Beðmál, blankheit og verkefnaflóð

Speissængin ógurlega kom ágætlega út úr fyrstu prófunum. Ég varð svo sem ekki var við að ég svæfi áberandi betur en áður, en var þó hvorki kalt né of hlýtt sem mun einmitt vera tilgangurinn með græjunni.

Í svefnrofunum í morgun velti ég því fyrir mér þar sem ég lá með tærnar út undan sænginni hvort ég hefði kannski átt að skella mér á 220 cm löngu útgáfuna en var fljótur að sannfæra mig um að þetta hefði verið rétt val. Í fyrsta lagi passa 220 cm sængur ekki í nein fjöldaframleidd sængurver og í öðru lagi veit ég ekki hvort það myndi muna neinu að ráði um 20 sentimetra. Það er frekar að græja sér bara sérstaka tásæng, annað hvort stóran kodda eða ungbarnasæng sem maður getur fest við aðalsængina og látið slúta fram yfir fótendann á rúminu. Það væri brill.

Annars er ég vanur að sofa alltaf með tvær sængur, á sumrin er þunna sængin fyrsta val en hægt að grípa til þeirrar þykku ef það er hrollur í manni. Á veturna ræður þykka dúnsængin ríkjum og sú þynnri er oft til fóta sem tásæng.

Það var bara fyrir skömmu síðan sem ég áttaði mig á því að með því að færa mig yfir í hægri hliðina á rúminu (og hætta að sofa annað hvort í miðjunni eða vinstra megin) eru fæturnir á mér alveg upp við ofnendann og þarf ekki nema rétt að leggja sængina yfir á ofnbekkinn til að fá notalega hlýtt loft streymandi upp undir sængina.

En fyrst um sinn fær speissængin að njóta sín ein og sér, án fótasængur eða ofnavirkjunar, meðan reynsla er að komast á hana.

Blankheit og altzheimer light

Það var eins og mig grunaði að sængurkaupin hjuggu skarð í dankort inneign mína. Ég manaði mig lox í að skoða stöðuna á reikningnum mínum og komst að því að innistæðan er komin niður í þriggja stafa tölu. Gallabuxnakaupum er því sjálffrestað um sinn (nema auðvitað ég láti Vísu frænku bjarga málum).

Þegar ég fór í að græja millifærslu að heiman tók ég eftir að það er ekki nema rétt rúmlega mánuður síðan ég millifærði drjúgan slatta sem nú er gersamlega gufaður upp. Eftirgrennslan á dankort reikningnum mínum leiddi í ljós stóra færslu þann 21. desember, í verslun hvurs nafn hringdi einhverjum bjöllum en ég gat þó ómögulega munað hvaða verslun þetta væri né hvað ég hafði keypt svona dýrt rétt fyrir jólin.

Það var ekki fyrr en ég tékkaði á nafni verslunarinnar á vefnum að það rifjaðist upp fyrir mér að Thiele er gleraugnaverslun og að ég var með fjárfestinguna á nefinu meðan á þessu grúski stóð. Kvittunin frá þeim liggur meira að segja enn á skrifborðinu rétt við hliðina á tölvunni.

Ég hugga mig við það að smá prófessorsháttur er hluti af ríkjandi erfðamengi mínu.

Verkefni í ökkla eða eyra

Ég er að byrja að vinna mig í gegnum bókina Getting Things Done sem ég fékk í jólagjöf eftir pöntun. Í síðustu viku las ég kafla þar sem maður var beðinn að hugsa um eitthvað verkefni sem brynni á manni og skrá hver væru huxanleg næstu skref. Ég mundi ekki eftir neinu.

Nú er staðan hins vegar sú að á næstu vikum ætla ég að:

  • Uppfæra Vasavefinn fyrir ættarferðina í byrjun mars.
  • Rumpa upp einum vef fyrir nígerískt fjárfestingarfyrirtæki.
  • Byrja að hanna stærri vef fyrir nígerískt bílaþjónustufyrirtæki.
  • Forrita og setja upp þróunarumhverfi fyrir augnstýringartilraunir tengdar lokaverkefninu.
  • Framkvæma nokkrar missýnilegar breytingar á virkni thorarinn.com

Ég var því búinn að afskrifa það (sökum annríkis) að taka þátt í Flash verkefni sem ég hef verið beðinn um að kíkja á. Í dag hitti ég hins vegar Sigga (senior) sem þá var nýkominn af fundi með væntanlegum verkkaupa og hann lýsti verkefninu.

Ef af verður yrði minn verkhluti að setja upp lógík fyrir hreyfingar skips, að teknu tilliti til nokkurra mismunandi skrúfna, strauma og vinda fyrir skipstjórnunarlíkan. Ég get ekki neitað því að þetta höfðar aðeins til raungreinanördsins í mér og ef jákvætt svar fæst á verðhugmynd Sigga ætlum við að setjast betur yfir þetta.

Minn hluti gæti samsvarað einni mánaðarleigu eða tveimur og það munar um minna fyrir blankan námsmann.

Nígeríuverkefnin ættu sömuleiðis að geta gefið svolítinn aur í kassann.

Það er því kannski upplagt að taka næstu vikur í að prófa skipulagstæknina sem prédikuð er í bókinni (og gengur í stuttu máli út á það að koma öllu sem maður hefur lagt á minnið út úr minninu og niður á blað til að auka vinnslugetu og létta af stressi).

Ég mun því líklega stökkva úr því letilífi sem ég hef leyft mér undanfarna daga yfir í hressilega verkefnatörn. Það verður fín tilbreyting.

(Fyrir þá lesendur sem ekki hafa áttað sig á því, þá er stríðari (e. teaser) þessarar færslu algert bull. Ég svaf ekki á gólfinu.)


< Fyrri færsla:
Bruðlið heldur áfram
Næsta færsla: >
Umbótaverkefni nýhafins árs
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry