júlí 2005 - færslur


Mættur á Fálkagötuna

Eftir annasaman endasprett í veldi bauna þar sem gekk á ýmsu og margt fór öðru vísi en til stóð, er ég nú kominn heim á klaka og hef tekið upp búsetu á Fálkagötunni. Allt fór baunastússið vel að lokum og röðin á Kastrup reyndist þrátt fyrir allt ekki lengri en svo að ég hafði það af að komast í vélina. Heima í Keflavík tóku foreldrarnir óvænt á móti mér og á laugardagskvöldinu fórum við familían út að borða að fagna mastersgráðu Sigmars.

Fullar forsendur til betrunar

Nú er Surtla mín blessunin komin aftur til heilsu. Bekkjarbróðir minn úr grunnskólanum, Eiríkur Emils, lagaði hana með því að skipta um minni í henni - eins og mig grunaði fyrst virðist sem það hafi verið minnisglöp sem voru að hrjá hana. Það eru því allar forsendur fyrir því að færa til bókar helstu atburði liðinna vikna. En samt...

Flutningaspanið

Þá er kominn tími á örlítið umaxlarlit og segja frá fjörinu sem einkenndi síðustu dagana mína í Köben þegar sannaðist að hinar vandlegustu áætlanir eru einmitt þær sem klikka með mestum glæsibrag.

Beðið eftir strætisvagnastjóranum Godot

Verandi bíllaus og starfandi rétt utan göngufæris er ég háður stóru gulu vögnunum um flestar mínar ferðir þessa dagana. Áður en ég fór til Köben fannst mér í þau tiltölulega fáu skipti sem ég tók strætó að auk mín væru þar bara börn, gamalmenni og andlegir öryrkjar af ýmsum toga. Þótt það samræmist ekki fregnum af brjáluðum trukkainnflutningi frá Bandaríkjunum - þá hef ég á tilfinningunni að strætó sé meira notaður núna en áður, jafnvel af venjulegu fólki...

Damn you, Xalazar!

Reyndar mun réttari tilvitnun í Charlies Angels vera "Damn you, Salazar" (líklega bestu tilþrif á kvikmyndaferli Matt LeBlanc), en mig vantaði X í bölvunina. Sigmar bróðir keypti nebbnilega X-Box í Danmörku sem liggur ansi freistandi við höggi hérna í stofunni. Ekki svo að skilja að ég sé ALLTAF að spila eða horfa á einhvern spila, en ég sé heldur ekki fram á að skrifa the great Icelandic novel í sumar...

Þokubólstrar á heila

Líðanin í morgun var heldur undarleg. Ég var ekki þunnur og ekki syfjaður (ekki svo að skilja að það teljist undarleg líðan að vera laus við timburmenn á föstudagsmorgni). Hins vegar sat rauðvínsþamb gærkvöldsins og stuttur svefn í mér í mynd sem jaðraði við höfuðverk og olli ákveðnum einbeitingarvanda. Eins konar þokubólstrar á heila...

Hvað með gróðurinn?

Ég áttaði mig á því í dag að nú hefur ekki rignt í rúma tvo sólarhringa. Hvað verður eiginlega um blessaðan gróðurinn? Mér er spurn. Heima í sveitinni þar sem aldrei rignir (en úðinn getur stundum orðið svolítið þéttur) var það viðkvæðið þá sjaldan úðaði úr lopti að þetta væri nú gott fyrir gróðurinn...

Leynifélag lubbanna?

Í Hagkaup(i/um) í gær voru tveir náungar á þrítugsaldri að fylla á hillur. Báðir voru þeir með hár langleiðina niður á axlir og annar þeirra starði á mig í hvert sinn sem ég átti leið hjá (sem var oft, enda hafði ég enga hugmynd um hvar neitt var). Ég fékk helst á tilfinninguna að hann væri að bíða eftir að ég sýndi leynilega fingramerkið til að staðfesta að ég tilheyrði leynireglu lubbanna.

Allt að verða vitlaust í bjórnum

Nýjustu fréttir af fjölmiðlaæðinu í kringum Open Source bjórinn okkar eru þær að gestabókin á vefnum er full af kommentum frá Þjóðverjum sem höfðu lesið um fyribærið í Der Spiegel. Nú skilst mér að BBC sé að vinna að einhverju og vilji fá mig í símaviðtal!

Leikför í Heiðmörk?

Eru einhverjir lesendur í áhugaleikgeiranum á leið í Heiðmörkina á laugardaginn? Ég hef áhuga á að snapa mér far þangað...

Fjölmiðlafár

Á fimmtudeginum tók BBC World Service við mig símaviðtal um hlutdeild mína að bjórbrugguninni og það hvernig hugmyndir að verkefninu hefðu kviknað. Ég hef reyndar ekki getað grafið upp hljóðdæmi, en þetta var komið samdægurs á vefinn hjá þeim sem landafræðispurning(!). Í svarinu eru svo nokkrar beinar tilvitnanir í mig - þannig að hver veit nema ómþýðri rödd minni hafi verið útvarpað yfir alheim?

Bræður munu golfast

Á laugardaginn var haldið hið árlega bræðramót í golfi á Setbergsvelli í Habbnarfirði. Réttara væri ef til vill að segja að það hafi verið haldið á laugardagsmorgni, enda voru barefli dregin út úr sjálfrennireiðum fyrir klukkan níu! Ég hélt uppteknum hætti og sýndi mest bruðl með höggafjöldann (og reyndar kúlur líka).

Tvær tilvísanir

Ég er kannski að tapa mér í stuðlunum fyrirsagna, en hér eru tvær áhugaverðar síður sem ég hef rekist á í vikunni. Bráðsnjallt lyklaborð og lygilega flottar þrívíðar stéttateikningar.

Hjólað í leikhús

Á mánudagskvöldið tók ég hjól litlu systur traustataki og hjólaði í drjúgum strekkingi út á granda til að sjá leiksýningu. (Takk fyrir lánið Margrét!) Þar var um að ræða hálfopna lokaæfingu Hugleiks á Undir hamrinum (Country Matters) sem nú hefur verið fluttur til Mónakó og verður fluttur þar einhvern næstu daga.

Toro rennt

Ekki í þeim skilningi að mér hafi verið rennt eitt eða neitt, heldur að ég hafi hlaupið - á þýsku. Í gær var sem sé brennt í fyrsta langhlaup sumarsins, sem samkvæmt borgarvefsjá reyndist 8,5 kílómetrar. Tempóið var með rólegra móti, enda stefnt meira á seiglu en spretthörku. Niðurstaðan varð hins vegar tími sem hefði lokið 10 kílómetrunum á 55 mínútum.

Going pastoral

Þá er ég á leið heim í sveitasæluna í verslunarmannahelgarskrepp. Reyndar átti ég bókað far fljótlega eftir hádegið, en fékk í gær skilaboð frá flugfélaginu um að fluginu hefði verið seinkað framundir kvöld. Ég tek mér svo frí á þriðjudeginum og kem til baka til borgarinnar á þriðjudagskvöldinu.