Bruðlið heldur áfram

Eftir að hafa gert ítrekaðar tilraunir til að góma tvær þvottavélar (greinilegt að danskir taka stórþvotta gjarna á mánudögum), snætt hádegisverð í skólanum (og er enn að reyna að gera upp við mig hvort kanilsósa á grísahámborgara sé góð hugmynd), lesið vandlega í gegnum verkefnið mitt með rauðan penna á lofti (reyndar blýpenna) og keypt möppuógrynni mikið til að koma skikki á pappírsflóð heimilisins, hélt ég í annan Jysk leiðangur.

Ég var kannski fullfljótur á mér að kalla Jysk á Amagerbrúargötu skítabúllu (en ber fyrir mig slæmri reynslu af yfirdýnukaupum þar). Eftir að hafa sannfært mig um það á netinu að geimfarasængurnar ógurlegu eigi líka að vera til í dúnútgáfu ákvað ég að gera aðra tilraun. Sú eftirgrennslan leiddi í ljós nokkuð vandlega falið eintak af hinni fyrirheitnu sæng og þar sem hún er þessa dagana seld með á að giska 40% afslætti sló ég snarlega til.

Þar áður hafði ég keypt tvær tágakörfur til smáhlutautanumhalds og beit lox höfuðið af bruðlskömminni með því að kaupa mér tvö púðaver (hef mér það þó til afsökunar að þau voru á útsölu).

Ég hef lengi verið á leiðinni að gera eitthvað í því að sauma utan um tvo stóra púða sem ég keypti í IKEA í haust (á meira að segja efnið tiltækt, áður notað sem skápshurð í fyrri heimkennum) en þar sem ég er ekki með saumavél hér í útlandinu og veit satt best að segja ekki um neinn sem býr yfir slíkum grip hefur ekki enn orðið úr því. Ég kunni heldur ekki við að taka vefnaðarvöruna með mér heim um jólin, en hef nú leyst málið með því að kaupa fyrrnefnd púðaver.

(Stafsetningarmátinn "heimkennum" er tileinkaður austurlenskum uppruna mínum.)

Þá er bara að ákveða hvað ég geri við fyrrum skápshurðina...

Venjulega sef ég með tvær sængur í rúminu, en í nótt verða þær þrjár - a.m.k. meðan ég ákveð hvort það verður gamla góða (en hripleka) dúnsængin eða þunna sumarsængin sem verður sett á bekkinn með tilkomu nýja gripsins.

Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að tékka á stöðunni á bankareikningunum mínum - og ég á enn eftir að kaupa mér gallabuxur.

Hef grun um að innkauparáðgjafar mínir (en þeim fer fjölgandi með hverri viku sem líður) sætti sig ekki við að ég kaupi tilboðsbrækur í Dressmann, þannig að ég set strikið upp á Strik á allra næstu dögum.


< Fyrri færsla:
Hlaupt í skíhítakulda
Næsta færsla: >
Beðmál, blankheit og verkefnaflóð
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry