Meiri sparðatíningur

Áður en lengra er haldið vill ritstjórn thorarinn.com biðjast velvirðingar á tilþrifaskorti skríbenta vefdagbókar þessarar. Vonir standa til að líf taki nú að færast í örlítið skipulegra form og þar með verði reglulegar færslur um atburði líðandi (eða nýliðinnar) stundar aftur ... reglulegar. Þangað til svo verður verður fyllt í eyður með sparðatíningi.

Auk þess sem áður hefur verið reifað á þessum vettvangi er ég núna búinn að:

  • Hitta flestalla hæðargranna mína á spjallfundi í eldhúsinu. Lofar góðu.
  • Skrá mig í kaupfélag um gosdrykkja- og bjórinnkaup hæðarinnar.
  • Kaupa greinasafn tilheyrandi einum kúrsi - þeim sama og ég er búinn að segja mig úr. Greinasafnið var reyndar keypt þótt úrsögn lægi fyrir.
  • Komast að því að það er ókeypis að þvo og þurrka hér á kollegíinu (eins og var á Gamla Garði eftir því sem ég best man - en ekki á Eggertsgötunni).
  • Læra að meta netútsendingu frá eftirlitsmyndavél þvottahússins. Þar má nefnilega greina hvort líklegt sé að vélar séu á lausu áður en rölt er niður í kjallara. (Þrautseigir lesendur geta dundað sér við að bíða eftir að mér bregði fyrir.) (Það verður þó ekki alveg á næstunni þar sem ég þvoði tvær vélar í dag.)
  • Fara í skoðunarferð ásamt nokkrum nágrönnum á fimmtudagsbar á systurkollegíi okkar.
  • Láta það í engu aftra heimsókn á föstudagsbarinn í mínum eigins skóla.
  • Setja upp loftljós.
  • Prófa að setja loftljósið á hvolf.
  • Fara í Genbrugs-markað hjá Hjálpræðishernum hér í þarnæsta húsi og kaupa mér tvo stóla á 30 krónur stykkið. Lesendur úr föðurættinni minni kannast eflaust við þá stólatýpu sem eldhússstóla í Ystaseli 9. Það er erfitt að sjá annað en að þessi eintök séu glæný og hljóta þau því að teljast í hópi betri stólakaupa minna (a.m.k. síðan ég keypti hægindastólagarmanana á 500 krónur stykkið heima á klaka) (þeir litu hins vegar ekki út fyrir að vera nýir).
  • Stíga fyrstu skrefin á Flash ferlinum með glæsilegum hreyfimyndum sem ekki verða gerðar opinberar.
  • Sjá alveg ótrúlega mikið af póker í sjónvarpinu. Mér hefur jafnvel dottið í hug að reynda að safna saman liði til spilana - svona til að prófa...
  • Græja flestallt í tengslum við innflutninginn, nema að kaupa mér blaðgrænu í viðeigandi umbúðum og klára að henda bylgjupappahræjum.
  • Henda út helling af kommentaspammi. Ákveða hvernig ég ætla að breyta forrituninni til að spyrna við fótum og efast stórlega um að ég nái nokkurn tíman að hrinda því í framkvæmd.

< Fyrri færsla:
Ilmandi fótbolti í Fælledparken
Næsta færsla: >
Portrett
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry