Á sunnubjörtum degi

Í gær var mér með stuttum fyrirvara boðið í skírnarveislu Christian Valdemars, skipulagðrar af þeim Egesystrum; Ingu Rún og Júlíu. Það var viðeigandi að veisla til heiðurs Christian litla skyldi haldin í Christianiu, nánar tiltekið á Spiseloppen.

Það er staður sem ég hef ekki komið á áður, en það er aldrei að vita nema maður skelli sér þangað aftur við tækifæri. Maturinn var virkilega góður, lifandi dinnertónlist, þjónustustúlkan okkar stóð sig vel við krefjandi aðstæður, en það sem kannski mestu um munaði að félagsskapurinn var góður.

Við vorum 22 við borðið, fólk úr öllum áttum og ég held að þær systur hafi verið þær einu sem þekktu alla. Ég sat við annan endann með Tóta, Auju og Ulrik sem var eini Daninn við borðið. Eins og ég hef áður fært til bókar er Ulrik kempa mikil, en svei mér þá ef honum vöknaði ekki um augu þegar hann áttaði sig á því að ástæða þessa útlendingasamsætis væri skírn prinsins (sem hann var nota bene á að færi betur að kalla Valda heldur en Kidda).

Lauslega ágiskað þekkti ég kannski þriðjung gestanna fyrir og þótt sætaskipan hafi verið öllu lausari í reipunum eftir aðalréttinn náði ég lítið sem ekkert að spjalla við fólk á fjærendanum.

Verðlagið á staðnum virtist svipað og á íslenskum miðlungsstað, kannski ívið hærra en maður hefði búist við af ytri umbúnaði (eins og Björgvin (minnir mig) benti á er stiginn upp á staðinn ekki sérlega aðlaðandi og fælir eflaust einhverja frá aftur). Stigagangurinn er líka alveg óupphitaður og ákveðin hætta á kalsárum ef staldrað er þar of lengi við á leið á klósettin á hæðinni fyrir ofan.

Hins vegar er það ekki svo oft sem maður fer "fínt" út að borða og engin ástæða til annars en að gera vel við sig, enda hikuðum við Auja sessunautur minn ekki þegar eftirréttamatseðillinn kom heldum splæstum á okkur dýrindis kökum.

Maður lifir þá bara á hrísgrjónum í vikunni í staðinn.

Eins og við mátti búast flæktust svo málin þegar einn heildarreikningur barst á 22 manna borð. Þar stefndi á tímabili í örvæntingu þegar ljóst þótti að þrátt fyrir að flestir hefðu smurt aðeins á sín framlög vantaði enn 150 kall danskan - eftir margalningu atkvæða kom lox upp úr dúrnum að einn gesta átti alveg eftir að leggja sinn hluta í púkkið þannig að allt hafðist þetta.

Það höbðu verið vissar umræður um hvert skyldi halda að áti loknu, hugmyndin um karókíbarinn hlaut ekki einróma undirtektir þannig að þess í stað var stefnan tekin á menningarmiðstöðina Turbinehallerne.

Þegar út kom stóðum við nokkur og ræddum hvernig best myndi að standa að því að krækja í leigubíla, hvort réttara væri að labba beint í átt að Christianshavn eða taka smá krók eftir Prinsipessugötu. Þar hafði sig einna mest í frammi ungur maður í rauðri hettupeysu sem var alveg með allar áttir á hreinu og tók lifandi þátt í umræðunum, lauk hins vegar sínu innleggi á að benda okkur á að hvert sem við færum skyldum við ganga fallega og hvarf þar með á braut.

Eftir stóðum við nokkur opinmynnt meðan við vorum að kveikja á því að þetta hafði ekki verið einn matargestanna heldur bara einhver Íslendingur sem hafði átt leið framhjá af tilviljun og ákveðið að blanda sér í umræðuna. Það kæmi mér ekkert á óvart þótt hann hefði reynst örlítið jákvæður í kannabispissutesti...

Það er svona þegar enginn þekkir alla í hópnum.

Ég tók leigubíl með Ulrik, Tóta og Auju sem kenndi bæði Ulrik og bílstjóranum að segja "Það var lagið!" og einhvern annan frasa sem ég er passlega búinn að gleyma.

Í hverflahöllum

Þegar að Túrbínuhöllum kom færðust vöfflur á hluta mannskaparins yfir skiltinu sem auglýsti hljómsveitir og plötuþeytara undir yfirskriftinni "Klub Trash", 60 króna aðgangseyrinum og ruslarokkstónunum sem bárust úr kjallaranum.

Staðurinn reyndist hins vegar uppfylla öll þau skilyrði sem til hans var hægt að gera. Við náðum að leggja undir okkur langborð mikið og tilheyrandi trébekki (svona extended útgáfa af áningarstöðvarborði), tónlistin var ekki hærri en svo að það var bærilega hægt að gera sig skiljanlegan við nærstadda og bara nokkuð heimilislegt að bjórinn var seldur í Carlsberg Tuborg dósum. Ekkert glasa- eða kranakjaftæði þar.

Þegar leiklistarneminn Finnbogi gaf sig á tal við mig hélt ég fyrst að hann væri að skála við mig, en í ljós kom að hann hafði heyrt að ég ætti að vera skáld. Ég veit ekki hvort hann hafði það frá einhverjum sem hafði ruglað okkur Auju saman (en við erum fjandakornið varla svo lík?). Hins vegar er örlítið meiri svipur með mér og Braga Ólafssyni skáldi sem sat þarna líka með okkur (og mun vera í næstu línu á eftir Braga Ólafssyni rithöfundi í íslensku símaskránni).

Ekki svo að skilja að við Bragi séum sérlega líkir, en þó kannski örlítið líkari en ég og Auja.

Finnbogi var hins vegar ekki á því að hann væri að fara mannavillt og ég reyndi bara að bera mig mannalega og snúa talinu að hátindi leikritunarferils míns (til þessa) sem umræðuefni sem brúaði bæði skáldleg tilþrif og leiklist.

Að sjálfsögðu voru mörg önnur spjöll höfð í frammi þetta kvöld en nafngiftir bóla og kynfæra, barmstærðir og aldurstvöfaldanir eru ekki umræðuefni sem þykir við hæfi að ræða í fjölskylduvænni dagbók sem þessari.

Um þrjúleytið tók heldur að sækja á mig syfja, þannig að ég ákvað að taka hatt minn og staf og staulast í metróinn. Þá var enn nokkuð af hópnum í góðum gír (enda hætt að sjá í borðið fyrir dósalíkum) og að auki höfðu orðið nokkur mannaskipti með nýjum gestum sem dúkkuðu upp (hvað eru eiginlega margir Íslendingar á djamminu í Köben á normal laugardagskvöldi?).

Metróferðin var tíðindalaus með öllu og ég rölti heim í næturstillunum einhverntíman milli 3 og 4 og dáðist að þunnum ísbrynjum á grindverkum og trjágróðri.

En þetta var heilt yfir frábært kvöld og ég er mjög þakklátur skemmtinefndinni fyrir að hafa boðið mér með.

Uppfært: Skemmtinefnd hefur birt myndir frá kvöldinu, þar sem ber hæst látum-myndavélina-ganga gestabók og mér sýnist nokkuð samviskusamlega skráðir allir nærstaddir.

Sunnudagur sem stendur undir nafni

Þegar ég vaknaði fyrst í morgun var ég ekki alveg hamingjusamasti tjaldbúi í heimi enda krafðist skrokkurinn meiri hvíldar. Það lét ég eftir mér og sofnaði aftur. Eftir þann lúr og að hafa legið í rúminu um stund og horft með öðru auganu á ofurhallærislega mynd með Burt Reynolds í sjónvarpinu dröslaðist ég fram úr tiltölulega fljótlega eftir hádegið.

Í samræmi við fyrri yfirlýsingar um grjónaát mallaði ég mér velling í hádegismat.

Þegar ég lox hafði mig í að draga frá blasti við sólbjartur dagur og ekki annað hægt en að viðra aðeins sjálfan sig og reykmettaðan frakkann. Af þeirri gönguför um nágrennið er fátt fréttnæmt, gekk reyndar fram á sjúkraflutningamenn drösla manni á börur en kunni ekki við að hnýsast neitt meira í það mál. Af ummerkjum að dæma sýndist mér þó líklegast að hann hefði "bara" dottið illilega.

Ég hnýstist heldur ekki í athæfi manns á mínum aldri sem gekk drjúgan spöl samstefna mér á hinni gangstéttinni, íklæddur grænni hermannapeysu með uppábrot á gallabuxunum og berfættur í snjónum!

Hann leit hvorki út fyrir að vera merkjanlega ölvaður né áberandi geðveikur. Hann virtist einfaldlega í hressingargöngu um hverfið.

Ég hélt mig samt til öryggis í hæfilegri fjarlægð. Á tímabili sýndist mér hann vera á leið á kollegíið mitt og var byrjaður að velta því fyrir mér hvort hann myndi þurrka af fótunum á sér á mottunni í anddyrinu og upp á hvaða umræðuefni ég gæti bryddað ef við lentum í því að bíða saman eftir lyftunni. Til þess kom þó ekki og hann kjagaði inn nærliggjandi götu.

Þótt ég sé laus við merkjanlega þynnku er ég ósköp latur og hef alveg látið það eiga sig að halda áfram í skipulagsátakinu. Ætla bara að tjilla í kvöld og vera kannski aðeins duglegri á morgun.


< Fyrri færsla:
Kiddi Vaff
Næsta færsla: >
Ég skilekki skilekki
 


Athugasemdir (2)

1.

Inga Rún reit 22. janúar 2006:

takk fyrir frábæra kvöldstund þó við höfum nú ekki náð mikið að spjalla. mjög skemmtileg lýsing á atvikum kvöldsins:)

2.

Þórarinn sjálfur reit 23. janúar 2006:

Takk sömuleiðis fyrir mig.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry