Þessi hávaxni dökkhærði með pókersettið

Í gær (á afmælisdegi uppáhaldssystur minnar) tók ég personal shopping assistant dauðans á orðinu og fékk hana með mér í leiðangur í Fields.

Þangað mættum við, ég með smávægilega magakveisu og Jónína að farast úr bakverkjum, fljótlega eftir hádegið. Þrátt fyrir að vera hvorugt 100% fyrirkallað held ég að við höfum bara staðið okkur nokkuð vel.

Afraksturinn var tvær peysur, önnur mjög í mínum stíl (Dóaleg eins og systkini mín myndu kalla það) (enda valdi ég hana sjálfur) en hin í örlítið djarfari lit (sem við völdum í sameiningu). Mig minnir reyndar að meginliturinn í henni sé einn þeirra sem litgreiningin sem ég fór í á fyrri hluta síðustu aldar hafi bent mér á að umgangast með varúð - en ég sló samt til.

Tvær peysur, 450 krónur.

Þótt það væri ekki yfirlýst markmið ferðarinnar höfðum við augun opin fyrir gallabuxum á mig og sú eftirgrennslan leiddi sitthvað í ljós. Nú á tímum er t.d. ekki bara hægt að kaupa buxurnar forsnjáðar, heldur er hægt að kaupa þær með götum og jafnvel blettum. Call me old fashioned, en ég kýs að sjá sjálfur um að setja bletti í mín eigins föt og því heilluðu buxur með kaffislettum á lærum eða barnaskitugulum flekkjum mig ekki. Það virðist hins vegar vandaverk að búa til góð göt og yfirleitt voru götóttar buxur dýrari en heilar.

Hitt var enn meira áberandi að samsæri dverganna tröllríður ríkjum í Fields (ég sver að það var óvart að nota orðið "tröllríður" í þessu samhengi - en það á ekki verr við fyrir vikið). Það var hvergi að sjá buxur í sídd 36 og í þau örfáu skipti sem við fundum extra síðar buxur í 34 þá voru þær ekki til í breiddum sem rúma mín vöðvastæltu læri.

Gallabuxnakaup voru því sett í salt að sinni.

Það sem mér þykir þó helst í frásögur færandi í þessum leiðangri var að ég lét undan freistingunni og keypti mér "prófessjónal pókersett" í sérlega tilkomumikilli áltösku. Flotta grillsettið mitt í leigumorðingjatöskunni bliknar hreinlega við samanburðinn.

Þannig að þegar ég spila póker í þriðja sinn á ævinni með "alvöru" spilapeningum verður það líklega með míns eigins setti (hvenær sem það nú verður). Ég á sannast sagna ekki von á að slíta settinu í göt neitt á næstunni, en fyrir 129 krónur stóðst ég ekki mátið að líta á þetta sem framtíðarfjárfestingu. Þannig að nú á ég 300 spilapeninga, tvo pró stokka og fimm teninga í áltösku. Hvað þessir teningar koma póker við hef ég ekki enn áttað mig fyllilega á, en þeir sóma sér ágætlega í töskunni.

Það sem helst kemur í veg fyrir að pókersettið verði að helsta einkenni mínu (sbr. "Tóró? Það er þessi hávaxni dökkhærði með pókersettið") er að taskan með öllu innihaldi vegur að minnsta kosti 5 kíló og fellur þar með rétt utan við skilgreininguna á "léttavöru".

Dóalegu peysurnar og sauðssvipurinn verða því enn um sinn mín helstu kennileiti.

Ég keypti reyndar líka Biotex sprey, en þar sem það var ekki á tilboði mun ég ekki hafa um það fleiri orð.

Jeg har altid været svag for kolonierne

Um kvöldið kíkti ég svo í te til Tóta og Auju. Við hittumst úti á götu rétt hjá heimili þeirra þar sem þau voru á hressingargöngu með mömmu Tóta. Þau áttu erindi í hverfissjoppuna og þar fyrir utan áttu við okkur einhver orðaskipti tveir glaðbeittir (en útvatnaðir) fulltrúar frelsishreyfingar Austurbrúar.

Ég náði reyndar ekki að greina orðaskil, en þeir komu á eftir okkur inn í sjoppuna og þar átti ég smá spjall við annan þeirra.

Kallinn var á að giska sextugur (þótt erfitt sé að meta aldur svona atvinnumanna í drykkju) og þótt hann virtist ekki tilheyra fótgönguliði götunnar fór ekki á milli mála að þetta var ekki í fyrsta skipti sem hann fékk sér í tána.

Áberandi bláar og rauðar æðar á hvítum bakgrunni gerðu það að verkum að andlitið á honum var meira í íslensku fánalitunum heldur en nokkrum öðrum litum.

Hann var hálf þjösnalegur í tali framan af (án þess nokkurn tíman að vera ógnandi) og hans fyrsta spurning til mín var hvort ég væri øbo, ég þurfti að hvá áður en ég náði því að hann væri að spyrja hvort ég væri eyjarskeggi. Ég játaði því að sjálfsögðu og sagðist vera frá eyju "langt op i nord".

Þetta vakti forvitni hans og með augað í pung byrjaði hann að telja upp (það sem ég geri ráð fyrir að hafi verið) nöfn á dönskum eyjum.

Ég sagðist koma mun norðar að og þegar hann rak upp stór augu (eða jafn stór og augnpokarnir leyfðu) sagðist ég vera frá Íslandi. Við þetta breyttist allt hans fas, hann steig hálft skref afturábak, rétti úr bakinu og eitt augnablik hélt ég að hann ætlaði að gera honnör þarna í hverfissjoppunni en hann lét sér nægja að rétta mér höndina með tilþrifum og með örlítinn slefdropa í munnvikinu lýsti hann yfir gleði sinni með að hitta ungan mann frá einni af nýlendunum, hann hefði löngum verið veikur fyrir þeim. (Það er að segja nýlendunum - hann hafði engin orð um veikleika fyrir ungum mönnum.)

Hann tók það fram að vissulega væri hann "berused", en hann hefði unnið hörðum höndum og vaknað snemma um morguninn. Þar með tapaði hann þræðinum í því umræðuefni og snýtti sér.

Eftir að hafa sagt mér sögu af sauðum hjá járnbrautunum sem höfðu sagt eitthvað heimskulegt þegar hann reyndi að panta hjá þeim miða barst talið að íslenskri kirkju sem hann mundi ekki nafnið á. Sannast sagna skildi ég ekki hvar járnbrautasagan passaði inn í samhengi hluta, enda skildi ég ekki alveg söguna, en það virtist ekki há kallinum neitt.

Varðandi kirkjuna þá mundi hann það eitt að hún væri óvenjuleg bygging, spurði mig fyrst hvort það gæti verið að hún væri hlaðin úr múrsteinum en ég taldi það ólíklegt. Þótt flestallar íslenskar kirkjur eigi það sameiginlegt að vera óvenjulegar byggingar ákvað ég að fiska eftir því hvort hann væri að tala um Hallgrímskirkju og eftir að hafa teiknað útlínur hennar í loftið með fingrunum lýsti ég henni sem einna líkastri Concorde í laginu.

Þetta kveikti á einhverjum perum hjá kallinum, en hvort það var vegna þess að þetta væri kirkjan sem hann var að spá í eða vegna þess að hann hafði nostalgískar taugar til Concorde (sem hann vissulega hafði) skildi ég ekki alveg.

Eftir að hafa spjallað aðeins um Concorde þoturnar, nafn Hallgrímskirkju og mitt eigið var kominn tími á að ljúka samtalinu og yfirgefa sjoppuna.

Félagi hins nýja vinar míns fylgdi okkur út og lýsti því yfir að við mættum halda Björk og einhverju sem ég náði ekki alveg, en Nørrebro fengjum við aldrei.

Þegar við gengumst undir þessa skilmála skildum við við hann syngjandi baráttusöngva í miklum móð.

Yfir teinu var rætt um íslenska fjölmiðla, sér í lagi DV og skipst á sögum. Ég var þar í ákveðnum minnihluta, hafandi aldrei unnið á DV en lét samt ljós mitt skína eftir því sem við átti.

Fyrsta einkunn í húsi

Í morgun fékk ég svo fyrstu einkunnina fyrir nýliðna önn; 11 fyrir Balls. Það er einkunn sem ég er mjög sáttur við, en þar með tel ég ljóst að ég mun ekki fá 13 á námsferli mínum hér í Danaveldi. Ekki það að ég hafi átt von á að fá 13 fyrir leikinn, en það var þó örlítill möguleiki.

En nú er ég á leið yfir í skóla að hitta Emilie og pabba hennar að ræða huxanlegt vefsmíðaverkefni fyrir fyrirtækið hans. Í framhaldi af því hittum við svo væntanlegan leiðbeinanda okkar í lokaverkefninu og heyrum hvað hann hefur að segja um okkar núverandi hugmyndir.

Og svo verður maður auðvitað að skála fyrir föstudeginum 13.


< Fyrri færsla:
Hlaup og verslanaþramm
Næsta færsla: >
Tveir góðir fundir
 


Athugasemdir (4)

1.

Siggi hennar Huldar reit 13. janúar 2006:

Legg hér með opinberlega inn pöntun á pókerkvöldi í nánustu framtíð. Síðarihluti janúar kemur sterklega til greina.
kveðja, Siggi

ps. Ef við værum bræddir saman og deilt svo í tvo jafna hluta yrðum við sennilega hið besta gallabuxnamódel.

2.

Sesselja Björg Stefánsdóttir reit 13. janúar 2006:

Sem stórkostlegum aðdáenda síðunnar;O) og af því að pabbi þinn tók á móti mér þegar ég fæddist og afþví að ég hef séð þér bregða fyrir á götum borgarinnar og var ekki í vafa um ætternið þó að nafnið hafi fyrst komið síðar, þá sé ég mig knúna til að blanda mér í málin! Þó ekki til að bjóða mig fram sem personal shopping assistant.
En á Strikinu er búð sem heitir 12´eren (beint á móti Baresso coffee). Þar er mjög fín þjónusta og gott úrval af gallabuxum í viðeigandi lengdum og þar er útsala núna!
Það er íslenskt bókasafn í Jónshúsi en afskaplega margt af því sem er þar var skrifað löööngu áður en við fæddumst. Ekki að það sé ekki gott og gilt en samtímabókmenntir er lítið af vegna fjárskorts. Hinsvegar eru samtímaheimildir á Árna stofnun Magnússonar úti á nýja KUA en þar verður maður að hreiðra um sig á safninu og lesa!
Bestu kveðjur
Sesselja

3.

Þórarinn sjálfur reit 14. janúar 2006:

Siggi: Styð það, pókerkvöld í lok janúar hljómar mjög freistandi. Ég held að sambræðingur vor, Þórarður, yrði án efa mjög glæsilegt módel.

Sesselja: Ég hef löngum þótt bera það með mér hverra manna ég er, en þetta er held ég í fyrsta sinn sem kennsl eru borin á ættarsvipinn á götum útlandsins (ef ég skil þig rétt). Takk fyrir ábendingarnar, ég kíki eflaust á gallabuxur strax eftir helgi og kannski í bókmenntaleiðangur þegar færi gefst.

4.

Sesselja reit 16. janúar 2006:

Jú það er rétt skynjað að ég hef séð þér bregða fyrir á götum Amager og gleymdi að láta þes getið að ég væri austan af Héraði..svo að þú haldið ekki að þetta sé einhverjir yfirnáttúrulegir hæfileikar!!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry