Det går fremmad...

Líkt og vera ber er allt á öðrum endanum í skólanum, enda ekki nema einn og hálfur vinnudagur til annarloka þegar þetta er skrifað á miðvikudagskvöldi. Næstum öllum kúrsum fylgir verkefnavinna og þeim á öllum að skila á síðasta degi annarinnar, á föstudag fyrir klukkan þrú (nákvæmlega). Auðvitað má skila verkefnum fyrr, en þrátt fyrir fögur fyrirheit tekst auðvitað engum að hafa sig í að skila fyrr en í allra síðustu vikunni.

Það er því setið í öllum skólans skúmaskotum fram eftir kvöldum og ekki laust við að sumir séu að verða heldur framlágir.

95% af samtölum í skólanum þessa dagana er eitthvað á þessa leið:

A: (brostinni röddu) Hvordan går det så?

B: (undan rauðþrútnum augum) Jo, det går fremmad... Men hos jer?

Yfirleitt eiga þessi samtöl sér stað við sælgætis- og/eða kaffisjálfsala hússins.

"Det går fremmad" er víst best snarað sem "það mjakast" og er kjörorð skólans þessa dagana.

Sjálfur á ég að skila þremur verkefnum og það er enn möguleiki á að það takist...

Stóra verkefnið okkar er í "Forundersøgelse" og þar þykjumst við vera búin að koma nokkurn vegin öllum texta saman. Óneitanlega minnir skjalið þó meira á slitið bútasaumsteppi heldur en rökfasta og samhangandi ritsmíð. Morgundagurinn er ætlaður í það og mun ef ég þekki þetta rétt ekkert veita af heilum degi. Við munum örugglega sitja við þar til yfir lýkur, þannig að ég geri síður ráð fyrir að fara snemma að sofa á morgun.

Ég er búinn að klára prófverkefnið í grafískri hönnun (1,9 MB pdf) og var rétt í þessu að klára meðfylgjandi greinargerð. Þegar ég kíki á skjalið átta ég mig á því að Kjarvalinn sem er heima í stofu hjá pabba og mömmu, og ég ætlaði að lauma inn í hönnunina er ekki með á neinni af endanlegu myndunum. Ég kenni um þreytu.

Þriðja verkefnið er í verkefnastjórnun, það er líka tilbúið í öllum aðalatriðum, en mig vantar bara góðan klukkutíma í fullri einbeitingu til að lesa það í gegnog prenta út.

Streitan segir eins og venjulega helst til sín í svefni (eða skorti þar á). Þannig vaknaði ég um klukkan fimm aðfaranótt þriðjudagsins og lá vakandi í rúma tvo tíma, en náði blessunarlega að sofna aftur.

Í gær var svo nokkuð drjúgur dagur, en þá sat ég við í skólanum til klukkan rétt rúmlega tíu um kvöldið.

Á föstudag verður svo "fest" í skólanum sem byrjar klukkan 22. Það er spurning hvort mannskapurinn muni endast lengi fram eftir nóttu. Reyndar geri ég ráð fyrir að föstudagsbarinn opni fljótlega eftir hádegi og þeir sem skila snemma geta náð einum eða tveimur bjórum, farið heim og lagt sig og komið svo aftur á djammið um miðnættið.

En nú er ég farinn í bólið. Laaangur dagur fyrirsjáanlegur á morgun.


< Fyrri færsla:
Skandinavísk jafnaðarstefna í verki
Næsta færsla: >
Stílblað dauðans
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry