Minns er kominn heim

Er kominn aftur úr prýðilegri ferð upp á Norður-Jótland að heilsa upp á Sigmar litla og kíkja aðeins á Gunna frænda í bakaleiðinni. Þetta var aðallega huxað sem smá tilbreyting frá hversdeginum (frekar en að vera t.d. menningarreisa).

Upphaf ferðarinnar minnti á flug frá Íslandi, mér hafði gengið bölvanlega að sofna, lá andvaka hálfa nóttina og var því dauðþreyttur þegar ég vaknaði til að tygja mig af stað. Nákvæmlega eins og þegar maður vaknar til að fara í morgunflug frá Íslandi. Ferðin uppeftir gekk annars án frásagnarverðra atburða, ók afturábak til Árhús og þaðan framávið til Álaborgar.

Sigmar tók á móti mér á lestarstöðinni og við röltum gegnum miðbæinn, fengum okkur að borða og nutum sólarinnar. Þaðan fórum við svo heim til hans og tókum það sem eftir var dags í golf, kappakstur, geimverumyrðingar, bjórsötr og mót í Pétanque á pétanque-vellinum í bakgarðinum hjá drengnum.

Á miðvikudeginum vaknaði ég fyrst við það að flokkur bauna í órans göllum leitaði inngöngu í íbúðina til að hreinsa niðurföll fyrir allar aldir. Verandi ýmsu vanur velti ég mér bara á hina hliðina og rumskaði næst klukkan rúmlega tólf. Alveg hreint fyrirtak.

Síðan fórum við bræður í miðbæinn og í verslunarleiðangur. Þeir sem til þekkja vita að við erum hvorugur miklir sjopparar, en í sameiningu tókum við drjúga skorpu í H&M. Mér telst til að ég hafi keypt tvennar buxur, þrjá boli, sex sokkapör og sólgleraugu á nokkurn vegin sama verði og einar buxur hefðu kostað mig heima á klaka.

Það hafði verið hugmynd að kíkja á kvöldlífið, en þar sem það var ekki nema miðvikudagur og ekki á mikið líf að treysta ákváðum við bara að haugast í tölvuleikjum um kvöldið.

Þegar maður fór svo að sofa á skynsamlegum tíma var ég kannski ekki endilega orðinn sérlega þreyttur (enda varla verið vakandi nema í 12 tíma) og ósyfjuðum flaug mér í hug að það væri nú óheppilegt ef ég yrði aftur andvaka hálfa nóttina. Þar með voru örlög næturinnar innsigluð og ég náði varla nema 3 tímum í almennilegan svefn.

Ég held ég þurfi að láta skipta út taugakerfinu í mér.

Í dag kvaddi ég svo drenginn hálfsofandi um níuleytið og tók lest til Árósa. Þar tók Gunni frændi á móti mér og við röltum um miðbæinn, kíktum á skólann hans og fengum okkur í gogginn. Mjög gaman að skoða borgina í leiðsögn arkitektanemans.

Svo var það bara að hoppa aftur upp í lest um hálf-þrjúleytið og ég var kominn til Köben ca. þremur tímum síðar.

Í tölvupósthólfinu beið mín tilboð um herbergi á stúdentagarði. Þar er ég annar af fjórum sem fá tilboð, sem þýðir að bókhaldsfiffið mitt hefur þrælvirkað. Verst að tilboðið er ekki á einu af þeim kollegíum sem ég hefði helst viljað komast inn á.

Helst vil ég komast inn á Eyrnasundskollegíið, enda flott staðsetning og ágætar aðstæður allar. Hins vegar þori ég ekki að hafa bara það á umsókninni minni, heldur sæki um nokkur kollegí hérna í nágrenninu.

Ég má afþakka eitt tilboð, en ef ég afþakka annað dett ég út af listanum. Ég er því að spá í að afþakka þetta og slá til á næsta, hvar sem það verður. Ef ég er ekki að fíla mig ætti ekki að vera mikið mál að fá að flytja sig innan kerfisins í vetur.

Fékk líka póst frá verkefnakennaranum mínum, hann er nokkuð jákvæður á það sem ég er búinn að senda honum. Nú er að bretta upp ermar og koma þessu í höfn á vikunni sem ég hef til taks.

Á leiðinni er ég búinn að vera að lesa reyfara sem á forsíðu skartar slagorðinu (hvað er tagline á íslensku?): "A deadly serial killer says it's time to play".

Mér er spurn, er til önnur tegund af raðmorðingjum? Non-deadly?

Í þessum orðum rituðum er undankeppni júróvisjón að verða hálfnuð, ég er á því að það besta við keppnina það sem af er séu kjólarnir (eða hráefnisskorturinn sem einkennir þá marga hverja). Held ég sé ekkert að kvelja mig lengur yfir þessu heldur skríða undir sæng.


< Fyrri færsla:
Kæruleysiskast í Álaborg
Næsta færsla: >
Burður leirs
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry