þeir bara og gefa færi á sér til spjalls.

Ég er með eindæmum lélegur að networka á svona samkomum. Þvælist bara um og ét matinn.

Ég er reyndar ekki einn um það, mér finnst flestir vafra um með léttan örvæntingarsvip og bíða eftir að eitthvað detti í hendurnar á þeim.

Mínar pælingar um tilhögun fjögurra viknanna þarf ég hins vegar að skoða aðeins betur, þar sem það var rækilega hamrað á því að fjögurra vikna verkefni ætti ekki að vinna einn. Ég spjallaði aðeins við Peter Looms (sem ég ætla að nota sem leiðbeinanda) og hann var líka á því að ég ætti/þyrfti að finna einhvern samverkamann.

Ég hef svo sem ekkert á móti því að vinna með öðrum, en er í augnablikinu með létta klígju yfir hópverkefnum. Pælingin var líka að prófa hvernig er að vinna einn síns liðs, enda geri ég ráð fyrir að þannig muni ég vinna lokaverkefnið.

Hins vegar er tíminn sem kennarinn fær til ráðstöfunar talinn eftir hausafjölda, þannig hefði ég einn bara heimtingu á 5 tíma leiðbeinslu á þessum fjórum vikum, en með samverkamanni fengjum við 10 tíma - það munar um minna ef maður vill geta fengið nothæft feedback.

Ætli ég semji ekki bara góðan söluspampóst á samnemendur og sjái hvað setur. Í versta lagi sæki ég um undanþágu til að fá að vinna einn.

Dönsk/stelpísk hópverkefnavinnubrögð

(Maður á að muna að brjóta svona langlokur upp með millifyrirsögnum eftir því sem við á.)

Ég hef velt því fyrir mér hvort upplifun mín af hópverkefnavinnu (sérstaklega á þessari önn) sé meira árekstur íslensks og dansks menningarheims, eða karleðlis og kveneðlis. Það sem af er náminu hafa þeir hópar sem ég hef verið í alltaf verið með stelpum í meirihluta og yfirleitt er ég eini strákurinn (nema þegar við Claudio rembdumst við að vera ósammála í Interaktionsdesign, stelpunum til mæðu).

Það fer alveg lygilega langur tími í þessum hópum í að gera næstum ekki neitt.

Í dag vorum við t.d. í 3 klukkutíma að fara yfir orðalag á drögum að hlutaskilum í stóru verkefni. Við náðum að þvælast í gegnum einhverjar 12-13 síður (tæpan helming) og eigum eftir að taka a.m.k. aðra eins skorpu síðar í vikunni. Að ekki sé minnst á tímann sem á eftir að fara í að skrifa og lesa yfir lokaútgáfuna af verkefninu.

Í mínum huga væru gábbulegri vinnubrögð að hittast, ræða stöðu mála og úthluta verkefnum. Svo þegar textadrög liggja fyrir fær einhver það verkefni að lesa yfir og samræma - hinir fá svo tækifæri til að gera athugasemdir eftir á. Það að allir þurfi að vera sammála um allt er í mínum huga tímasóun.

En hvort þetta eru viðhorf stráka í hópvinnu, eða Íslendinga sem vilja taka hlutina með trompi og koma einhverju í verk veit ég ekki...

Þetta barst í tal á síðasta Fredagsbar og þær stöllur Erna og Steinunn voru á því að þetta væri líklega blanda af hvoru tveggja; þörf Dana fyrir að diskútera allt í drep og vandvirknieðli kvenna.


< Fyrri færsla:
Akkurru beta, akkurru?
Næsta færsla: >
Lífs að mestu
 


Athugasemdir (4)

1.

Sigmar reit 12. apríl 2005:

Held að þetta sé hvorki stráka né Íslandinga eðli að vilja "taka hlutina með trompi"...held að það sé frekar bara þitt eðli. Ég þekki allavegana nógu marga Íslenska stráka [ég þar með talinn] sem hafa ekkert á móti því að slappa aðeins af í hópavinnunni...

2.

Þórarinn.com reit 12. apríl 2005:

Ég hef líklega ekki orðað þetta verið alveg nógu skýrt. Ég hef ekkert á móti því að taka það hæfilega rólega í verkefnavinnu.

Það sem ég nenni ekki er að eyða heilu og hálfu dögunum í að rökræða um orðalag og reyna að verða 100% sammála um það. Þá vil ég frekar kýla á málamiðlun sem menn geta verið nokkurn vegin sammála um og halda áfram.

3.

Nína Björk reit 12. apríl 2005:

Til hamingju með afmælið um daginn Tóró minn. Gat ekki óskað þér til hamingju á sjálfum deginum þar sem ég var á leiðinni til N-Írlands. Svei mér þá, ég held að það hljóti að vera eitthvað til í stjörnuspeki. Þeir sem ég þekki og blogga eru þú, Ylfa, Sigga Lára, Toggi og ég. Ylfa er fædd 31. mars, ég 1.apríl, þú 2. apríl og Sigga Lára þann 4. Við sem erum fædd í kringum mánaðamótin mars/apríl erum sem sagt öll með athyglissýki á háu stigi (það að vera í leikfélagi segir líka sitt). Toggi er undantekningin sem sannar regluna, ætli hann sé samt ekki örugglega rísandi hrútur. Hvad tænker du?

4.

Þórarinn.com reit 13. apríl 2005:

Ég held að Toggi sé týndi hrúturinn.

Ég hef bæði séð hann hafa allt á hornum sér og jarma.

Þarf ekki frekari vitnanna við.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry