Pabbapunktar

Eins og lesendur sjá af nýfærðum langhundum er ég lox núna að gefa mér tíma til að færa til stafrænnar bókar ýmislegt sem á dagana hefur drifið.

Ég átti eftir að ljúka að skrá hér lýsingar á samvistum okkar feðga síðan við komum aftur úr Svíþjóðarförinni. Þetta verður í brotaformi (enda einkum ætlað fyrir mig þegar ég leggst í að skrifa æviminningarnar) og mér segir svo hugur að áhersla verði töluvert á át - enda einfaldara að halda skrá yfir afmarkaða atburði á borð við máltíðir heldur en t.d. ráf um merkar og ómerkar götur.

Það sem mig rámar helst í af því sem ósagt er:

  • Bíómyndin sem ég mætti á en horfði samt ekki á.
  • Kaffihúsamatur og bjór á Moccachino á Amagerbrogade.
  • Rauðvínssmökkun á hótelherbergi. Olli vonbrigðum þrátt fyrir gott vakúm.
  • Villisvínasteik við Grábræðratorg.
  • Jacobsen á enskum bar við Vesterbrogade.
  • Viðleitni til jólagjafaleiðangurs, sem af tæknilegum ástæðum verður ekki frekar rædd hér...
  • ...en þó skal nefnt að í Illum tók ég eftir seríu af stórum "hundaböngsum" sem minntu mjög á hundinn sem Vilborg fékk frá okkur föðurbræðrum í fyrra, nema þetta voru St. Bernharðshundar. Nánari skoðun leiddi í ljós sama framleiðanda og merkinguna "Specially made for Magasin" - í Illum! Skyldi nokkuð vera komnir sömu eigendur að báðum?
  • Jólabjórasmakk í Nýhöfn (Carlsberg Semper Ardens fékk hæsta einkunn okkar feðga).
  • Heit gúllassúpa í Nyhavn - síðustu bollar pottsins.
  • Mark Manchester United sem við misstum nokkurn vegin naumlega af.
  • Paulaner Weissbier Dunkel.
  • Amrískar deep-pan pizzur.
  • Koldökk skúffukaka etin í kirkjugarði í Hróarskeldu, skolað niður með WeightWatchers drykkjarjógúrti(!)
  • Fyrsta snjóþekja vetrarins fannst í sama kirkjugarði.
  • Þrívíddareffektarnir málaðir á flata veggi í kapellu Christians IV í Hróarskeldudómkirkju - lygilega sannfærandi, jafnvel á mjög stuttu færi.
  • Miðasölukonan í víkingaskipasafninu í Hróarskeldu sem varð svo mikið um þegar hún vissi að við vorum frá Íslandi þaðan sem systir hennar var nýlega komin og allt var svo brjálæðislega dýrt, að hún gleymdi næstum að láta okkur fá miðana.
  • Raunstærð víkingaskipanna.
  • Pastasalat á Höfuðbanagarði.

Bjórnöldur

Það sannaðist í þessari heimsókn að þótt ég hafi ekki endilega mikið vit á víni, er ég orðinn laginn að velja góða bjóra. Að því gefnu auðvitað að boðið sé upp á úrval eins og t.d. í litlu hverfismatvörubúðinni minni - ekki hörmung eins og í ÁTVR þar sem hægt er að fá sama pissið undir fjörtíu mismunandi nöfnum...

Hvenær skyldu íslíngar átta sig á bjórbyltingunni sem hefur gengið yfir báðum megin Atlantshafsins? Pilsnerar eru ágætir til síns brúks, en lífið býður bara upp á svo miklu miklu meira.


< Fyrri færsla:
Voveiflegt fráfall
Næsta færsla: >
Aðventubland í netapoka
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry